Saturday, August 16, 2003

Menningarnótt, taka eitt
Undarlegt hvað þessi menningarnótt er eitthvað björt. Ég hélt að það væri farið að dimma á nóttunni. Jæja, þó hún sé búin að standa í marga klukkutíma þá er svo sem ekki öll nótt úti ennþá.........





Afrek dagsins: Línuskautamaraþonið
Ég segi nú ekki alveg farir míns sléttar. Sko þar sem ég á heima svona nokkurn veginn niðri í bæ þá fannst mér gáfulegast að fara bara á skautunum heimanað frá mér. Það var náttlega rigning allt blautt og ég afrekaði það strax á horninu við Hlemm að detta á hausinn. Lá þar afvelta á miðri Hverfisgötu/Laugavegi.

Jæja, skrönglaðist á fætur, herti á mér skautann og komst niður í bæ. Þá var klukkan ekki nema rétt rúmlega ellefu og klukkutími í að hlaupið hæfist. Fór bara í hinum mestu makindum og keypti mér orkudrykk í 10-11 í Austurstrætinu.

Fljótlega komu Ragga og Ragnhildur og svo hófst hlaupið. Ragnhildur hafði beðið sérstaklega um það að fá að verða samferða mér af stað þannig að hún gæti hangið í mér. Eitthvað virtist hún hafa gleymt því þegar hlaupið var ræst því hún bara æddi af stað og skildi mig aumann eftir. En þetta var ágætt. lagði af stað með þeim seinustu og það varð þá auðvitað þannig að fyrri hluta hlaupsins var ég endalaust að fara fram úr. Náði síðan elsku Ragnhildi einhvers staðar við Tollvörugeymsluna.

Ég hafði gert ráð fyrir að aðalvandamálið yrði hvað malbikið væri gróft en það var ekki raunin. Vissulega er malbikið gróft en í bleytunni var það aðallega hált. Þetta var eiginlega eins og að vera á línuskautum á hefðbundnu skautasvelli. Ef maður spyrnti sér eitthvað áfram og gaf almennilega í þetta þá skrikaði skautinn til í hverju skrefi.


Síðan gekk þetta ágætlega. Sneri við einhvers staðar nálægt IKEA og var þá eiginlega hættur að vera að æða framúr fólki. Kom meira að segja einn kall sem reyndi að fara fram úr mér og einn helv. góður svona 10 ára strákur sem komst framúr. Vorum í kappi lengi vel alveg þangað til mér fór að hitna of mikið og fór úr regnjakkanum mínum. Sá hann þá ekki lengi vel eftir það.

Æddi áfram að því er mér sjálfum fannst og var á fleygiferð. Var búinn að steingleyma því að það var einhver ólukkans brekka þarna. Æddi sem sagt áfram efst í henni og fór ennþá eins hratt og ég gat. Alveg þangað til að ég sá að ég var í miðri brekkunni og á allt of mikilli ferð. Réð ekki við neitt á skauta með allt of hárri bremsu sem ómögulegt er að beita og á hálu malbikinu sem virkaði eins og skautasvell á köflum og malbikið allt í hólum og hæðum þannig að ég treysti mér alls ekki til að sikksakka neitt. Þetta gat bara endað á þann einn veg að ég datt á rassinn alveg kylliflatur. Henti mér raunar upp á gras og rann þar á rassinum [er núna svona töluvert vel skrámaður].

Fór eitthvað hægar á eftir og misti raunar einn fram úr mér þarna á meðan ég var að detta. Komst síðan aftur á strik og var farinn að sækja á þá sem voru næstir á undan mér en datt síðan reyndar alveg að ástæðulausu aftur einhver staðar við Kringlumýrarbrautina.

Eftir það var ég hálf skakkur allur og gat ekki beitt mér almennilega. Fannst að ég væri alltaf við það að detta. Leiddi það til þeirrar smánar að ég missti svona 5-10 manns framúr mér á lokasprettinum. En í mark komst ég og þá eiginlega við illan leik en gott var að heyra hvatningarhróp mömmunnar þegar ég átti svona 200 metra eftir. Verst að ég gat ekki almennilega nýtt mér þau þar sem ég var eiginlega orðinn eins og belja á svelli.

Síðan þegar ég kom í mark þá náði ég ekki að skila af mér miðanum á réttum tíma þannig að kannski verður tíminn hjá mér eitthvað vitlaus. Gleymdi síðan líka að stoppa klukkuna mína og leið svona held ég ein mínúta áður en ég stoppaði hana. Var það 37:21 minnir mig. Bíð núna spenntur eftir að niðurstaðan komi á netið.

Ég hafði annars nokkur markmið fyrir þetta hlaup og hef ekki ennþá klúðrað neinu þeirra. Fyrri það fyrsta þá var mitt markmið ekki mjög hátt því ég ætlaði að klára hlaupið og það tóks að sjálfsögðu. Síðan þar sem ég gerði nú ráð fyrir að ná því markmiði þá hafði ég háleitari markmið um árangur. Ég ætlaði að vera fljótari en Svavar Kvaran í fyrra og það tókst skv. minni tímamælingu (þrátt fyrir að allar aðstæður núna hafi verið mun erfiðari með göturnar renn blautar). Ég ætlaði að verða á undan Ragnhildi systur minni og það tókst heldur betur. Ég ætlaði síðan að verða fyrir framan miðju í karlaflokki og ég vonast til að það hafi tekist en hef ekki enn séð úrslitin. Hvort og hvernig þetta markmið tókst verður blokkað nánar við fyrsta hentugleika.



Um þetta hlaup:
Í fyrsta lagi þá fannst mér eiginlega skemmtilegra að hlaupa 10km í fyrra og hittifyrra en að fara þetta núna. Þá var maður að hlaupa innanum fullt af fólki en þarna var maður meira og minna einn og að detta á hausinn

Leiðin og göturnar: Það var enginn bíll neitt nálægt því að keyra á mig en ég veit að það voru bílar þarna sums staðar innanum fólk á skautum og það er auðvitað algjör skandall. Það er margfalt hættulegra að bílar séu innanum skautahluapara en venjulega skóhluapara. Mun aldrei geta skilið af hverju er ekki hægt að loka þessum götum öllum almennilega.
Síðan er það einkennilegt að hafa ekki getað sópað upp sandinn af hellunum niðri í Lækjargötu. Sandur og skautar eiga ekki vel saman.

Að öðru leyti þá var þetta bara gaman en ofboðslega erfitt að böðlast þetta áfram í hálkunni.

En loks, skammskamm hlaup.is. Það er sko algjör dónaskapur að drífa bara inn úrslitin úr "alvöru" hlaupunum en geyma bara línuskautaúrsltiin þangað til einhvern tíman. Á maður að þurfa að bíða fram yfir helgi að einhverjir jólajeppar nenni að uppfæra þessa síðu hérna, sem verður líklegast ekki fyrr en eftir dúk og disk?! Sé annars á úrslitunum að ég hefði eina ferðina enn orðið næstum samferða Hörn vinkonu Ernu Bjarkar í mark í 10 km án þess örugglega að hitta hana samt nokkurn tímann .....

Jæja, úrsltitin orðin ljós:
Þetta er ekkert svo slæmt. 27. sæti í heildina á 36:05 mínútum og 22. sætið í kaddlaflokknum. Þ.e. fyrir ofan miðju hvernig sem talið er.
Ég hef reyndar grun um að miðarnir hafi ruglast um eitt eða tvö sæti hjá þeim sem voru að koma í mark í einum hnapp með mér þar sem mér fannst að það væru fleiri en einhver einn sem hefði komið í mark rétt á undan mér. Tíminn er þó örugglega nokkurn veginn réttur en sætið á kannski að vera númer 28 eða 29. En við skulum bara hafa það sem betur hljómar.

Miðað við að hafa dottið tvisvar og eiginlega klúðrað seinustu 2-3 km þá er þetta bara ágætt hjá manni. Með meiri brekkutækni og betra jafnvægi hefði ég bara orðið með fyrstu mönnum!

Af þeim fraukum Ragnhildi og Ragnhildi er það að segja að Raggan var í 70. sæti á 46:02 og í 20. sæti í kvennaflokki og þá bara svona um miðbikið. Má held ég vel við una. Ralldiggnur litla systir klúðraði hins vegar tímatökunni sinni en var næst á undan Höskuldi sem var í 48. sæti á 39:35, sem er svo sem ágætt. Getur ekki verið slæmt að koma í mark næst á undan Höskuldi!


No comments: