Það var um helgina að ég fékk þá flugu í höfuðið að það væri hægt að gera rabbarbarasultu og jafnvel berjasultu einnar hendi. En ég greip í eitthvað tómt úti í garði. Rabbarbarinn hafði ekki vaxið mikið frá því ég tók hann allan um mitt sumar og berin... já verði fuglunum að góðu - þeir hljóta að hafa fengið skitu. Ég fír í víking á Uarðarstekk en þar var sama sagan. Sólberin sem ég fann voru góð, öll fimm berin sem ég át og geri ráð fyrir að sjötta berið sem ég ekki bara tíndi heldur líka týndi hefði eflaust verið gott líka. En mamman manns hafði ráð undir rifi hverju. Við fórum á mánudag í víking í Skammadal hvar hún gamall refur í kartöfflurækt þar vissi um yfirgefna rabbarbarahnausa sem við sóttum í. Það var því fullt af rabbarbara til að gera eitthvað úr - og svo jú, ég var með eitthvað smáræði af rifsberjum.
Núna í kvöld var svo lagt í sultugerð. það var saxaður rabbarbari og berjunum hent í pott. Bæt líka við eitthvað af frosnum rifsberjum frá í fyrra. Einhver rosalega náttúrulegur hrásykur settur í svipuiðu magni með. Látið malla í hvað... svona klukkutíma. Á meðan soðnar og bakaðar krukkur. Brunsaár á höndum við að koma herlegheitunum í. Veit ekki hvort seigjan í þessu fer til fjandans eins og sultan sem var gerð í sumar en það kemur í ljós. Notaðar frekar fleiri litlar krukkur en færri stórar eins og í sumar. Þetta lítur reyndar bara nokkuð vel út en samt dálítill galli að eitthvað af stilkunum af rifsberjunum voru eitthvað trénaðir og linuðust í raun ekki neitt við suðuna og eru eins og einhverjar skrambans trjágreinar í sultunni. Átti ég kannski að reyna að veiða þá úr... það hefði aldrei verið séns. En sultan er í öllu falli góð á bragðið - og kannski ekkert slæmt að það séu smá trefjar í henni.
......
No comments:
Post a Comment