Wednesday, August 20, 2014

Tilraun til að túlka GPS mælingarnar við Bárðarbungu

Smá vangavelta fyrir þá sem nenna að lesa og jafnvel hafa skoðun - vera sammála eða ósammála mér. Fór eiginlega að hugsa þetta fyrst og svo skrifa þar sem mér gekk eitthvað illa að átta mig á því af hverju GPS stöðvarnar í Hamrinun og sérstaklega í Vonarskarði hreyfast öðru vísi en ég hafði átt von á. Vangavelta sem e.t.v. er röng en kannski ekki alveg röng og er í öllu falli það sem ég fór að hugsa.

Áfram með þetta skemmtilega ekki eldgos - sem auðvitað gæti líka orðið eldgos. Aðal gögnin sem hægt er að skoða eru jarðskjálftagögn Veðurstofunnar (http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/vatnajokull) og svo GPS gögn sem Sigrún Hreinsdóttir gerir aðgengileg hér: http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/#VATN.

Það sem vekur athygli mína í gps gögnunum var fyrst að stöðvarnar í Hamrinum og Vonarskarði hafa verið að færast í austur. Ef kvika er að streyma inn fyrir austan stöðvarnar þá ættu þær að vera að færast í vestur, þ.e. kvikan myndi ýta þeim burt. Mín skýring er að það sé kvika undir Bárðarbungu sem er að fæða berggang sem kemur fram á jarðskjálftamyndunum, berggang sem liggur niður Dyngjujökul með stefnu áleiðis að Kverkfjöllum. Þar sem Vonarskarð er greinilega að færast í austur þá ætti það að passa við að kvikan sé að færast í burtu frá Vonarskarði og það gæti þá þýtt að það væri ekki að koma ný kvika inn i kvikuhólfið undir Bárðarbungu heldur að það sé í raun að byrja að tæma sig.

Í upphafi hreyfinganna hins vegar var Vonarskarð að færast lítillega í vestur og það gæti þá þýtt að í byrjun var kvika að safnast í kvikuhólfið undir Bárðarbungu en þegar Vonarskarð fór að færast í austur þá var kvikuhólfið að byrja að tæmast - eða kannski frekar að minnka. Það er afar ósennilega að tæmast sem slíkt.

GPS stöðin á Dyngjuhálsi færðist markvisst í norð-vestur sem passar við að berggangurinn suð-austan við stöðina hafi verið að myndast. Ef tekið er mið af því að jarðskjálftarnir núna eru komnir álíka norðarlega og Dyngjuháls stöðin er, þá mætti maður eiga von á að stöðin myndi hætta að færast í norður þar sem staðsetning skjálftanna og þá nýmyndum berggangsins beint fyrir austan hana. Það enda passar því Dyngjuhálsstöðin er hætt að færast í norður og meira að segja farin að fara í suður aftur. Heldu hins vegar sínu striki áfram í vestur eins og áður.

Grímsfjall færðist í suður til að byrja með en hætti svo að færast og það passar líka við það að fyrst var að koma inn ný kvika fyrir norða Grímsfjall en síðan þegar kvika hætti að streyma að, þá hætti stöðin að færast.

Það sem mér tekst helst ekki að koma inn í þessa mynd mína af kvikuhreyfingunum er að Vonarskarð hefur líka verið að færast aðeins í suður. Það gæti stafað af kvikuhreyfingum við Kistufell.

En svo á meðan ég var að skrifa þetta þá er óróagrafið farið hærra upp en það hefur farið áður - þ.a. e.t.v. er gosið að fara að brjótast upp!

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

No comments: