Kann ekki lengur á strætó og þarfnast endurhæfingara
Fór með ventilinn minn á verkstæði í dag til að láta endurnýja innbrotarúðuna. Keyrði eftir saddur og sæll eftir hádegissteikina hans Tobba upp á Höfða. Var óratíma að finna þetta í Vagnhöfðanum aðallega af því að þetta var í Viðarhöfða. Fékk síðan þá undarlegu flugu í höfuðið að þetta væri nákvæmlega dagurinn til að endurnýja kynnin við strætókerfi borgarinnar.
Dagurinn náttúrlega mjög vel valinn Þar sem veðrið var með eindæmum gott. Þurfti sem betur fer ekki að fara nema svona 30 metra til að komast í strætóskýlið en tókst samt að verða hálfblautur. Sem betur fer þurfti ég ekki að bíða nema í svona 15 mínútur eftir næsta vagni. Enda eins gott því rokið var þvílíkt að ég sver það að strætóskýlið það var farið að lyftast með steypuklumpinuim sem það stóð á þarna á Stórhöfðanum.
Nú. Þessi strætólufsa keyrði mig á einhverja aðalstöð þarna í Höfðanum. Svakasnjallt að hafa svona Hlemm þarna somewhere-in-themidde-of-nowhere. Var reyndar búinn að finna það út að líklega myndi ég þurfa að ganga styst með að taka vagn númer 10 eða 11 en var eiginlega ekki klár á í hvora áttina hann væri að fara. Myndi líklega byrja á að fara út í Mjódd eða einhverja aðra sveit. Ákvað svo bara þegar ég sá vagn númer hundrað og eitthvað að taka hann og fara úr honum við Kringluna. Þyrfti bara að ganga svona nokkur hundruð metra í góðaveðrinu.
Lufsaðist sem sagt upp í vagninn en fattaði um leið og hann var farinn af stað að þetta var náttúrlega kolrögn stefna sem hann tók. Rétt tókst að komast út úr honum áður en hann bókstaflega hvarf inn í hinar strjálu byggðir í Grafarvoginum.´
En nú voru góð ráð dýr. Raggurinn stóð þarna í roki og rignignu á Höfðabakkanum, ætti með öllu réttu að vera að gera eitthvað skemmtilegt í vinnunni sinni en var algjör strandaglópur. Þá sannaðist það að þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og hvar sú hjálp fólgin í GSM síma, 5885522 og leigubíl sem kom innan nokkurra mínútna og bjargaði mér gegn hóflegu gjaldi í vinnuna.
Það sem eftir stendur er að ég er greinilega orðinn að strætólegum aumingja og þarf á endurhæfingu að halda. Veit einhver um námskeið fyrir svona aula eins og mig???
PS.
Er að hugsa um að fara hjólandi í kvöld og sækja drússluna á verkstæðið!
No comments:
Post a Comment