Af því að
Stína frá Kína spurði og svarið varð svo langt að það átti ekkert heima í skilaboðakerfi þá kemur það hér.
Hann F. Kúkur sem er á myndinni fyrir í
þar seinustu bloggfærslu eða þarumbil er auðvitað ekkert á myndinni heldur bara nafnið hans því það er Gunnar Dal sem er í þungum þönkum á myndinni.
Hann F er gamall félagi sem hefur ekki verið mjög við eina fjölina felldur. Hann var einhver einarðasti bindindismaður sem um getur og stundaði helst ættfræðigrúsk sér til dægrastyttingar á fyrri hluta táningsáranna. Altsvo þegar hann var ekki á fundum hjá Heimdalli, Varðbergi eða einhverju þaðanaf gáfulegra. Hætti síðan að vera bindindismaður og varð dálítill sukkar en hélt reyndar áfram um stund að grúska í ættfræði og vera blár í gegn. Gaf út ættfræðital og gegndi mikilvægu hlutverki á landsfundum flokksins. Varð sér út um kærustu og gerðist enn meiri sukkari held ég. Síðan slitnaði nú uppúr sambandinu eins og gerist og hann fór að reka sj0ppu. Sem gekk ekki of vel því hann mátti ekkert vera að því að afgreiða og var bara með fólk í vinnu til að sinna slíkum störfum. Enda hann hátt hafinn yfir það að afgreiða í sjoppu heilt kvöld sérstaklega þar sem viðskiptavinirnir voru oft teljandi á fingrum annarrar handar. Enda fór það svo að sjoppan fór á hausinn held ég.
Nú hann var í vinfengi við mikilvæga menn og man sérstaklega eftir sögum hans af Ármanni nokkrum Reynissyni sem rak þá Ávöxtun með hvílíkum glæsibrag að undrum sætti. Einnig var hann að grúska í alls kyns dulrænum fyrirbrigðum og gerðis mikill áhugamaður um Nýalssinna.
Ég frétti síðan lítið af honum Ingimar í mörg ár. Held að hann hafi einhvern tíman farið í meðferð en veit svo sem ekkert um það. Einhvern tíman heyrði ég líka að hann ætti kærasta en ég veit heldur ekkert um það og getur verið lygimál.
Ég hitti hann síðast þegar hann var að afgreiða í Geysi niðri í bæ sem hlýtur að vera langt síðan því það er löngu búið að rífa húsið sem búðin var í og síðan hafði ég áreiðanlegar heimildir um að hann byggi hjá gamalli ekkju í Grímsey þar sem hann væri barnaskólakennari.
Kann ég sögu hans ekki lengri og veit ekkert um hvar hann er niðurkominn núna en hann er með sérstakari persónum sem ég hef fyrirhitt um dagana.
Myndin sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum er af Gunnari Dal þegar hann kom í lok dags til að fræða okkur félagana í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um heimspeki í sérstökum aukaáfanga um það fag sem við stofnuðum félag um að fá kenndan.
Í þetta skiptið var hann eitthvað seinn fyrir og til að fá listræna útrás þá var taflan skreytt á hinn margvíslegasta hátt. Einhver skrifaði nafnið hans af því að hann hafði sest í kennarastólinn en kúkurinn var málinu eitthvað algjörlega óviðkomandi. Síðan þegar lærimeistarinn loksins kom var hann eitthvað í þungum þönkum en væntanlega lak spekin af honum eftir það í stríðum straumum.
Það var hins vegar nokkrum árum áður sem Gunnar Dal kenndi mér stafsetningu með undarlegum aðferðum sem svínvirkuðu.
Ég man það að við fengum allir A í einkunn en það var með því skilyrði að við myndum eitthvað láta kveða að okkur á lífsleiðinni og lágmarkið var að einhvern tíman myndum við að minnsta kosti skrifa blaðagrein um það sem við værum að fást við á lífsleiðinni. Þar sem ég er að stelast til að blogga þetta en á að vera að skrifa grein í tímarit þá er líklega nokkuð ljóst að ég stóð undir einhverjum af þeim væntingum.
Félagið starfaði síðan í meira en 10 ár og fékk alls kyns fyrirlesara til sín. Hittist reglulega í Turnherbergi Hótel Borgar og fyrsti fyrirlesarinn sem kom þangað var reyndar Sigurður Líndal sem er auðvitað stjúpi hennar Stínu frá Kína.
.
.
.