Thursday, March 04, 2004

Þetta er auðvitað bilun


Ég held að það megi segja að það sé bilun hvernig bíllinn minn þykist vera bilaður núna. Ja sko fyrir utan það að ég þarf að starta honum svo lengi á morgnanna að flestir nágrannarnir eru löngu vaknaðir og farnir að henda í mig gömlum skóm áður en hann kemst í gang og ég skrönglast í burtu. Ja reyndar kannski dálítlar ýkjur þar sem þeir eru líklega flestir vaknaðir löngu áður og hugsanlega farnir eitthvað sjálfir en hvað um það, þetta hljómaði bara betur svona.

En skryngilega bilununin hún er fáránleg. Það er svona hurðalæsingafjarstýring á bílnum eins og er dálítið móðins núna. Nema það að fjarstýringin mín drífur stutt og hefur alltaf staðið á sér af og til. Meira að segja svo mikið að einu sinni brotnaði hún á skapinu á mér og er síðan þá tjaslað saman með límbandi. En ég tók sem sagt eftir því einhvern tíman í vikunni að hún var farin að verða mun viljugri en áður. Ég var varla búinn að koma við takkann á henni þegar ljósin fóru að blikka og hurðirnar komnar úr lás. Í gær gat ég ekki betur séð en að hurðarófétin færu úr lás áður en ég gerði nokkurn skapaðan hlut nema að nálgast bílinn í sakleysi mínu. Þetta fannst mér frekar undarlegt í alla staði. Þegar ég kom síðan heim úr vinnunni áðan og var að bauka við það að draga út úr bílnum Hagkaupspoka, íþróttatösku fulla af illa þefjandi hlaupagalla og tölvuna þá sá ég að ljósin blikkuðu í sífellu og hurðir læstust og aflæstust sem ákafast. Fjarstýringarófétið hefur sem sagt öðlast sjálfstæðan vilja og leggur hart að sér við æfingar!

Lofaði ég nú guð fyrir að fjarstýringin er sú skammdrægasta norðan Alpafjalla, læsti bílnum, fullvissaði mig um að hann væri ennþá læstur og tók svo til fótanna þangað til ég var kominn í örugga fimm metra fjarlægð.

Já það minnir mig á það. Þegar ég var að leggja af stað í vinnuna í morgun þá sá ég allt í einu að stefnuljósin voru farin að blikka báðum megin í einu. Það er svo sem auðvitað. Fjarstýringin slær ekki slöku við þó ég sé þrælupptekinn við aksturinn heldur hamast á læsingunum eins og ég veit ekki hvað. En ef þú sérð bláan skítugan Ventó með skíðabogum sem eru festir saman með grænu snæri, þá ekki láta þér bregða þó ökumaðurinn virðist vera að skella neyðarljósunum á annað slagið. Það er "ekkert að" það er bara fjarstýringin á sýrutrippi! [er annars nokkuð y í svona sýrutrippi? Ég held að ég hafi aldrei skrifað þetta orð áður, sýrutryppi eða tryppi... nenni ekki að gá í orðabók, kannski getur einhver hestamaður/kona svarað mér, þetta er eflaust sams konar tryppi og hestatrippi.... ]

No comments: