Sunday, August 08, 2004

Bíó og leikhúsferðir


Af því að Stína var að blogga um bíóferð strákanna sinna þá ætlað ég að blogga um það þegar ég fór í leikhús fyrir rosalega martlöngu og sá Dimmalimm eða eitthvað álíka.


Ég var svona þriggja ára eða kannski nýorðinn fjögurra. Það var hroðalegt myrkur í salnum og skyndlega varð ég rosalega hræddur. Mamma mín (sem man þetta líka) stóð í þeirri meiningu að ég hefði orðið svona hræddur við einhverja galdranorn sem var á sviðinu og til að róa mig þá tók hún mig í fangið þannig að ég myndi líka snúa aftur en ekki fram og þá ekki þurfa að hafa þessa skelfilegu galdranorn fyrir augunum.

En það stoðaði lítt. Ég hljóðaði bara enn meira og varð ekki mönnum sinnandi. Ég man nú ekki alveg hvernig þetta endaði en að minnsta kosti þá rak ég upp skelfingaröskur í hvert skipti sem mér var snúið undan hinni hroðalegu galdranorn á sviðinu.

Það fyndna er síðan það finnst mér að ég tók líklega aldrei neitt sérstaklega mikið eftir þessari galdranorn á sviðinu en tók þeim mun meira eftir kerlingunni á bekknum fyrir aftan okkur sem starði á mig með þvílíkum reiðisvip að ég held að ég muni það ennþá.


Annar þá bar það til tíðinda að það var hinn árlegi fjölskyldu dagur Skýrr í dag þar sem ég lét mig að sjálfsögðu ekki vanta. Enda var bæði ókeypis hamborgarar og pulsur og meira að segja líka gos. Verst að það var einhver asnaleg regla sem varð til þess að ég fékk ekki neinn nammipoka eins og hinir krakkarnir. Tómt svindl!

Ég er síðan að sjá fyrir endann á húsgagnaeyðileggingunni minni sem hefur átt sér stað undanfarna daga. Pússaði frá mér bæði vit og rænu í gær og hélt að ég væri að missa heilsuna út af þessu. A.m.k. geðheilsuna. Sýndist síðan á tímabili að ég væri algjörlega búinn að klúðra þessu og myndi þurfa að bregða mér í einhverjar mublubúðir til að gera kotið íbúðarhæft aftur. Mér sýnist samt að þetta sé bara allt að koma og verði í þokkalegasta lagi. A.m.k. mun betra en það var og þar með er árangrinum náð.

No comments: