Nú gefst kjósendum kostur á að fá tvö asnastrik frá ríkisstjórninni fyrir einungis eitt atkvæði. T.d. má velja á milli hálendisvegar yfir Kjöl eða Sprengisand, gat í gegnum fjall við Siglufjörð, niðurgreitt álver, misheppnaðs samgönguráðherra og landbúnaðarráðherra sem kann bara einn brandara.
Þeir sem greiða atkvæði utankjörstaðar áður en enn fleiri hætta við að kjósa ríkisstjórnarflokkana geta fengið starf í álverinu í kaupbæti.
En öllu gamni fylgir einhver alvara
Ég næ nefnilega ekki upp í þetta. Þeir selja Landsbankann fyrir nokkra milljarða, en Landsbankinn hefur undanfarin ár skilað einum ef ekki tveimur milljörðum í hagnað. Peningana sem frúin í Hamborg [herrarnir frá Moskvu] gaf okkur fyrir bankann á síðan að nota á þann frábærlega skynsama hátt að stuðla að atvinnuuppbyggingu sem felst í að leggja nokkra vegi og bora gat í gegnum fjall við Siglufjörð yfir í eyðifjörðinn Héðinsfjörð og eyðileggja hann þar með. Allt til þess að Siglfirðingar geti farið á rúntinn inn á Ólafsfjörð og inn á Akureyri án þess að koma við í Skagafirði. Allt í nafni atvinnuupbyggingar. Ég hef aldrei fyrr vitað um neinn telja það að atvinnubótavinna við holugröft í eyðifjörðum væri atvinnuuppbygging. Minnir mig meira á einhvern gamlan Klepparabrandara.
Síðan heyri ég það í vikunni að líklega til að geta eytt öllum peningunum sem frúin í Hamborg [herrarnir frá Moskvu] gaf okkur þá hafi þeim dottið það snjallræði í hug að ganga frá uppbyggðum vegum yfir hálendið og malbika þá. Bæði yfir Kjöl og Sprengisand en líka Fjallabaksleið nyrðri. Og þetta á meðal annars að vera gert í nafni umferðaröryggis. Það að byggja upp malbikaðan veg að Fjallabaki gerir ekkert annað en að eyðileggja það svæði líklega endanlega. En vegur yfir Kjöl og Sprengisand má svo sem skilja sem einhvers konar samgöngubót en aldrei sem öryggismál. Ég sé það alveg í anda að borgarbúar sem hafa aldrei farið á fjöll um vetur fara á illa búnum bílum upp á Sprengisand þar sem getur komið vitlaust veður hvenær sem er. Verða úti eða eitthvað ennþá verra. Sé það ekki alveg í tengslum við umferðaröryggi. Get síðan ekki heldur ímyndað mér að bættur vegur yfir Kjöl verði til þess að þangað flykkist fólk sem á ekki jeppa núna í dag þar sem sá vegur hefur verið ágætlega fólksbílafær í meira en 10 ár.
Held annars að núna sé kominn tími til að skrifa Amen.
No comments:
Post a Comment