Tuesday, March 25, 2003

Línuskautaraunir
Já ég er undarlegur. Fór á línuskauta í roki og rigningu um helgina. Ef þú sást þennan skrýtna á stígnum við flugvöllinn í þaranum á línuskautunum, já þá var það ég. Ef þú sást hann detta, þá var það hins vegar ekki ég. Líklega varstu þá reyndar að sjá ofsjónir því ég efast all stórlega um að nokkur annar hafi verið svo vitlaus að fara á línuskauta í slyddurigningu og roki. En ég datt ekki neitt þrátt fyrir góða fyrirætlan allra torfæranna á leiðinni.

Einhver sagði mér einhvern tíman að það væri óráð að fara á línuskauta í rigningu því bæði yrðu stígarnir hálir og legurnar í skautunum þyldu illa að blotna. Ég blés á hvort tveggja. Það fyrra af því að ég þykist svo svaðalega góður (sem ég er reyndar alls ekki) og það síðara af því að ég er hvort sem er búinn að ákveða að endurnýja skautana mína í vor og fá mér eitthvað almennilegt!

En það getur verið að sumum finnist blautir stígar hálir en mér finnast þeir allt í lagi. Verra ef það er mikill sandur á þeim þá getur manni skrikað skauti. Síðan kárnar gamanið ef möl hefur fokið inn á stíginn eða sjávargrjót. En það tekur nú ekki út fyrir allan þjófabálk [kafli í gamalli lögbók fyrir þá sem ekki vita] fyrr en maður er farinn að skauta í miðjum þaraskógi sem hefur gengið á land.

Þetta með bleytuna verður reyndar ekkert svo slæmt fyrr en rigningin breytist í slyddu og saklaus bleytan breytist í polla þannig að maður verður votur. Rétt upp hönd sem hafa orðið votir á línuskautum. Já datt mér ekki í hug, svona frekar fáir!

En þetta gekk samt svo vel að ég ákvað bara að skauta mér alla leið upp í Breiðholt og pína síðan litlu systur til að keyra mig í bæinn aftur. Sem hún gerði með sínu sanna glaða geði.

En af skautunum er það að segja að ég verð líklega að flýta eitthvað þessari endurnýjun skautanna. Sum dekkin eru nefnilega orðin eitthvað undarlega stíf og svo urgar bara í þeim. En það er svo sem allt í lagi þetta voru bara plastskautar [svona sem búa til alls konar sár úr um allan fót] sem ég keypt á útsölu fyrir mörgum árum. Reyndar með ágætis ABEC5 legum held ég eða hvað þetta heitir.

No comments: