Monday, September 08, 2014
Hvað er nýja Holuhraunið orðið stórt?
Það er vinsælt að setja fram kort sem sýnir að ef eldgosið í Holuhrauni hefði verið í Reykjavík, þá væri stór hluti borgarinnar kominn undir hraun. Eldgos í miðri Reykjavík er hins vegar ekki sérstaklega líklegt en hins vegar er eldgos t.d. í Vífilsfelli í Bláfjöllum ekki ósennilegt einhvern tíman á þessari öld eða næstu. Ef hraunið hefði runnið eins og það rann í Holuhrauni en átt upptök sín í Vílfilsfelli þá væri það komið niður undir Árbæjarstífluna. Til að sannleikans sé gætt verður að taka fram að ef eldgos verður í Vífilsfelli þá dreifist hraunið meira en norðan Dyngjujökuls því við Vífilsfell er enginn árfarvegur Jökulsár á Fjöllum til að renna eftir. Stærð hraunsins sem ég sýni er byggð á ratsjármynd af FB síðu Jarðvísindastofnunar sem sýnir stærð hraunsins 7. september. Mér sýndist þar að hraunið væri tæpir 15km að lengd.
---------
Það eru nokkur eldstöðvakerfi á Reykjanesi og hjá þeim skiptast á virk tímabil og óvirk. Þegar þau verða virk þá sýnir sagan að algengt er að austasta kerfið verði fyrst virkt og svo færist virknin út Reykjanesið. Í heild getur virki tíminn tekið nokkur hundruð ár en svo er goshlé á milli sem er álíka langt eða ívið lengra minnir mig. Síðasta virknitímabil var t.d. þegar kristnitökuhraunið rann en því tímabili lauk á miðöldum einhvern tíman. Það getur núna hvenær sem er farið að koma að næsta virknitímabili. Gæti gerst innan fárra ára en gæti einnig verið eftir 2-300 ár. Ósennilegt að við þurfum að bíða mikið lengur eftir því.
---------
Ég reyndar prófaði að færa upptök hraunsins að Búrfelli og lagði það örlítið eftir hæðarlínum eins og það gæti komið til með að renna. Það nær vel út í sjó. Það hefði lagst yfir núverandi Búrfells- og Gálgahraun en að einhverju leyti líklega runnið meðfram því. Þegar það hefði komið út í sjó hefði hægst verulega á því, kvikan að einhverju leyti sundrast við hraðkælingu. En þetta er áhugavert og dálítið ógnvekjandi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins því þetta getur í sjálfu sér gerst og þetta hraunrennsli er alls ekki óhugsandi.
---------
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment