Sunday, August 01, 2004

Dreifbýlið Reykjavík

Sluxinn á föstudeginum tókst vel. Ég fór á bílnum mínum og keyrði lengi dags og var loks kominn langt út í sveit þar sem heitir Grafarholt og þar er ein gata sem myndar heilt hverfi - Jónsgeislinn. Þar búa Maggi og Erna og héldu þau hinn árlega Sluxa með glæsibrag.

Grilluðum inni í bílskúr og átum á okkur gat. Drukkum mjöð og gerðumst glöð. Svo glöð að það var að sjálfsögðu ekkert vit í að fara á eðalvagninum á brott. Þar sem ég hafði ekki ætlað að gista þá fór ég á djammið niður í bæ og aftur þurfti að keyra en núna ekki lengi dags heldur lengi nætur. Nú það var sem sagt stuð.

Daginn eftir fór ég á hjólhestinum mínum til að sækja eðalvagninn. Og þvílíkt og annað eins. Það var ferðalag. Ætli það geri sér margir grein fyrir því að það er lengra frá miðbæ Reykjavíkur og upp á Grafarholt heldur en frá Tívolíinu í Kaupmannahöfn og út á Kastrupflugvöll. Einhvern veginn held ég samt að það búi fleiri á mölinni þarna úti í Köben heldur en hér á mölinni í Reykjavík. Það væri kannski frekar ráð að við myndum færa flugvöllinn aðeins út fyrir miðbæinn en frekar gefa fleira fólki kost á að búa í miðbænum. En nei það er ekki við það komandi enda er verið að byggja einhverjar fáránlegar hraðbrautir niðri í miðbæ, náttúrlega til að tryggja það að þeir sem eiga heima sitthvorum meginn við miðbæinn í 10 km fjarlægð í hvora átt geti hindranalaust komist til hvors annars!

Og þar sem þetta var hjólaferðalag hjá mér þá tók ég áþreifanlegra eftir því að þetta er ekki á neinni flatneskju sem Reykjavík er. Onei þetta eru heilu fjöllin sem verið er að byggja.

No comments: