Máttur bloggsins
Hefur einhver tekið eftir því að megnið af rokinu í Reykjavík er fokið út í veður og vind? Ég held í alvörunni að kveinstafir og bölbænir bloggara til veðurguðanna hafi haft þessi áhrif. Verst að ég hef misst af vini mínum og hálfnafna Gesti Einari á morgnanna. Er nokkurn veginn viss um að hann hefur dásamað þessi frábæru hlýindi, býsnast í svona kortér yfir tveggja stafa hitatölum og talað um blíðuna með lotningu ef hann hefur ekki getað dásamað veðrið á sínu svæði sérstaklega (ótrúlegt hvað þessir Akureyringar geta verið kotrosknir ... "kotroskinn" þetta er alveg ótrúlega fyndið orð að vera roskinn í kotinu? Hmmm kannski málvísundar og þýðingarsérfræðingar tjái sig um uppruna orða... )
En í alvörunni þá er veðrið orðið það gott að ég gat opnað út á svalir án þess að þurfa að fara í regngalla og ákalla tryggingarfélag vegna vatnsskaða.
Og ojbara, kaffið sem ég var að malla mér er of sterkt. Það er næstum því rammt á bragðið og ef mér finnst kaffi of sterkt þá má gera að því skóna að það sé í alvörunni sterkt! Er einhver með hrúta til tjörgunar? Ég er með tjöruna sko!
Á nefnilega við það vandamál að stríða að verða stundum eitthvað hroðalega þreyttur einhvern tíman um mitt kvöld. Lét það reyndar eftir mér að sofna yfir gettu betur hraðaspurningunum. Spennan náði greinilega ekki inn í heilann á mér. Er greinilega orðinn gamall. Á síðan ekki von á að ég verði neitt syfjaður fyrr en undir morgunn. Hvar endar þetta eiginlega?
En æ, varst of seinn... Er eiginlega búinn með allt kaffið, það vandist nefnilega bara nokkuð vel eins og allt gott.
PS
Ef einhver ætlar að benda mér á að ég sé orðinn jafn slæmur með veðurblaður og sjálfur Gestur Einar, þá er það of seint, ég er búinn að benda á það sjálfur... hí á þig !
No comments:
Post a Comment