Friday, August 29, 2014

Túristagos sem er ekki fyrir túrista


Í nótt hófst sá hluti jarðhræringanna sem er frústrerandi. Lítið túristagos en mjög óaðgengilegt þeim sem vilja skoða, jarðvísindafólki sem öðrum, fyrir utan þá sem hreinlega verða að komast þangað til að setja upp mæla eða annað slíkt. En hvað um það. Það eru til hnit á sprungunni sem voru reyndar gefin upp með fyrirvara um ekki mikla nákvæmni: 64°52'4''N 16°49'34''V til 64°52'28''N 16°51'20''V. Hnitin eru byggð á hitafráviki sem sást á gervitunglamyndum. Setti þessi hnit inn á kort sem sýnir einnig jarðskjálfta síðustu daga.



Það sem vekur t.d. athygli er að gossprungan er þvert á sprungustefnuna. Gæti stafað af ónákvæmni hnitanna eða því að um svo stutta sprungu er að ræða og lítið gos að gossprungan er í einhverjum mjög staðbundum veikleika þarna í jarðskorpunni en er ekki að fara inn í spennusvið svæðisins í heild. Tel samt einfaldast að kenna um ónákvæmni hnitanna sem eru byggð á staðsetningu hámarks hitafráviks í tengslum við gosið en ekki neinni beinni mælingu á sprungustefnunni sjálfri.

Um stærð gossins má velta fyrir sér hvort þetta litla gos hafi náð að vinna á þrýstingi kvikunnar í bergganginum. Það hefur verið áætlað að berggangurinn sé 1-4m á þykkt, 2-8km að hæð og e.t.v. 40km að lengd. Ef teknar eru þar meðaltölur með L = 40km, h = 4km og þykkt = 2m þá er rúmmál kvikunnar sem um ræðir 320 milljón rúmmetrar. Ef því er deild niður á þann tíma sem gangurinn hefur verið að myndast og segjum að það séu 13 sólarhingar þá er það um milljón rúmmetrar á hverri klst. Ef gosið stóð í 3 klst hefði það átt að skila 3 milljón rúmmetrum, bara til að halda í við myndun gangsins. Ef sprungan er 1km að lengd og 100 metra breitt lag gosefna myndaðist þá myndi það gefa um 30m þykkt lag. Ég efast um að þetta gos nái því umfangi þannig að gosið hefur í raun ekkert gert til að minnka þrýstinginn á svæðinu. Er bara dálítið eins og slys þar sem aðeins slettist út fyrir í gangagerðinni.
----------
Fljótlega kom í ljós að sprungustefnan var mjög hefðbundin og raunar fór í eldri gossprungu Holuhraunsins. Upphaflega stefnan sem var fengin frá hitafráviki á radarmynd sýnir e.t.v. hraun sem rann frá sprungunni og varð fljótlega mest áberandi í hitafrávikinu.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

No comments: