Monday, March 29, 2004

Þessi árshátíð og allt!


Ég held svei mér þá að ég sé ennþá hálf þreyttur eftir árshátíðina en það er allt í lagi því ég man líka ennþá hvað það var roslega gaman. Ég lifi örugglega lengi á henni. Og samt skandalíseraði enginn, ekki mikið að minnsta kosti.

Svo rifjuðust upp fyrir mér IMG árshátíðirnar tvær sem ég fór á áður en ég byrjaði að vinna hjá Skýrr. Ekki voru þær nú par skemmtilegar. Sú fyrri hálf vansköpuð þar sem enginn þekkti ekki neinn eftir sameiningu Gallup og Ráðgarðs. Eða sú seinni þar sem ég var látinn gista á nær gluggalausu hótelherbergi á Hótel Örk og stelpan sem ég hefði gefið af mér a.m.k. vinsti höndina fyrir sá ekkert nema einhverja ólukkans hljómsveitartöffara og hef ég eiginlega ekki séð hana síðan.... Æji ekki veit ég nú af hverju ég er að skrifa þetta núna :( .. .. . Einhvern veginn fílaði ég þá árshátíð alls ekki og man bara enn hvað hún var ekki skemmtileg. Eða afkáranlegt skemmtiatriðið á þeirri árshátíð sem fólst í að botna fyrripart og þar sem flestir botnarnir voru fyrir neðan belti þá þorði dómnefndin ekki að lesa neinn seinnipartinn upp og sagði að þetta hefði bara ekki verið boðlegt. Annan eins aulaskap hef ég ekki heyrt um á árshátíð og held að hún hafi verið áberandi verst þeirra árshátíða sem ég hef farið á. Kannski af því að ég var einhvern veginn hættur að vinna þar í huganum eða kannski frekar út af öllu þessu hinu.

Síðan verð ég nú að monta mig því gerðist ég svo framtakssamur að koma árlegrgi Fimmvörðuhálsferð Skýrrara á dagskrá í dag. Er strax kominn með heila 12 þátttakendur. Verður örglega frábært. Það hefur að minnsta kosti alltaf verið það hingað til. Sem t.d. má sjá frá því í fyrra og frá því í hittiðfyrra! En í fyrri ferðinni var reyndar dálítið blautt, hroðalega hvasst og síðan var búið að éta allan matinn okkar þegar við komumst loksins niður í Bása. En það var samt alveg frábært!

Og svo þarf ég að gera eina alvarlega athugasemd:
Fyrir hvern er þessi hallærislegi snjór sem er allt í einu kominn hér í höfuðstaðnum. Veðurguðirnir gátu ekki drusslast til þess að snjóa almennilega þegar það átti að snjóa eða láta snjóinn sem kom haldast af einhverju viti. Núna þegar það á að vera að koma vor og maður er búinn að afskrifa þennan vetur sem einhvern mesta aulavetur allra tíma þá kemur einhver snjóómynd í henni Reykjavík af öllum stöðum. Hallærisföl sem gerir ekki annað en að gera hálku í Reykjavík og láta mann fara að leita bölsótandi að sköfufjáranum.

Og hana nú!

No comments: