"Bók þessa má ekki selja"
Fékk bók í jólagjöf. Hafði reyndar sjálfur gefið mér Öræfin hans Ófeigs en fékk Guðbergs Bergssonar, Þrjá sem sneru aftur frá foreldrunum. Held að ég hafi aldrei lesið heila bók eftir Guðberg Bergssonar, bara einhver brot eða stuttsögur. A.m.k. ekki neitt sem ég man almennilega eftir. Hélt að það væri alltaf eitthvað erfitt að lesa Guðberg en það var líklega bara Tómas Jónsson metsölubók sem var erfitt að lesa. Þessi var lesin með skíðaferð, útsofelsi, jólamat hjá foreldrum og skíðatúr í Heiðmörk á jóladegi.Bókin að vissu leyti ágæt og lýsir vel því sem stendur á vefsíðu útgefandans: "Höfundur dregur upp hárbeitta mynd af samfélagi á tímamótum; af eilífri baráttu manneskjunnar fyrir tilveru sinni, glímunni við fáfræði og fásinni, sannleika og lygi, heimsku og græðgi." en þar við situr finnst mér. Megnið af bókinni fer í að segja frá þessari glímu fólks við fáfræði og annað upp talið og það er bara gott en seinasti fjórðungurinn af bókinni fer einhvern veginn í að loka söguþræðinum og láta þá þrjá snúa aftur. Kannski var ég orðinn syfjaður í lok búkarinnar en ég held að höfundurinn hafi þá líka verið orðinn syfjaður. Það var hlaupið allt of hratt yfir og bókin einhvern veginn eins og það hafi verið ákveðið að klára hana sama hvað tautaði eða raulaði fyrir einhvern ákveðinn tíma eða áður en blaðsíðurnar yrðu orðnar of margar.
Sem sagt, hin ágætasta bók þangað til höfundurinn ákvað að klára hana. Undirtitill hennar hefði svo mátt vera: "Bók þessa má ekki selja"
No comments:
Post a Comment