Monday, March 10, 2003

Nei, þetta var ekki ég


Sat pikkfastur í strompi


"Mér skrikaði fótur og datt ofan í strompinn og sat fastur á 4–5 metra dýpi,“ sagði ungur Reykvíkingur um reynslu sína þegar hann festist í strompi heima hjá sér á Laugaveginum um klukkan 7 í morgun. Hann hafði týnt húslyklinum þá um nóttina og hugðist nota strompinn sem inngönguleið, en sú ráðstöfun átti eftir að draga dilk á eftir sér. „Þarna sat ég pikkfastur, gargandi á hjálp. Ég var farinn að missa mátt í höndunum og mátti ekki miklu muna með björgunina.“ Nágranni hans nam loks köllin í honum og gerði lögreglu viðvart sem brá skjótt við.

Hann varð fegnari en orð fá lýst þegar hann sá slökkviliðsmann fyrir ofan sig í opinu, beinandi vasaljósi niður í myrkrið. Slökkviliðsmenn brugðu kaðallykkju undir handarkrika mannsins og toguðu hann upp. „Fyrst bölvaði ég sjálfum mér fyrir asnaskapinn og síðan fór líðanin versnandi þegar röddin fór að gefa sig eftir öll hjálparöskrin. Enginn vissi af mér þarna og ég vissi ekki hvernig þetta myndi enda. Ég var alveg eins og litli sótarinn þegar mér var bjargað upp, í rifinni skyrtu og sótsvörtum gallabuxum. Augu, nef og munnur voru full af sóti og ég var bikasvartur.“ Um er að ræða mjög óvenjulegt atvik og mun þetta vera í fyrsta sinn í aldarfjórðung sem slökkvilið bjargar manni upp úr strompi, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu.






No comments: