Fyrir tveimur vikum fór ég í fyrsta skipti til sjúkraþjálfa. Játa fúslega að ég kann ekkert á slíkt enda aldrei farið í slíkan tortúr áður. Komst fljótlega að því að það eru ekki tannlæknar sem eru sadistar heldur eru sjúkraþjálfar sadistar dauðans. Ég var látinn hreyfa handlegginn sem hafði sem minnst verið hreyfður mánuðinn á undan. Ekki hreyfðist hann nú mikið og fljótlega fékk ég á tilfinninguna að sjúkraþjálfanum þætti ég vera hinn argasti aumingi. Bað mig náðarsamlegast að reyna að hreyfa liðinn en ekki bara öxlina alla... svona eins og ég væri bara að svindla.
Sársaukinn var alveg ágætur en ég reyndi að æmta hvorki né skræmta. Svo var ég settur í eitthvað leðurólatól og átti að hafa handlegginn í einhverri frekar mjög óþægilegri stöðu í 10 mínútur. Það var vont en ekki svo en þá fór mér bara að sortna fyrir augum og var hálf liðið yfir mig, sem sjúkraþjálfinn gaf nú ekki mikið út á en spurði hvort það væri venjulega að líða yfir mig, sem ég þvertók fyrir. Veit ekki hvort honum fannst ég bara vera aumingi en niðurstaðan varð sú að ég skyldi bara fara heim og vera í fatlanum næstu tvær vikur og koma svo aftur.
Ef þessi sjúkraþjálfi væri ekki að mér skilst einhver færasti axlasjúkraþjálfi landsins, þá hefði ég líklega reynt að finna einhvern annan.
En núna eru þessar tvær vikur sem sagt liðnar og ég fer aftur til hans eftir hádegið í dag. Get ekki sagt að ég hlakki beinlínis til.
No comments:
Post a Comment