Thursday, March 11, 2004

Þetta guðsvolaða vesældar veður


Einhvern veginn held ég að einhver veðurfræðingsómyndin hafi um helgina reynt að tala fallega um veðurpá vikunnar. Sagt að það yrðu hlýindi að minnsta kosti út vikuna. Það væri ekkert annað að sjá í veðurkortunum nema óvenjuhlýtt veður. Hann sá líklega ekki í veðurkortunum flottasta togara þjóðarinnar rekinn undan ofsaveðri lengst upp í fjöru. Hann sé ekki fyrir sig mig mættan rennandi blautan á fund þrátt fyrir að ég hafi lagt í stæði sem hefði átt að vera merkt fötluðum. Hann sá ekki heldur fyrir stelpuna sem ég sá í kvöld flýta sér svo mikið út úr bílnum sínum til að komast inn á Söbvei að hún gætti ekki að kápulufsunni sinni sem var ennþá hálf inni í bílnum. Það var annars dálítið fyndið.

Bíll stoppar í Austurstrætinu. Það gengur á með sunnan hvassviðri og ógurlegu vatnsveðri. Bílhurð opnas skyndilega. Ung stúlka snarast út úr bílnum og fýkur hurðin aftur um leið og hún er komin út úr bílnum. Hún tekur á rás en er nær dottin á hausinn þegar kápan klemmd við bílhurðina rykkir henni til baka......


Nei veðurfræðingar sem geta talað fallega um þetta hroðalega veður eiga að skammast sín sem og allri aðrir sem mæla þessum ósköpum bót. Ég hef ekkert með 8 stiga hita, 18 m/s og 18 mm úrkomu að gera. Má ég þá frekar biðja um 8 gráðu frost og hinu hvoru tveggja má alfarið sleppa en setja heiðskíran himinn í staðinn.

Síðan er dagurinn í dag búinn að vera ennþá meira áberandi veðurdagur þar sem ég var á þvælingu meira og minna. Var eiginlega í ráðgjafaleik og rifjaðst þá upp fyrir mér hvað þetta ráðgjafalíf var óttalegur þeytingur. Er kannski að verða allt of mikið allt of góðu vanur í innivinnunni.

Annars er þessi rokvika búin að vera óttaleg félagsmálavika hjá mér. Aðalfundur í starfsmannafélaginu hjá mér.... já frekar ótrúlegt, ég sem er eitthvað mest félagslega fatlaði íbúi þessa lands er þar sko formaður. Fötlunin var reyndar næstum búin að setja mig í verulegan bobba þar sem allir hinir í stjórninni voru búnir að ákveða að hætta og alls konar annað fólk sem hefur verið að gera eitthvað þarna ætlaði líka að yfirgefa mig. Einhverjir gáfust nú reyndar upp en það kom bara annað frábært fólk í staðinn. Síðaner búið að vera að snúa upp á hendina á mér um að verða formaður í einhverjum fleiri félögum. Ef svo heldur fram sem horfir verð ég orðinn formaður í öllum félögum sem ég er í, nema kannski Ferðafélaginu. Gekk svo langt að því var stungið að mér hvort ég yrði ekki formaður í félagi formanna. Líst nú reyndar ekki alveg á það. Reyndar er einhver félagsskapur formanna starfsmannafélaga til en mér líst eiginlega ekkert á slíka samkundu þannig að ég er ekki á leið í slíka formennsku. En ef þig vantar formann með reynsu þá er bara að hafa samband!

Svo ég slútti deginum með stæl, þá komst ég að því að það er eiginlega ekki eftir neinu að bíða. Það er hægt að kaupa þetta (Nikon d70) núna strax!

No comments: