Það var gert við reiðhjól í dag. Búið að vera loftlaust afturdekkið á fjallahjólinu síðan einhvern tíman í vor eða snemmsumars. Mig minnir reyndar að ég hafi hjólað á því tvisvar eftir að ég tók nagladekkin undan í vor - og þá var allt í einu allt loft út afurdekkinu og þar sem ég er stundum bara latur þá lét ég mér duaga að hjóla á einhvejrum af hinum hjólunum. Núna er komið haust og þó það sé ekki komin nein hálka ennþá, þá geri ég ráð fyrir að hún komi mjög fljótlega og því voru nögladekkin bara sett undir strax.
Svo var farið út hjólandi. Ekkert mjög langt og farið svona frekar varlega því ekki stendur til að fara að detta eitthvað. Annars alveg ótrúlegt hvað laufblaðastígarniru eru hálir. Það að halda í stýrið teygði nokkuð vel á axlarliðnum. Lýsir kannski ágætlega hvað hreyfigetan er takmörkuð!
En það seinna sem var gert nýtt var að fara í sund og það var ánægjulegt á margan hátt. Fyrir það fyrsa þá ætlaði ég að fara að byrsta mig við fólkið í afgreiðslunni í Laugardalnum því kortið mitt með fyrirframkeyptum ferðum átti að vera orðið útrunnið - eða frekar ferðirnar útrunnar. Ég spurði með hálfgerðum þjósti hvort það væri ekki til eitthvað kvörtunarblað því ég ætlaði að kvarta. Það kom eitthvað á fólkið og kona sem var að vinna þarna lét mig ekkert komast upp með þetta nöldur, heldur lét mig bara fá fríferðir á kortið sem því nam sem ég hafði átt þar inni. Fór því bara þokkalega sáttur í laugina.
Ekki held ég nú að sundstíllinn hafi verið mikill en ég skrönglaðist 200metra í tveimur áföngum með heitum pottum á milli - ekki aðallega fyrir föðurlandið heldur meira fyrir sjálfan mig. Reyndi að koma veiku hendinni áfram og gekk það að minnsta kosti eitthvað. Ég synti í öllu falli og notaði hendina þó það væri bæði vont, veikburða og frekar vesældarlegt.
Þarna í sundlauginni skyggði síðan aðeins á að vigtin þeirra þarna laug einhverri þriggja stafa tölu upp á mig. Þarf líklega að fara að gera eitthvað róttækt í því!
Svo þegar ég kom heim og tók eina örstutta æfingu á járnröri þá komst hendin lengra aftur án mikilla vandkvæða en áður. Þetta er því kannski bara að fara að koma. Annars undarlegt að hann sjúkraþjálfari minn er ekkert sérstaklega að leggja að mér að fara í sund eða neitt slíkt. Sigrún sem gekk með mér í gær hafði sjálf verið með axlarvesen og hún mælti rosalega með sundinu. Mér sýnist að hún hafi alveg þokkalega rétt fyrir sér í því.
No comments:
Post a Comment