Tuesday, August 17, 2004

Lokaæfing maraþonhlaupara


Ég skakklappaðist mína tíu kílómetra núna fyrr í kvöld til að athuga hvort garpurinn kæmist ekki örugglega á innan við klukkutíma. Jú skemmst er að segja frá því að það tókst hjá hetjunni með miklum ágætum en hún hefur dáltlar áhyggjur af því að harðsperrurnar verði ekki enn farnar á laugardaginn. En þær skulu víkja.

Hlaupatúrinn gekk annars bara vel. Þegar ég var að leggja við Iðnó þá sá ég að það var þarna hópur af miklum görpum að leggja af stað. Garpar þessir voru sem sagt aðeins á unda Ragganum sem gaf samt ekkert eftir. Komst fyrst fram úr einum einhvers staðar úti á Nesvegi og síðan öðrum skömmu seinna, meira að segja líka á Nesvegi. Sá eða öllu heldur sú náði mér reyndar aftur einhvers staðar þegar komið var út á Eiðistorg á bakaleiðinni. Greip ég þá til þess eitursnjalla leynivopns að halda henni á snakki alla leið í mark og komst hún þess vegna ekkert á undan Ragganum. Í mark komumst við á eitthvað svona 56-57 mínútum sem er bara ágætt held ég miðað við aldur og fyrri störf. Eða starfaleysi á hlaupasviðinu að undanförnu held ég frekar.

Var þetta reyndar eldhress hlaupahópur úr Víkingi eða frekar foreldrafélagi Víkins. Var ég næstum skráður í hlaupahópinn á staðnum eða að minnsta kosti í hlaupasveit. En ég var víst fyrr um daginn búinn að stofna hlaupasveit með Gunnsa Skýrrara og henni Októvíu hans.

Nú þegar hlaupaafrekinu var lokið lagðist ég í bleyti í Laugardalslauginni. Svamlaði þar um allt og fékk svo mikið vatn inn í annað eyrað að ég er varla með sjálfum mér, hvað þá með öðrum. Spurning hvar maður er þá.

En þetta leggst allt saman vel í mig og ég er farinn að hlakka verulega til laugardagsins. Því þó þeir sem aldrei hafa reynt skilji það alls ekki þá er alveg ofboðslega gaman að hlaupa í þúsundmanna hópi um borg og bý í upphafi menningarnætur. Vona bara að veðrið verði skaplegt.

En núna verður ekki meira hlaupt fyrr en á laugardaginn. Nema þá í algjörri mýflugumynd.

No comments: