Saturday, August 23, 2014

Hvar eru eldstöðakerfin?

Eldstöðakerfi skv. korti Veðurstofunnar og ágiskaðar línur undir jökli viðbættar skv. bók um náttúruvá.

Ég heyrði grínast með það fyrr í dag að ef sprungan, berggangurinn eða virknin (hvað svo sem við viljum kalla það) við Bárðarbungu héldi áfram að lengjast meira til norður þá færi á endanum að gjósa í Öskju. Kannski bara sagt í gríni en þá má skoða hvar eldstöðvakerfi í Vatnajökli eru talin liggja. Þá er ekki hægt að sjá annað en að virknin hafi færst út af því svæði sem hefur hingað til verið talið til Bárðarbungueldstöðvakerfisins. Virknin í gær og fyrradag var í raun mitt á milli Kverkfjallakerfis og Bárðarbungu kerfis. Með því að færast í norður hefur virknin hins vegar náð að mörkum Öskjukerfisins.

Virknin hefur hins vegar á allan hátt verið út frá Bárðarbungu og því ekki hægt að álíta neitt annað en að þetta sé atburður með upprunna í Bárðarbungi, óháð því hvar hann endar.

Það má einnig skoða þetta út frá t.d. gosinu í Gjálp. Núna er Grímsvatnakerfið látið ná aðeins í norður eins og ég merki á myndina, þannig að Gjálparsprungan passi þar inn. Ég held að fyrir gosið í Gjálp hafi Grímsvatnakerfið ekki verið látið ná svona langt norður. Sama má segja með Lokahrygg sem er á milli Grímsvatna og Hamarsins, þ.e.nær á milli tveggja eldstöðvakerfa og þvert á ríkjandi sprungustefnu og varð mjög virkur í framhaldi af gosinu í Gjálp árið 1996.

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

No comments: