Í dag fór ég á aðal pínubekk Ragnars sjúkraþjálfara. Held reyndar að hann hafi strekkt svo lítið á mér að það hafi lítið svo sem gerst. Var samt nógu fjandi óþægilegt þegar leið á. Verkur í liðnum og ég hálf ómögulegur. Nafni minn greip held ég til hvítrar lygi þegar hann sagði að ég væri samt með al besta mótinu. En það að ég hafi verið settur í pínubekk tvö er a.m.k. áfangi.
Fór svo aftur í sund. Eftir að hafa skokkað um laugardalinn. Þar var ég slappur en drottinn minn. Ég vissi ekki að það væri svona margt fólk í henni Reykjavík sem kynni að hlaupa. Ég fékk algjöra minnimáttarkennd út af öllu þessu fólki sem hljóp í loftköstum út um allan dal og var að æfa alls kyns kúnstir. Ég með hálfgert blóðbragð í munninum á bara mínum 10km/klst hraða og tæplega það að skrönglast einhverja vesæla 3km.
Synti svo heila 300 metra í þremur áföngum reyndar með heitum pottum á milli. Strax farinn að sjá fólk sem er í lauginni á hverjum degi... sem sagt... a.m.k. ein stelpa sem fór í laugina báða dagana. Veit ekkert um gömlu kaddlana.
-------------------------------------------------------
Svo í fréttum RUV um miðnætti komst ég af því af hverju ég var svo slappur. Búinn að vera hóstandi í allt kvöld og ekki liðið allt of vel eftir skokkið. Áttaði mig svo á hvernig á öllu stóð í fréttunum. Brennisteinsmengun í Kópavogi mældist um 700 ppm líklega eða eitthvað. Held að miðað sé við að 300 sé í heilsufarsmörkum. Ég er því búinn að standa á öndinni í allt kvöld út af of mikið innbyrtum brennistseini ofan í lungun mín. Vona bara að mér verði ekki meint af þessu en nokkuð ljóst að í framtíðinni þegar ég ákveð að taka eitthvað á því, verður fyrst skoðað hver staðan er á brennisteinsmenguninni. Velti því annars fyrir mér hvort þetta hafi bara verið ég eða hvort fleiri af þessum rosalega fjölda skokkara í Laugardalnum hafi fundið fyrir einhverju líka.
No comments:
Post a Comment