Thursday, August 26, 2004

Ég er pirraður


Tölvan mín vill ekki hlýða. Hún er óratíma að gera eitthvað sem á ekki að taka neinn tíma að gera. Ég er margbúinn að spyrja hana hvurn andsk. hún sé að gera en hún svarar ekki. Ég er búinn að hóta henni barsmíðum og hef jafnvel staðið við það. Hún lætur sér samt ekki segjast.

Það er einhver hálfviti í sjónvarpinu að lýsa sundbolta af Ólundarleikunum. Eins og það sé hægt að ímynda sér að það geti verið áhugavert. Maður verður að hafa greind á við sundbolta til þess. Ég næ því að minnsta kosti ekki. Það er samt örugglega voðalega gaman í sundbolta ef maður er góður sundboltamaður. En mér finnst líka voðalega gaman að lesa góða bók og stundum bara slappa af eða fara í bíó og fara á kaffihús. Það dettur samt sem betur fer engum í hug að það geti verið gaman að horfa á það í sjónvarpinu.

Ég er búinn að tapa internettengingunni minni. Ætlaði að breyta heimatölvunni minni í vefsörver. Það gekk ágætlega. Fékk fyrst fasta IP tölu og síðan leiðbeiningar um hvernig ég ætti að breyta ADSL móeminu í ADSL ráter. Það gekk fínt alveg þangað til það hætti að virka. Stóð feitletrað með rauðu að þeir sem færu eftir leiðbeiningunum gerðu það á eigin ábyrgð og enga hjálp væri að fá frá höfundinum. Það gæti samt bjargað þessu að ég vinn með honum og hann mun örugglega hafa lúmst gaman af því að hjálpa mér. Ef ekki þá er ég í vondum málum. Þessi bloggfærsla er annars skrifuð heima hjá mér í Word og síðan flutt á netið einhvern tíman löngu seinna. Samt eitthvað áður en þú ert að lesa þetta. Nema þú hafir kannski brotist inn í tölvuna mína í gengum þetta ónýta módem mitt og sért að lesa þetta á Word formatinu. Nei varla þar sem ég slökkti á draslinu m.a. til að koma í veg fyrir að einhver flinkari en ég gæti brotist inn á mig. Yrði frekar slæmt afspurnar ef einhver kæmist inn í tölvuna mína. Kannski er vandamálið að ég skuldaði einhverja símareikninga. Það er e.t.v. ekki tilhlýðilegt að þeir sem borga ekki símann sinn geti verið með vefþjónustu heima hjá sér. Hvað veit ég.

Jæja, pirringurinn er eitthvað á undanhaldi.

Og ef eirasi.heima.is er farið að virka þá er heimatölvan mín orðin vefsörver.

No comments: