Stundum furða ég mig á því hvers konar fólk bloggar
Einhvern veginn plataði ég sjálfan mig eða lét plata mig til að taka upp á þessu. Flestum finnst þetta líklegast fáránleg iðja en það er allt í lagi, þeir eru örugglega ekki að lesa bloggið mitt.
Það sem ég er að velta fyrir mér er hvers konar fólk er að blogga. Þegar ég ber þá sem ég hef kynnst og þekkt í gegnum lífsleiðina, verið með í skóla, unnið með eða bara hitt og kynnst einhvers staðar saman við það fólk sem er að blogga þá sýnist mér að það bloggi yfirleitt bara alls ekki neitt. Nema kannski Lilja, Stína og svona skrýtið lið sem hún eða þær umgangast og Gunnar núna í seinni tíð.
Ég leitaði með Google.com að öllu íslensku bloggi og verð að játa að ég fann bara ekki neinn einasta jólasvein sem ég þekki, a.m.k. ekki í raunheimum, fyrir utan þessa sem ég taldi upp hér að framan. Það er meira að segja frekar skrýtið að í fyrirtækinu sem ég vinn hjá, 200 manna tölvufyrirtæki þá finn ég bara þrjá sem blogga fyrir utan mig. Og af þessum þremur eru tvær að fara að hætta og einn er eiginlega ekki byrjaður ennþá. Að vísu hefur einn sérlega frægur bloggari unnið þarna en hann er þarna ekki lengur.
Mér er því spurn: Hverjir blogga, hvers konar skringilið er það sem nennir þessu, fyrir utan mig sjálfan og þessar fáu hræður sem ég þekki þarna í þessu.
No comments:
Post a Comment