Friday, August 29, 2003

Dilbert dagsins góður

Thursday, August 28, 2003

Sjónvarpslaust fimmtudagskvöld


......... Og nei, ég er ekki dauður, veikur, hættur að blogga eða neitt þaðan af verra þó ég hafi ekki bloggað í heila tvo daga eða hvað þetta er langt síðan ég bloggaði síðast.



Undarlegt hvað maður verður háður öllu saman. Ég hef alltaf haldið því fram að það hafi verið tóm vitleysa að hætta með sjónvarpslausu fimmtudagana og sjónvarpslausa júlímánuðinn. Hef jafnvel sagt að það ættu að vera til lög í landinu að það væri bara bannað að hafa sjónvarp á þessum tímum. En núna þegar ég stend frammi fyrir bitrum raunveruleikanum þá fer gamanið að kárna töluvert.

Það virðist nefnilega eitthvað hafa komið fyrir sjónvarpsloftnetið þar sem ég bý. Held meira að segja að það hafi gefið sig eftir jarðskjálftann. Hefur líklega ekki þolað þennan gríðarlega titring sem varð í skjálftanum. [ætli annars Viðlagasjóður borgi viðgerðina á þessu dóti?]

Út af þessu hef ég komist að því að partýhaldarinn nágranni minn er ofvirkur í meira lagi. Er búinn að vera klifrandi uppi á þaki á hverju kvöldi að fikta í loftnetsdrusslunni eða bara að taka hana niður til að fara með hana í viðgerð, sem hann gerði í gærkveldi. Er kannski ekki svo slæmur greyið. Heldur bara partý með of miklum hávaða fyrir minn smekk á vitlausum tíma sólarhringsins. Hann er meira að segja búinn að fá náðarsamlegt leyfi hjá mér til að klifra upp á svalirnar mínar þó ég sé ekki heima. Reikna reyndar með því að hann finni tíma þegar ég er ekki heima því ég sá á honum að hann blóðlangar til að fá að klifra upp allt húsið. Ég sjálfur þóttist bara vera svaka lofthræddur og ekkert geta klifrað. Held að hann hafi alveg trúaað því!

Núna er sem sagt allt sjónvarpslaust hjá mér. Get reyndar dundað mér við að horfa og hlusta á The Wall á nýja fína DVD diskinum mínum nú eða Lord of The Rings (fyrstu myndina) og er þá reyndar búinn að telja upp allar DVD myndirnar mínar. Er ekki einhver þarna úti sem á fullt af löngu áhorfðum DVD myndum sem hann er til í að lána mér. Ég skal sko ekkert horfa mjög fast þannig að þær skemmist ekki neitt!

Kannski maður fari bara í staðinn fyrir sjónvarpsglápið að gera eitthvað af þessu sem ég hef verið á leiðinni heillengi. Svona eins og kannski og til dæmis skrifa einhverja blaðagrein sem ég skulda. Er reyndar farinn að skulda tvær og bráðum þrjár. Hjálp í hverju er ég eiginlega lentur. Gæti síðan farið að dunda mér við að borga gjaldfallna reikninga í Einkabankanananum mínu en nei annars, það þýðir ekkert, klukkan er alveg að verða 9....

Vona bara að þetta fari eitthvað að lagast.

En, hey annars, það má skoða kjánalegar myndir af mér á fótologginu mínu. Er með svona syrpu með myndum af mér!

Tuesday, August 26, 2003

Hjólakeppnin búin
Ekki var nú um frægðarför að ræða hjá mínu fyrirtæki. Komst hvergi á blað um efstu lið og yfir heildina erum við hjá Skýrr í svona 10 sæti miðað við heildarmagn kílómetra og fjölda ferða en ef þetta er skoðað sem hlutfall af fjölda starfsmanna (en keppnin snerist víst um það) þá erum við ekki nema í svona þrítugasta sæti. Ekki neitt til að stæra sig af held ég en samt var þetta voða gaman allt saman!
Fór í skokk og sund í hádeginu
Ekki var nú getan mikil í skokkinu fannst mér. Var bara alveg að leka niður og held að ég hefði getað gengið hraðar. Þarf greinilega að fara að nota mér tilboð Gísla um skokkkennslu og tilsögn í langstökki án atrenu.

Varð síðan svo mikið um að detta inn á klíkufund fyrrverandi Skýrrara í heitapottinum að ég missti heil tvö kíló. Var að minnsta kosti kominn vel niður fyrir þessa agalegu 90 tölu sem hefur verið að hrekkja mig undanfarið!

En æji það sem ég ætlaði að blogga um...
... áðan...

Það var líklega eitthvað um Káranhúkavitleysuna. Fattaði það þegar ég kíkti á Röggubloggið.

Sko, það var þetta með aðbúnaðinn á kaddlagreyjunum þarna uppfrá sem eru að burra á stórutrukkunum, grafa stóruskurðina og grafa löngugöngin. Þegar ítalskt verktakafyrirtæki bíður lang lægst, ítalskt verktakafyrirtæki sem hefur aðallega unnið fyrir þriðjaheims ríki, ítalskt verktakafyrirtæki sem er frægt fyrir mútustarfsemi út um allan heim [... les þriðjaheiminn...] (ef þetta er eitthvað misminni hjá mér um þetta verktakafyrirtæki þá má leiðrétta mig) við hverju búast menn þá. Er það ekki örugglega ávísun á vandræði í allri framkvæmdinni.

Þetta er líka einhvern veginn allt eins og hjá þriðja heims ríki. Ríkisstjórnin stendur fyrir þessu sem einhverju byggðastefnumáli. Hálft hagkerfið er lagt undir. Þetta er hefðbundin frumvinnsla, eins konar námagröftur og öll frekari vinnsla og framleiðsla fer fram annars staðar [ ... les vesturlönd ...]. Þetta er framkvæmd sem hefur veruleg umhverfisáhrif í för með sér að mati skipulagsyfirvalda en samt ákveður ráðherra umhverfismála að ráðast í framkvæmdina. Og svo væri bara hægt að halda áfram út í hið óendanlega.

Það kæmi mér eiginlega ekkert á óvart að þegar þetta ítalska verktakafyrirtæki ákvað að bjóða í þá hafi þeir kanað hvaða lög og reglur gilda um vinnumarkaðinn hjá svona hefðbundnu þriðjaheimsríki, eyju í Atlantshafinu og þeim hafi þá fundist nærtækast að skoða Grænhöfðaeyjar. Þar hafa þeir þá komist að því að á svona eyjum lifðu bara hefðbundnir molbúar, sem hægt er að fara með nokkurn veginn eins og þeim sjálfum sýnist.

Annars eitt sem ég heyrði sem mér finnst merkilegt og annað sem ég sá sem mér finns stórundarlegt.

Þegar ég var í minni frábæru pílagrímsferð upp við væntanlegt Hálslón þá var auðvitað ekki hægt að komast hjá því að sjá til framkvæmdanna og ég gat ekki séð annað en að allir stóru trukkarnir væru eingöngu í því að koma upp vinnubúðum. Sem þýðir að þrátt fyrir að hafa ekki gert neitt annað en að vera að búa til aðstöðu fyrir þá sjálfa þá tókst það ekki. Ef það er raunverulegar raunin þá fer ég að hafa verulegar áhyggjur af þessari milljón sem ég verð skuldsettur út af þessari virkjun.

Það sem ég síðan heyrði var að þegar einhver seinni áfangi eða hluti framkvæmdanna var boðinn út þá hafi sá ítalski verið búinn að kynnast því hvernig staðið er að aðbúnaði, launagreiðslum og öðru á íslandi og þá hafi hann boðið hæst af öllum. Bendir a.m.k. einhvern veginn til þess að hann hafi eitthvað vanmetið þetta þarna í upphafi! Styður þessa þriðjaheims kenningu mína.

En kannski er þetta bara bull og vitleysa hjá mér...... vonandi ?

Monday, August 25, 2003

Stundum man ég ekkert hvað ég ætlaði að blogga um
En man að það var eitthvað alveg svakalega snjallt.

Gæti svo sem alveg bloggað um það hvað ég gerði um helgina en það er samt eitthvað sem virkar alveg ferlega óspennandi í bloggheimnum finnst mér. Fór nebblega austur í Mýrdal og plantaði trjám. Jú það þarf auðvitað að gera það líka. Svaf í fyrsta sinn í litla húsinu mínu (músahúsinu) sem ég á þarna með systkinum mínum. Jú það er ákaflega líitð. Það komast ekki nema tveir fyrir inni í því. Og ef annar þarf að hugsa þá þarf hinn að fara út á meðan. Ef annar þarf að prumpa þurfa báðir að fara út á meðan. Nei það er ekkert spennandi að blogga um þetta þannig að ég geri það ekki neitt.

Síðan gæti ég líka bloggað um það þegar ég fór í Stjórnvíska grillveislu heima hjá Röggu (nei ég þekki sko margar Röggur, allar held ég að þær hafi verið með mér í Skóla en þessi sko bara í Háskóla). En það var ekkert rosalega mikið í frásögur færandi. Sérstaklega þegar ég frétti af því að fullt af vinnufélögum hefði verið boðið í grillveislu til Óla per ..... en mér ekki boðið neitt. Svakastuð og mér skilst að sumir hafi orðið sjóveikir við jarðskjálftann. Gott á Eik ...... en það er ekkert spes að blogga um sukk og vitleysu, það er eitthvað sem sumir aðrir gera reyndar bara. Svaka spennandi fyrir þá sem voru í sukkinu en frekar þreytt fyrir alla aðra.

Svo gæti ég líka alveg bloggað um pizzuna sem Ragg... nei sú heitir bara Ragnhildur en er ekkert kölluð Ragga neitt heldur í besta falli Ranka og er sko systir mín... gaf mér fyrir að bora átta göt, skrúfa álíka margar skrúfur og hengja ekki upp nema tvær gardínur. [.... og líklega nauðsynlegt að taka fram að þetta varð ekkert neitt svakalega skakkt hjá mér ... samt bara mælt með svona tuskumálbandi..... ] Það voru annars meðmæli hjá mér að ég fékk að borða laun verkamannsins áður en upphenginin var framkvæmd. Og það albesta, þegar þessi elska bíður mér í mat þá er það Dominos sem er yfirleitt étin heima hjá mér en ekki heima hjá henni!

Ég gæti síðan bloggað eitthvað svakalega persónulegt en líst ekkert á það.... Pizzuraunir, upphengjur og eitthvað svona er alveg nógu persónulegt finnst mér.... amk núna.

Ekki er síðan hagstætt fyrir mig að blogga um það sem ég geri í vinnunni því það er yfirleitt eitthvað alveg ofboðslega mikið leyndó....

Annars man ég ekki enn hvurn skrambann ég var að hugsa um að blogga en það var eitthvað alveg ferlega snjallt. Held að það hafi verið eitthvað alveg ferlega róttækt pólitíkurblogg.

En þá blogga ég bara í staðinn um DVD diskinn sem ég fékk áðan með póstinum. The Wall með Pink Floyd. Hrein snilld verður það að teljast. Stillti þetta annars svo hátt að núna fæ ég líklega partý yfir mig fljótlega frá elskulegum nágranna mínum svona í hefndarskini. Verst að hans hefningar eru framkvæmdar seinni part nætur...... En ætli þetta sé ekki bara nóg í bili af bloggrugglinu.

Er annars að hlusta á Tori Amos sem átti ammimæli í seinust viku og sem er líka hrein snilld þó hún hafi verið kennd við kerlingarlufsutónlist. Sumt fólk kann bara ekkert gott að meta.

Gæti reyndar síðan líka bloggað alveg helling um sjónvarpið mitt en það sést eiginlega ekkert. Er að velta fyri rmér hvort loftnetið hafi skekkst í jarðskjálftanum æægilega. Þarf að fara að kanna hvort það sjáist eitthvað hjá nágrönnum mínum frábærum....



Ætti síðan að fara að hætta þessu og fara frekar að lesa eitthvað af bókunum sem ég fékk í póstinum líka með DVD diskinum. Reyndar bara leiðindabækur sem háskólakennarinn ég ætlar að kenna í vetur eða nota svona eitthvað.... nei bara grín enginn háskólakennari ég heldur bara svona aðeins úti í Endurmenntun. Stundum lítur maður sko svo megastórt á sig.

En.... ef þú fattar um hvað ég ætlaði að blogga, láttu mig þá vita sem fyrst!

Saturday, August 23, 2003

Frábær jarðskjálfti í beinni
Var nú reyndar bara sofnaður en rumskaði samt eitthvað og var svo edilánsheppinn að vera sæmilega vakandi þegar allt fór að hristast og skjálf klukkan tvö í nótt. Eins og góðum nörd sæmir þá kvekti ég á tölvunni til að skoða eitthvað en sá náttúrlega að það var ekkert komið um þetta þannig að ég nennti ekki að nördast mikið og hlustaði bara á lagið í útvarpinu..... linkurinn hérna fyrir ofan tengist mér sko ekki neitt nema að hann er hrein snilld!

Svo kom einhver ábúðarmikil rödd og sagði að það hefði orðið jarðskjálfti. Fólk væri beðið um að halda ró sinni minnir mig og það myndu koma frekari fréttir af skjálftanum eins fljótt og auðið væri.

Síðan kom önnur ekki síður alvarleg rödd sem sagði mér að klæða mig í hlý föt og fara svo að rispa útvarpstækið mitt til að geta fundið aftur gömlu góðu gufuna sem er sko algjört möst við svona aðstæður. Ég reyndar klæddi mig eitthvað þannig að ég yrði ekki mjög ósiðsamlega klæddur þegar björgunarmennirnir myndu finna af mér hræið en fann ekki alveg út úr því hvar ég ætti að rispa útvarpstækið mitt. Þegar þessi ofurrólega rödd var búin að fara með rulluna sína 6 sinnum á sama tilbreytingarlausa mátann þá varð ég bara að slökkva áður en ég myndi sofna.

Rifjaði reyndar upp hvernig þetta var á þjóðhátíðardaginn þegar RUV gerði á sig og hélt bara áfram íþróttalýsingum á meðan þjóðin beið milli vonar og ótta. Hefði kannski bara verið betra að gera ekkert hjá þeim. Ef ég hefði verið kraminn einhvers staðar undir föllnum vegg og þurft að hlusta aftur og aftur og aftur á lýsinguna þeirra þá hefði ég líklegast drepist nokkuð hratt úr leiðindum.

Thursday, August 21, 2003

Dilbert á vel við í dag


Rétt upp hend sem hefur ekki fengið tölvupóst undanfarna daga eins og:

Re: That movie sem ég fékk t.d. rétt áðan "frá" eva@delta.is
eða
Re: Your application sem ég fékk "frá" fisheries@hi.is

eða
.....

hef ekki tölu á þessu lengur
og nei, fyrir þá sem ekki vita, þessir póstar tengjast að öllum líkindum ekkert efu eða fisheries, þau eru bara á einhverjum póstlistum sem ég er svo óheppinn að vera á líka.

Og á meðan ég var að skrifa þetta þá fékk ég þennan póst frá JS@isal.is


Ég er í fríi, kem til vinnu 26. ágúst. I am out of office and will be back
26.08.2003
Johann
---
Þessi tölvupóstur er eingöngu ætlaður þeim sem hann er stílaður á. Sá sem fyrir tilviljun eða mistök tekur við tölvupóstinum er beðinn um að tilkynna það sendanda þegar í stað og eyða póstinum. Ef tölvupósturinn og viðhengi tengjast ekki starfsemi Alcan á Íslandi er hann á ábyrgð sendanda.

This message is intended for the named recipient only. If you have by coincidence or mistake received this e-mail please delete it and notify the sender. The sender is responsible for this e-mail and attachments if not related to the activities of Alcan Iceland.



Veit ekki alveg hvort þetta var ætlað mér en þetta er löngu hætt að vera fyndið en líklegast var þessi "ágæti" vírus að senda þessum Jóhanni póst í mínu nafni frá tölvu einhvers þriðja aðilans... eða er ekki svo.... það væri slæmt afspurnar ef tölvan mín væri sýkt af þessari óværu.

Wednesday, August 20, 2003

Meira um hvalveiðarnar til að svara Stínu...

Mér leiðist eiginlega allt við þetta mál frá upphafi til enda fyrir utan það að mér finnst hvalkjöt ágætt.


Mér leiddist upphaflega að við skildum hætta að veiða hval.

Mér leiddist að við skildum hætta í Hvalveiðiráðinu.

Mér leiddist að við værum að hálfpartinn troða okkur í það aftur með einhverjum kjánalegum fyrirvörum.

Mér leiðist það að eitthvað fólk (ekkert sérstaklega pabbi Stínu, veit að hann veit hvað hann syngur) sé svona ofboðslega á móti hvalveiðum án þess að hafa kynnt sér málið að neinu ráði (t.d. tel ég líklegt að flestir evrópubúar telji alla hvali vera í útrýmingarhættu og hafi ekki hugmynd um það að í gegnum tíðina hafi Íslendingar verið svona frekar skynsmir í nýtingu hvalastofna, eitthvað annað en aðrir Evrópubúar sem voru komnir langleiðina með að þurrka út suma stofnana okkar)

Og núna leiðist mér alveg óstjórnlega hvernig Hafró virðist ætla að klúðra þessu gjörsamlega frá upphafi. Banna myndatökur fjölmiðla af veiðunum. Gefa öllum þeim úti í heimi sem ekki vita hvernig hvalveiðar fara fram tækifæri til að trúa öllum einhliðaáróðri hvalverndunarsinna.

Mér leiðist alveg óstjórnlega að við séum að stunda veiðar sem við köllum vísindaveiðar og eini vísindatilgangurinn sé að athuga hvað sé í maganum á hvalnum. Ef það er ekki löngu vitað þá er það auðvitað hreinn og klár skandall vísindamannanna.

Mér leiðist að við séum að stunda vísindaveiðar þar sem einu vísindin sem ég kem almennilega auga á og geta réttlætt þessar veiðar eru annars vegar viðskiptalegs eðlis og hins vegar tæknilegs eðlis. Þ.e. (viðskiptalega) hvort við komumst upp með þetta og hvort við getum platað einhvern til að kaupa af okkur hræin og hins vegar (tæknilega) að athuga hvernig þessar nýju hvalveiðibyssur koma út. En þær ku vera einhver þau hættulegustu vopn sem hafa verið fundin upp seinustu áratugina. Eins gott að hryðjuverkamenn komast ekki yfir þau og e.t.v. er ekki lengur nein þörf á varnarliðinu hérna úr því við erum komin með þungvopnaða hvalveiðibáta.


Ég er sem sagt ekkert rosalega kátur með neitt af þessu!

Það eina sem mér finnst í áttina er að íslensk stjórnvöld mega alveg eiga það að þau eru samkvæm sjálfum sér í þessu máli að hafa eigin persónulega skoðun um það hvað telst umhverfisvernd og jákvætt umhverfislega séð. Ætli það verði ekki hægt að stunda hvalveiðar og hvalaskoðun á Hálslóni þegar það kemur. Yrði alveg dásamlegt umhverfislystaverk!

Og ætli maður hafi ekki myndir af hinum líka!


Og í dödó



Og svo eru alltaf nokkrir sem eru að labba