Tuesday, August 10, 2004

Það er eitthvað undarlegt með þetta veður


Minnir mig mest á hitabylgjuna í Tinnabókinni "Tinni og dularfulla stjarnan" en þá var halastjarna á leið til jarðar og olli ægilegri hitabylgju þannig að malbikið bráðnaði um miðja nótt. Það er reyndar ekki alveg svo heitt en svona næstum því.

Það var að minnsta kosti svo heitt síðustu nótt að það sást til huldukonu taka sundsprett í tjörninni sem nágrannakonan í næsta húsi var að búa til. Nei nei þetta var allt innan siðsemis marka þar sem mér skilst að hún hafi ekkert verið nakin. En hvað veit ég, ekki sá ég hana enda sofandi á mitt græna allar nætur eins og önnur ungabörn. Það fer annars tvennum sögum af því hvort þetta hafi verið raunveruleg huldukona eða bara einhver raunkona. Reyndar þar sem það sást til hennar reykjandi við tjörnina þá er frekar hallast að því að þetta hafi verið raunkona. Eða hver hefur séð huldukonu reykja. Að minnsta kosti ekki ég.

Fór annars í kvöld niður á tjörn þar sem kertafleyting var í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Japan í seinni heimstyrjöldinni. Og var með myndavélina mína eins og sjá má á fótóloggnum mínum.

Ég er annars í dáltlum vandræðum þessa dagana. Það er ýmislegt sem fólk yfirleitt alls ekki skilur við mig. Reyndar helst það að ég eigi ekki maka og að ég skuli ekki drusslast til að kaupa mér íbúð. Er svona á leiðinni að gera þetta síðara. Og vandræðin eru hvort ég tími að fjarlægjast miðbæinn. Ég fer svo sem skammarlega sjaldan á djammið í bænum en það er ákaflega þægilegt og gaman að geta fengið sér göngutúr niður í bæ. Miðbærinn er eini staðurinn á öllu landinu finnst mér þar sem eitthvað fólk er yfirleitt alltaf á ferli. En það hafa bara ekki verið neinar ammilegar íbúðir verið þarna til sölu í háa herrans tíða (les nokkra mánuði) á því verði sem mig langar til að borga. Er þess vegna farinn að hugsa alvarlega um að flytja eitthvað upp í Sund eða Voga þar sem hægt er að finna ágætar íbúðir með bílskúr jafnvel og alles.

Ef einhver á svona 100 fm í búð í Norðurmýrinni sem er á lausu, helst með svölum og gengið út í garð þá vinsamlegast látið mig vita.


No comments: