Saturday, August 21, 2004

Hlaupari númer 2292 tilkynnir komu sína


Fannst pasataveisla maraþonsins í gærkvöldi vera eitthvað skorin við nögl og fékk mér þess vegna risastóra samloku á Aktu Taktu í gærkvöldi. Ætlaði annars bara að rölta yfir á Devitos og fá mér tvær sneiðar en það var einhver múgur og margmenni þar inni þannig að ég fór akandi niður á Skúlagötu. Nei, hlauparinn nennti ekki að labba, hvaðþá skokka!

Skrániningin mín í þetta hlaup vekur annars dálitlar áhyggjur hjá mínum. Það stendur nefnilega 10_km female_18-39. Mér sýnist sem sagt af öllu að ég keppi sem 18-39 ára gömul kona sem heitir Einar Ragnar. Vona að ég verði ekki dæmdur úr keppni fyrir rangt kynferði en þetta er kannski eina leiðin fyrir mig til að komast hærra í þeim flokki sem ég er skráður í. Þ.e. að skipta um flokk! Síðan er númerið mitt undarlega hátt og það er enginn afrifrildismiði á því eins og hefur alltaf verið. Ætli ég sé síðan með númer fyrir 3km skemmtiskokkara og fái engan tíma skráðan á mig. Ó mig aumann. Ég brjálast ef það gerist.

Þetta leggst annars bara vel í mann allt saman. Númerið sem sagt komið á mig. Linsur komnar í bæði augu og sit í makindum við borðstofuborðið að blogga í stuttbuxunum. Er reyndar ekki kominn í skóna en flaga númer CF47413 hangir á reiminni á vinstri skónum!

Er síðan búinn að borða mína múslísúrmjólk til að hafa orku í þetta. Var meira að segja bragðbætt með ferskum bláberjum svona til hátíðabrigða. Er samt hálf svangur ennþá en þori ekki að borða mikið meira þar sem þá yrði ég bara uppbelgdur.

Jæja en núna þarf ég hvað úr hverju að fara að koma mér út á hjólið og láta mig renna í rólegheitunum niður Laugaveginn.

No comments: