Ætli maður ætti að verða göllóttur?
Tók einhver eftir því að sumarið eða a.m.k. vorið kom í gær? Ég gerði það. Alltaf þegar það kemur vor í skyndingu þá dettur mér í hug lagið hans Bubba um sólargeislann sem hann myndi alltaf hleypa út ef hann ætti hann. Á plötuumslaginu (já þessu sem var 30cm á kant í gamla daga) var útskýring á laginu um að hann hefði samið það á einhverjum björtum fallegum degi þegar honum fannst að það væri komið sumar. Hann hefði farið út að hjóla og hjólað í þessu frábæra veðri bæinn þveran og endilangan þangað til honum var orðið svo kalt að hann var nær dauða en lífi. Einhvern veginn dettur mér þetta frá Bubba alltaf í hug þegar það virðist vera komið vor. En það var bara í dag.
Fékk síðan þá undarlegu flugu í höfuðið (í hádegisskokkinu í góðaveðrinu) að í staðinn fyrir að þurfa að eyða tíma mínum í klippingar einu sinni í mánuði eða svo [það vex sko nokkuð vel á mér ennþá þetta gráa strí] þá gæti ég allt eins farið að dæmi Stebba og bara orðið sköllóttur. Þá þyrfti ég aldrei aftur að eyða tíma mínum í miður skemmtilegar klippingarferðir. Gæti bara rennt sköfunni yfir kollinn eða einhverri rakmaskínu aðra hverja viku eða svo. Þyrfti þá heldur aldrei aftur að þvo mér um hausinn með sjampói (nema kannski þegar fúavarnarefni slettist á hausinn á manni, ekki svo að skilja að það gerist mjög oft en það gæti gerst).
Eftir hádegisskokkið tók ég síðan eftir því að það var eitthvað frekar rólegt að gera á pönkarastofunni í Laugum og skellti mér bara þangað og með því þá er eiginlega hægt að flokka klippingarferðir undir líkamsrækt og aðra vellíðan. Enda kjaftaði klippikonan svo mikið við mig á meðan hún klippti að setan í klipparastólnum gæti með réttu flokkast sem æfing kjálka og tunguvöðva! Veit reyndar ekki hvort það sé einhver þörf á að æfa þá vöðva á mér sérstaklega, jú annars, get þagað stundum út í hið óendanlega.
Leist reyndar ekkert á klippinguna til að byrja með því mér sýndist að konan hefði lesið hugsanir mínar og ætlaði að gera mig algjörlega sköllóttan en það varn ú bara óskhyggja hjá mér. Það er ennþá eitthvað af hári þarna ofan á hausnum á mér.
No comments:
Post a Comment