Wednesday, March 26, 2003

Sadismi í einkaþjálfun
Þar sem eitthvað vinsælasta bloggefni landans virðist vera líkamsrækt þá get ég auðvitað ekki verið minni maður og verð því að blogga af og til um líkamsræktarraunir mínar. Þ.e. þessar sem eru í World Class.

Það sem ég skil ekki í þessu er hvernig fólk fær sig til að kaupa sér rándýra tíma í einkaþjálfun sem mér sýnist að sé oftar en ekki einungis til þess fallið að búa til óhóflegan skammt af harðsperrum, hálfgerðri niðurlægingu þegar fórnarlambið er ekki jafn sterkt og sadistinn gerir ráð fyrir eða vill. Sá t.d. tvo í morgun sem ég bókstaflega vorkenndi. Þeir voru látnir fá svo þung lóð að þeir stóðu varla undir þeim, hvað þá að þeir gætu lyft þeim. Síðan eftir hverja þrekraunina þá stigu þeir til hliðar armæddir á svipinn. Einhvern veginn minnti þetta mig á einhverja horror leikfimi í íslenska grunnskólakerfinu. Þar sem tilgangurinn virtist stundum helst vera sá að fullvissa þá sem voru undir meðallagi sterkir að þeir væru sko bara aumingjar.

Síðan finnst mér alltaf jafn fyndið að skoða hverjir gera hvað í World Class. Sterastubbarnir fara á hlaupabrettin og "hlaupa" á 8 km hraða í svona 5 mínútur og lyfta svo í heilan klukkutíma heilu lóðastöflunum svo voðvabúntin ætla bókstaflega að springa. Anorexurnar hamast á hlaupabrettinu. Passa sig á að hlaupa ekki of hratt til að fitubrennslan verði sem allra mest. Hamast í heilan klukkutíma til að brenna þessu grammi af fitu sem gat hafa komist inn fyrir varirnar.

Sjálfur fíla ég mig alltaf mikið betur á hlaupabrettingu en í einhverju lóðatækjadóti. Er í eilífu kappi við þann sem er á brettinu við hliðina á mér og hef oftar en ekki betur. Kann hins vegar illa við mig að vera að þykjast lyfta einhverju sem er oftar en ekki frekar lítið. En væntanlega ætti ég að lyfta meira en hlaupa minna. Ekki svo að skilja að ég sé í þessum anorexuflokki en líklega nær því en að vera í sterastubbaflokkinum.

Þeir sem ég dáist hins vegar að eru þeir sem eru svolítið sverir og eru að reyna að gera eitthvað. Eru á brettinu í langan tíma, ganga kannski bara en eru samt líklega að brenna meira magni af fitu en sumir aðrir gætu gert án þess að bókstaflega gufa upp.

Amen.

No comments: