Slóðinn ósýnilegi upp með Þórisvatni hvar jarðfræðingar sáu sitt óvænna
og snéru við svo búið við.
Þorvaldur leiðbeinandinn hans hafði eitthvað hummað of lengi yfir því að fara í þessa ferð með honum þannig að úr varð að bara ég fór með honum. Veðurspáin þessa helgina var reyndar dálítið rysjótt. En ég gat ekki annað séð en að það ætti að verða skaplegt veður megnið af laugardeginum. Reyndar einhver úrkoma um nóttina og á tíma sýndist mér að það yrði hugsanlega stórhríð. Það hefði nú átt að segja mér að einhverjar líkur væru á því að það yrði einhver snjór kominn á svæðið - enda varð það raunin.
Það var ekki of gott skyggni á leiðinni og óttuðumst við þoku - sem samt hefði ekkert gert útaf við leiðangurinn þar sem við vorum með staðsetningar á hreinu. En einhvers staðar á Skeiðum eða ofar sáum við til fjalla og það sem truflaði okkur dálítið var að þau virtust sum hver vera alveg skjannahvít. Fyrir ofan Búrfellsvirkjun var allt orðið hálfgrátt yfir að líta. Snjóblinda og ekki of gott að keyra. Svo óx snjórinn en minnkaði líka aftur og við urðum bjartsýnir. Á Veiðivatnavegi var samfelld snjóföl. Þar sem við komum að GPS punktinum sem átti að segja okkur hvar ætti að beygja slóðann upp með Þórisvatni var ljóst að þetta gengi ekki. Slóðinn var svo gott sem ósýnilegur og þá ljóst að örðugt yrði að finna heppilegt grjót til sýnatöku. Var því snúið við en ætlunin að renna þar uppeftir aftur við tækifæri næsta sumar!
------------------
Skráð ERS / 8.12.2014
No comments:
Post a Comment