Monday, August 18, 2003

Er þetta örugglega sniðugt?
Fyrirgefið þið ég bara get ekki orða bundist, með fullri virðingu fyrir Hafró og Jóa Sigurjóns. En hvernig er hægt að taka það trúanlegt að alþjóðlegar fréttastofur sem eru vanar að senda fréttamenn á fremstu víglínu í hverri styrjöldinni á fætur annarri séu ekki færar um að mynda jafn sárasaklaust fyrirbæri og að skjóta eins og eitt smáhveli með sprengjuskutli. Alveg þó Jói segi að þetta séu hin ægilegustu vopn og alveg stórhættuleg.

Njörður veiddi fyrstu hrefnuna
Búið er að veiða eina hrefnu við landið frá því að hrefnuveiðiskipin héldu út á miðin um helgina. Njörður KÓ veiddi fyrstu hrefnuna um fimmleytið í dag, en báturinn er einn þriggja hrefnuveiðibáta sem Hafrannsóknastofnunin hefur gert samning um að annist töku dýranna. Guðmundur Haraldsson skipstjóri á Nirði sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að dýrið, sem væri lítið, væri komið um borð. Hann sagði að skipverjar hefðu ekkert aðhafst fyrr en erlendir fréttamenn, sem fylgdu skipinu eftir, hættu eftirför í morgun. "Aflífun dýrsins með hinum nýja sprengiskutli gekk hratt og vel fyrir sig. Krufning og sýnataka fer fram á hafi úti," segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun. Þá kemur fram að að mælingar hafi verið gerðar og sýni tekin til margvíslegra rannsókna, enda sé markmið rannsóknanna mjög fjölþætt. "Auk athugana á magainnihaldi og orkubúskap sem tengjast megin markmiði rannsóknanna, þ.e. fæðuvistfræði hrefnu á Íslandsmiðum, fór fram umfangmikil sýnataka vegna rannsókna á viðkomu hrefnu, erfðafræði, sníkjudýra- og meinafræði, ásamt rannsóknum á magni lífrænna og ólífrænna mengunarefna í ýmsum vefjum hrefnunnar."

Guðmundur á Nirði segir að leiðinlegt veður sé á þeim slóðum sem skipið er nú statt og verði haldið til hafnar í Ólafsvík í kvöld. Stefnt er að því að halda út í fyrramálið. Sigurbjörg, sem er eitt þeirra skipa sem eru á hrefnuveiðum, hélt til Vestmannaeyja í dag vegna veðurs en ætlar líklega út aftur í kvöld.

Halldór Sigurðsson, sem er þriðja hrefnuveiðiskipið, hefur ekki veitt hrefnu þar sem fréttamaður fylgir skipinu eftir á Nökkva. Sverrir Halldórsson leiðangursstjóri á Halldóri Sigurðssyni sagðist hafa orðið var við nokkrar hrefnur í dag en engin hrefna yrði veidd á meðan Nökkvi væri í nálægð við skipið.

Alls verða veiddar 38 hrefnur í ágúst og september 2003 vítt og breitt um íslenska landgrunnið, en veiðinni er dreift í samræmi við rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar. Talið er að um 43 þúsund hrefnur séu á íslenska landgrunninu og að þær éti á ári hverju í kringum tvær milljónir tonn af fæðu á svæðinu, þar af ein milljón tonn af fiskmeti.




Ef við ætlum að fara að veiða hvali aftur þá eigum við að gera það upprétt og hafa hlutina uppi á borðinu. Svona laumuspil er til þess eins fallið að fullvissa fólk úti í heimi um það að hér sé eitthvað ofboðslega ljótt á ferðinni. ......... eða er eitthvað ofboðslega ljótt þarna á ferðinni?

En það er svo sem ekkert nýtt að þegar menn eiga í stríði þá er óheft fjölmiðlun alls ekki vel séð!

Ég er bara svo illa gefinn að ég get ekki skilið þetta öðruvísi. Það getur a.m.k. ekki verið raunveruleg ástæða að ekki sé hættandi á það að skjóta einn hval með einu skoti þó einhver myndatökubátur sé í svona 100 m fjarlægð. Vona bara að önnur rök fyrir þessum vísindaveiðum séu skárri en þessi ósköp.

En samt: Til hamingju með fyrsta hvalinn. Ég er ennþá ekki alveg viss um hvort ég sé með eða á móti þessum veiðum. Eða kannski frekar hvort ég sé hlutlaus eða á móti. Held að ég nái ekki að verða fylgjandi þeim.

No comments: