Monday, March 31, 2003

Af hverju er þetta stríð eiginlega?
Þegar ég velti einhverju fyrir mér þá er það yfirleitt út af því að ég hef ekki hugmynd um eitthvað. Núna velti ég því fyrir mér út af hverju þetta stríð er eiginlega. Það sem ég hef heyrt, mér hefur verið sagt og ég hef lesið á milli línanna er:


1.
Kanarnir vilja komast yfir olíuna í Írak

2.
Bush heldur að eina leiðin til að bjarga efnahagsástandinu hjá sér sé að fara í stríð

3.
Bush er viss um að Írakar (sem voru malaðir í stríði fyrir 12 árum og hafa verið í viðskiptabanni síðan) með Saddam í broddi fylkingar séu búnir að skipuleggja hryðjuverk sem munu leggja Bandaríkin í rúst

4.
Bandaríkjamenn eiga svo mikið af sprengjum sem verður að prófa áður en þær verða bara úreltar að það verður að fara í stríð, alvörustríð og "ekkert hálfkák" eins og Bush sagði í hádegisræðunni sinni á fyrsta degi stríðsins.

5.
Saddam er bara svo vondur maður að það verður að gera eitthvað í því

6.
Íraska þjóðin á svo bágt að búa við harðræði Saddam Hússeins að það verður að fara í stríð við hann og þjóð hans.

7.
Bush er viss um að hann sé útvalinn af guði til að leiða jarðarbúa til ríkis drottins og múslimar eru villutrúarmenn sem verður að vinna á.

8.
Bush er ofureinfaldlega brjálaður maður sem lifir í þeim "raunveruleika" að krossferðirnar hafi verið farnar til að bjarga helgum stöðum úr klóm illra afla og hann sé til þess kallaður að leiða krossferðir 21. aldarinnar.


Eins og ég sagði áðan þá skil ég ekki til hvers þetta stríð er en ég hef afskaplega illan bifur á því vægast sagt. Það alundarlegasta er að ég vona orðið svo innilega að fyrsta skýringin sé sú eina rétta og að skýringarnar sem á eftir koma séu æ fráleitari eftir því sem neðar dregur. Reyndar eru tilgátur 3 til 7 svo sem ekkert mjög hættulegar. Benda bara til mjög alvarlegrar heimsku.

Hins vegar finnst mér hræðilega margt sem tengist þessu stríði gefa til kynna að það sé eitthvað til í kenningum 7 og 8. Eða er eðlilegt að valdamesti maður jarðarinnar tali um öxulveldi hins illa og að þau verði að stöðva. Síðan kemur einhver listi af ríkjum og leiðtogum sem þessum valdamesta manni jarðarinnar er illa við og verður krossferðum 21. aldarinnar beint þangað. Kannski eins gott að við erum í sama liði og hann þó ég sé ekkert yfirmig ánægður með það að öllu leyti.

Ég man síðan þegar Reagan hélt frægar "My fellow Americans" ræður sem voru að hluta til orðrétt uppúr bíómyndum sem hann hafði leikið í á sínum yngri árum, það var fyndið. Þetta er hins vegar hræðilegt.

No comments: