Tuesday, August 31, 2004

rop!


Mikill óskapnaður er Kentökkí kjúklingur. Olía útum allt. Innan í mér og utan á. Svo mikið að músin á fartölvunni hætti að ná sambandi. Oj bara, namm... óhollt. Maður má nú stundum er það ekki? Enda verður ávaxtafélagið sem á stofna í vinnunni minni ágætt mótvægi við það.

Sunday, August 29, 2004

Svona af því ég ætlaði að blogga um það


Ætlaði á Stuðmannaball á Nesinu í gærkvöldi. Var svaka stuð örglega. Eftir að hafa torgað mexíkóskum pönnukökukjúklingi sem var skolað niður með áströlsku rauðvínssulli var arkað af stað. Við vorum svo endemis óforsjál að vera ekki búin að fá okkur miða fyrirfram og komumst því ekkert inn. Við gátum valið á milli þess að bíða í hálftíma og farið bara eitthvað annað. Ég var reyndar kominn langleiðina með að beita samböndum mínum innan bæjarstjórnar Seltjarnarnarness og hringja í BT en sá að mér á síðustu stundu því það væri ekkert sérstaklega sniðugt ef hann væri bara heima hjá sér að horfa á sjónvarpið eða jafnvel farinn að sofa.

Þess vegna var bara farið á Íslenska fánann á Nasa og þar var þokkalegasta stuð eftir að það fjölgaði aðeins á staðnum. Og nei það gerðist að sjálfsögðu ekkert merkilegt og ég vaknaði eitthvað hálf slappur um hádegisbil.

Í dag síðan gluggasmíði fyrir litla græna húsið. Gekk bara vel en er enn dálítið í land með þetta. Klárast vonandi í vikunni þannig að það verði hægt að fara smíðaferð austur í sveitina um næstu helgi.

Já annars, ég ætti kannski að fara að kíkja á þetta sem ég er alltaf að fá í tölvupóstinum:


I have a special_offer for you...
WANT TO MEET SOMEONE? INSTANT DOWNLOAD!
The first and only pickup, dating and seduction
guide. Written for men ... by women!
- Increase your sexual attraction.
- Give yourself that extra edge!
- Improve your sex appeal 1000%
- Gain more self confidence.
- Command respect at work!
- Get more dates!
- If not satisfied, you get your money back!
This is the only e-book of its kind available.
You get 2 FREE DVD's and a FREE one year subscription to MAXIM with every order!
Check out this great guide here


Það er annars dálítið undarlegt hvers konar spam maður fær. Ég fæ núna aðallega póst um þennan "dating guide" og síðan að háskólagráðan mín bíði eftir mér, sé tilbúin og loks fæ ég reglulega póst um að ég eigi að fá mér eitthvað Adipren megrunarduft til að skafa af mér aukakílóin. Sumir sem ég þekki fá ekki þetta spam heldur aðallega Viagra sendingar. Ég fæ þær aldrei. Fékk fyrr á árinu stöðugan póst um tippalengingar sem ég fæ ekki lengur mér til mikillar undrunar þar sem ég hef ekki tekið eftir að ég hafi náð neinum sérstökum árangri á því lengingarsviði.

Friday, August 27, 2004

Hjúskaparmiðlun afþökkuð


Skil aldrei hvað er með sumt fólk sem ætlar alltaf að fara að koma manni hnapphelduna. Það virðast alltaf vera til einhverjar konur sem hafa það helst á sinni stefnuskrá að koma mér út eða öllu heldur að ég verði ektamaðu einhverra vinkvenna þeirra sjálfra. Dálítið undarlegt að það eru alltaf konur sem vilja að ég gerist ektamaður einhverra annarra kvenna. Þær sjálfar geta þá yfirleitt alls ekki fórnað sér fyrir mig. Annað hvort harðgiftar eða svona frekar meira fyrir aðrar konur - ja reyndar nema einu sinni ein held ég.

Núna síðast (og reyndar bara í dag) var ein konan var að útlista ágæt vinkonu sinnar fyrir mér. Jájá er örugglega ágæt. Kannski ekkert verri en ég sjálfur. Treysti annars þeim hjúskaparmiðlara ekki baun í bala eftir tilraunir síðasta vetrar. Virkuðu ekki mikið og eiginlega bara mjög ílla.

En annars. Internetið er farið að virka heima hjá mér sem aldrei fyrr. ADSL módemið farið að virka sem þessi svakafíni ráter sem er bara alltaf í sambandi. Það bólar hins vegar ekkert á því að vefsörverinn minn komist í gagnið. Það kemur samt vonandi áður en Internetið verður orðið úrelt.

En núna. Elduð skal hæna í gulri karrísósu. Nei, þetta er ekki eins og þú heldur. Hænan er flottur kjúklingur og karrýið er blandað á staðnum.

Síðan svo er ég að fara á Stuðmannaball á Nesinu á morgun. Það var megastuð þar fyrir tveimur árum og ekki slappt með Röggu í Köben fyrir einu ári.

Thursday, August 26, 2004

Ég er pirraður


Tölvan mín vill ekki hlýða. Hún er óratíma að gera eitthvað sem á ekki að taka neinn tíma að gera. Ég er margbúinn að spyrja hana hvurn andsk. hún sé að gera en hún svarar ekki. Ég er búinn að hóta henni barsmíðum og hef jafnvel staðið við það. Hún lætur sér samt ekki segjast.

Það er einhver hálfviti í sjónvarpinu að lýsa sundbolta af Ólundarleikunum. Eins og það sé hægt að ímynda sér að það geti verið áhugavert. Maður verður að hafa greind á við sundbolta til þess. Ég næ því að minnsta kosti ekki. Það er samt örugglega voðalega gaman í sundbolta ef maður er góður sundboltamaður. En mér finnst líka voðalega gaman að lesa góða bók og stundum bara slappa af eða fara í bíó og fara á kaffihús. Það dettur samt sem betur fer engum í hug að það geti verið gaman að horfa á það í sjónvarpinu.

Ég er búinn að tapa internettengingunni minni. Ætlaði að breyta heimatölvunni minni í vefsörver. Það gekk ágætlega. Fékk fyrst fasta IP tölu og síðan leiðbeiningar um hvernig ég ætti að breyta ADSL móeminu í ADSL ráter. Það gekk fínt alveg þangað til það hætti að virka. Stóð feitletrað með rauðu að þeir sem færu eftir leiðbeiningunum gerðu það á eigin ábyrgð og enga hjálp væri að fá frá höfundinum. Það gæti samt bjargað þessu að ég vinn með honum og hann mun örugglega hafa lúmst gaman af því að hjálpa mér. Ef ekki þá er ég í vondum málum. Þessi bloggfærsla er annars skrifuð heima hjá mér í Word og síðan flutt á netið einhvern tíman löngu seinna. Samt eitthvað áður en þú ert að lesa þetta. Nema þú hafir kannski brotist inn í tölvuna mína í gengum þetta ónýta módem mitt og sért að lesa þetta á Word formatinu. Nei varla þar sem ég slökkti á draslinu m.a. til að koma í veg fyrir að einhver flinkari en ég gæti brotist inn á mig. Yrði frekar slæmt afspurnar ef einhver kæmist inn í tölvuna mína. Kannski er vandamálið að ég skuldaði einhverja símareikninga. Það er e.t.v. ekki tilhlýðilegt að þeir sem borga ekki símann sinn geti verið með vefþjónustu heima hjá sér. Hvað veit ég.

Jæja, pirringurinn er eitthvað á undanhaldi.

Og ef eirasi.heima.is er farið að virka þá er heimatölvan mín orðin vefsörver.

Monday, August 23, 2004

Ætli það sé að koma haust?


Þó það sé ennþá frábært veður þá er ekki lengur alveg eins heitt og var í síðustu viku eða vikunni þaráður. Það er jafnvel svona þægilega svalt úti.

Síðan þegar maður kemur í vinnuna þá er getur verið erfitt að finna bílastæði ef maður mætir ekki nógu snemma. Þeta er greinilega allt að gerast. Og svo eru víst skólarnir líka að byrja!

Sunday, August 22, 2004

Those were the days


Ekki náðust nú öll þessi markmið maraþondagsins eins og til stóð. Vantaði fjórar sekúndur til að ná sama tíma og fyrir þremur árum en var reyndar mikið betri en fyrir tveimur árum. Og eitthvað klikkaði í skráningunni á klukkutímaklaufunum þannig að þar skráðist ekki neitt. Síðan er skráningin á mínum (eða minni ætti ég að segja) eitthvað vitlaus ennþá en er búinn að senda póst til að reyna að fá það lagfært.

En þessi menningardagur. Þetta er alltaf jafn gaman. Vafra um bæinn, hitta fólk og komast þá að því að maður hafi misst af helmingnum af því sem maður hefði viljað sjá. Og auðvitað með myndavélina stóru um öxl þar sem afraksturinn kemur fram hér.

Og ekki var verrara að notfæra sér það að búa miðsvæðis og rölta heim á matartíma og bjóða uppá grillað hreindýr. Ekki sérlega slæmt nei.

Og arka svo bara aftur af stað. Og Egóið maður. Hvar hafa þessir menn eiginlega falið sig. Þetta var bara flashback um svona 20 ár eða rúmlega það þegar það var búið að spila góðan part af geislavirkuplötunni.

Og flugeldasýningin. Það er annars dálítið fyndið að flugeldasýningin var hér áður fyrr aðal númerið á menningarnóttinni. Jú hún var ágæt en ekki það sem skipti mestu máli. Jú ágætis endir á ágætum degi.

Og síðan frábær tilviljun. Þegar við og bróðirinn vorum að fara af stað frá Miðbakkanum þá fórum við að tala um að það vantaði bara Palla og Rósu til að fara á pöbb eins og árið áður. Já, það væri náttúrlega óhugsandi tilviljun að hitta aftur á þau á sama stað og ári áður. En hvað. Leið ekki nema svona hálf mínúta þangað til einhver sagði "Sælir bræður" eða eitthvað álíka. Fórum aftur á sama subbulega billjardbarinn og í fyrra. Barinn var alveg eins, fyrir utan að vera einu ári subbulegri.

En þetta var allt frábært.

Er að reyna að lesa ...

Gerpla eftir Laxnesið (sumar, haust og vetur 2004)

Áttaði mig á að ég hef aldrei lesið þetta meginverk Laxness. Verð að bæta úr því en það tekur væntanlegra tímann sinn, sérstaklega ef ér held þeirri stefnu að opna bókina ekki nema í græna kofanum fyrir austan.

Ég er sem sagt sko ekkert búinn að lesa hana ennþá. Byrjaði bara aðeins.

Saturday, August 21, 2004

Hlaupari númer 2292 hefur lokið keppni


Segist nú ekki margt af hans afreki en ýmislegt þó. Markmiðin voru þrjú eða fjögur eða kannski fimm. Þau náðust flest ef ekki öll.


Fyrsta markmiðið var að klára
Og það náðist með glæsibrag. Það var klárað!

Næsta markmið var að klára á innan við klukkutíma
Og það náðist mjög örugglega

Þriðja markmiðið var að klukkutíma klaufar myndu ná að klára á innan við þremur tímum alls.
Og það náðist og líklega nær 10 mínútum betur

Fjórða markmiðið var mitt persónulega markmið að hlaupa á 56 mín sem er betri tími en síðast.
Og ég held að það hafi náðst

Og loks þá gæti hugsast að þetta hafi bara verið minn skársti tími í 10 km hlaupi. En það á eftir að koma í ljós.


Núna er síðan verið að belgja sig út af brauði og ætli það verði svo ekki að fara að skoða menninguna. Er að hugsa um að byrja á klink og bank eða kannski bara Hlemmi.

Hlaupari númer 2292 tilkynnir komu sína


Fannst pasataveisla maraþonsins í gærkvöldi vera eitthvað skorin við nögl og fékk mér þess vegna risastóra samloku á Aktu Taktu í gærkvöldi. Ætlaði annars bara að rölta yfir á Devitos og fá mér tvær sneiðar en það var einhver múgur og margmenni þar inni þannig að ég fór akandi niður á Skúlagötu. Nei, hlauparinn nennti ekki að labba, hvaðþá skokka!

Skrániningin mín í þetta hlaup vekur annars dálitlar áhyggjur hjá mínum. Það stendur nefnilega 10_km female_18-39. Mér sýnist sem sagt af öllu að ég keppi sem 18-39 ára gömul kona sem heitir Einar Ragnar. Vona að ég verði ekki dæmdur úr keppni fyrir rangt kynferði en þetta er kannski eina leiðin fyrir mig til að komast hærra í þeim flokki sem ég er skráður í. Þ.e. að skipta um flokk! Síðan er númerið mitt undarlega hátt og það er enginn afrifrildismiði á því eins og hefur alltaf verið. Ætli ég sé síðan með númer fyrir 3km skemmtiskokkara og fái engan tíma skráðan á mig. Ó mig aumann. Ég brjálast ef það gerist.

Þetta leggst annars bara vel í mann allt saman. Númerið sem sagt komið á mig. Linsur komnar í bæði augu og sit í makindum við borðstofuborðið að blogga í stuttbuxunum. Er reyndar ekki kominn í skóna en flaga númer CF47413 hangir á reiminni á vinstri skónum!

Er síðan búinn að borða mína múslísúrmjólk til að hafa orku í þetta. Var meira að segja bragðbætt með ferskum bláberjum svona til hátíðabrigða. Er samt hálf svangur ennþá en þori ekki að borða mikið meira þar sem þá yrði ég bara uppbelgdur.

Jæja en núna þarf ég hvað úr hverju að fara að koma mér út á hjólið og láta mig renna í rólegheitunum niður Laugaveginn.

Thursday, August 19, 2004

Tónlistarmaðurinn, ferðagarpurinn og þreyti maðurinn Raggi


Skil alls ekki af hverju en ég var alveg við það að missa meðvitund í vinnunni í dag. Gerðist það þrátt fyrir að koffínmagnið í mér ætti að geta haldið heilum fíl vakandi í hálfa öld. Þreytan stafar kannski af því að verkefnið sem ég er að vinna að er þungt strembið, tekur afskaplega langan tíma og kallar á mikil heilabrot. En stafar kannski af því að ég fór bara of seint að sofa í gærkvöldi en held samt ekki þar sem ég man ekki eftir neinu sérstökum vökum undanfarið. Jæja en það stafar að minnsta kosti varla af kaffiskorti.

Kannksi langaði mig bara til að vera að gera eitthvað allt annað. Fór að skoða ferðamöguleikana til Afríku og erum við Helgi meðskipuleggjandi eignlega komnir með drög að plani. Er því´lýst hérna: http://www.topas.dk/turbeskrivelser/tbkix.htm. Og ef þetta verður raunin þá er mæting æa Kaastrup flugvöll þann 19. mars og komið til baka þann 2. apríl. Kostar reyndar eitthvað rétt um 300 þús kaddl en það er nú eiginlega það sem var gert ráð fyrir. Þetta verður megafínt!!!

En annars þá er ég þessa dagana með tónlistarduld í maganum. Geng með þann undarlega draum í maganum að geta spilað á munnhörpu að minnsta kosti eins og Gunnsi eða Vigdís. Varð algjörlega húkkt á þessu á jólagleðinni í vinnunni minni í fyrra þegar Vigdís spilaði Icelancic cowboy á munnhrpuna sem Heiða fékk í jólagjöf. Gunnsi er ekki síðri heldur þegar útilegustemningin nær tökum á honum. Ég þjáist hins vegar af krónískri minnimáttarkennd þegar það kemur að þessari spilamennsku. Loka öllum gluggum og hurðum og fer jafnvel upp á háaloft. Vona að það sé enginn heima í nærliggjand íbúðum nema þá viðkomandi sé sofandi eða heyrnalaus. Helst hvort tveggja. Spila síðan af miklum móð yfirleitt í besta falli rammfalskt en annars þannig að engin leið er að heyra hvaða lag ég er að reyna að puðra út úr mér.

En þetta er ljúft. Sit núna sötrandi ofurkaffi, étandi möffinsköku, með lappann í kjöltunni úti á svölum í sólinni og hlusta bara á snilling. Hvurnin fara amrískir svertingjar að þessu að blása svona í sínar munnhörpur. Ekki get ég látið mig dreyma um þetta. Sonny Terry sem núna hringsnýst í geislaspilaranum er t.d. einn af þessum snillingum.

Annars er nú aðal vandamálið mitt núna að ákveða hvort ég eigi að flytja nær miðju Reykjavíkur eða fjær. Fá bílskúr eða verða endanlega algjör miðbæjarrotta. Mig langar hvort tveggja!

Tuesday, August 17, 2004

Lokaæfing maraþonhlaupara


Ég skakklappaðist mína tíu kílómetra núna fyrr í kvöld til að athuga hvort garpurinn kæmist ekki örugglega á innan við klukkutíma. Jú skemmst er að segja frá því að það tókst hjá hetjunni með miklum ágætum en hún hefur dáltlar áhyggjur af því að harðsperrurnar verði ekki enn farnar á laugardaginn. En þær skulu víkja.

Hlaupatúrinn gekk annars bara vel. Þegar ég var að leggja við Iðnó þá sá ég að það var þarna hópur af miklum görpum að leggja af stað. Garpar þessir voru sem sagt aðeins á unda Ragganum sem gaf samt ekkert eftir. Komst fyrst fram úr einum einhvers staðar úti á Nesvegi og síðan öðrum skömmu seinna, meira að segja líka á Nesvegi. Sá eða öllu heldur sú náði mér reyndar aftur einhvers staðar þegar komið var út á Eiðistorg á bakaleiðinni. Greip ég þá til þess eitursnjalla leynivopns að halda henni á snakki alla leið í mark og komst hún þess vegna ekkert á undan Ragganum. Í mark komumst við á eitthvað svona 56-57 mínútum sem er bara ágætt held ég miðað við aldur og fyrri störf. Eða starfaleysi á hlaupasviðinu að undanförnu held ég frekar.

Var þetta reyndar eldhress hlaupahópur úr Víkingi eða frekar foreldrafélagi Víkins. Var ég næstum skráður í hlaupahópinn á staðnum eða að minnsta kosti í hlaupasveit. En ég var víst fyrr um daginn búinn að stofna hlaupasveit með Gunnsa Skýrrara og henni Októvíu hans.

Nú þegar hlaupaafrekinu var lokið lagðist ég í bleyti í Laugardalslauginni. Svamlaði þar um allt og fékk svo mikið vatn inn í annað eyrað að ég er varla með sjálfum mér, hvað þá með öðrum. Spurning hvar maður er þá.

En þetta leggst allt saman vel í mig og ég er farinn að hlakka verulega til laugardagsins. Því þó þeir sem aldrei hafa reynt skilji það alls ekki þá er alveg ofboðslega gaman að hlaupa í þúsundmanna hópi um borg og bý í upphafi menningarnætur. Vona bara að veðrið verði skaplegt.

En núna verður ekki meira hlaupt fyrr en á laugardaginn. Nema þá í algjörri mýflugumynd.

Hlauparavandamálið mitt

Ég sem var búinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti að hlaupa 10 km á laugardaginn eða láta mig bara renna sömu vegalengd á línuskautunum er lentur í þeim voðalegu vandræðum að það verður ekkert línuskautahlaup. Ó mig aumann. Ég verð sem sagt að hlaupa eitthvað til að það verði eitthvert vit í menningarnóttinni.

Fór annars einhverja vesæla 5km í hádeginu í dag [eða í gær miðað við að það er komið miðnætti]. Var ekki með neina klukku á mér þannig að ég stóð mig mjög vel. Á morgun [eða í dag miðað við að það er komið miðnætti] stendur til að gera 10km tilraun og vita hvort maður skakklappist þetta á innan við klukkutíma án þess að bera alvarlegan skaða af. Er annars alls ekki viss um að það takist og sýnir það líklega hlaupaformið sem minn er í þessa dagana. Ég skal samt hlaupa eitthvað. Datt reyndar í hug að við Gunnsi Skýrrari myndum fá einhvern einn álæika slapan til viðbótar og stofna sveit sem gæti heitið "Klukkutímaklaufarnir" eða "kemst á klukkutíma".

Ég sá annars líka að það verður tímataka í 7km og kannski dæmist það á mig að fara bara í þannig aumingjahlaup. Mig minnir annars að ég sé búinn að vera með hálft maraþon sem áramótaheit fyrir hvert einasta ár síðan ég man eftir mér [sem reyndar eru ekki nema svona 2-3 ár].

Jæja en kannski verður blokkað eitthvað um það á morgun ef guð lofar. En ef það á að hlaupa eitthvað er líklega best að sofa eitthvað fyrst..... þannig að .... góða nótt !

Sunday, August 15, 2004

Í dag gerðist ég ættfræðinörd


Ég held að ég hafi nördast alveg óstjórnlega í dag.

Fattaði í morgun þegar ég hitti fólk frá Suðurlandi á skógræktarfundinum að það hallar dálítið á sunnlenska ættfræðikunnáttu mína. Þegar ég var á sphjalli við fólk að norðan gat ég slegið um mig með alls kyns bæjarnöfnum sem ég þykist vera ættaður frá en varð eitthvað hálf svarafátt þegar kom að sunnlenskum uppruna.

Er því búinn að liggja í Íslendingabókinni á vefnum í dag og búinn að gera heilt ættartré held ég ef ekki bara ættarskógrækt. Fann meira að segja alls konar ættingja sem ég vissi ekkert um. Fólk sem hefur verið að vinna með mér og verið í skóla með mér.

T.d. komst ég að því að afi Jenna sem vann einu sinni í Skýrr var langafi minn og þar með er langafi minn langalangafi skráksins hennar Sibbu sem með mér fyrir enn lengri tíma. Sami langafi er síðan líka ái fólks sem var með mér í skóla fyrir rosalega löngum tíma síðan. Jamm mér fannst þetta skrýtið en það er greinilegt að heimurinn er ekki alltaf svo stór!

Og þessi stórmerki langafi minn átti náttúrlega konu sem var þá langamma mín. Og það er til svo óstjórnlega falleg saga um það að hann hafi verið svo yfir sig ástfanginn af henni að hann hafi vaðið Hvítá til að ná fundum hennar. Einhvern veginn finnst mér að eitthvert skáldið hafi skrifað þetta í skáldsögu en þótt frekar ótrúverðugt. En þetta er víst dagsatt. Eyjólfur Sveinsson langalangafi minn óð Hvítá til að ná fundum Sigríðar Helgadóttur langömmu minnar fyrir líklega svona 120 árum síðan.

Hvurslags íkroni er maður?


Undarlegt!

einar ragnar from this day forward you will also be known as:
Professor Dances with Chipmunks.

Um það hef ég helst að segja að Prófessorinn nennir ekki á skógræktarmanna fund. Skil ekki hvernig ég lét plata mig í þetta!
En ég verð líklega að fara að drulla mér af stað.

Til að prófessorinn lifi þetta af held ég að best sé að hann fari í Ferdmúlasokkunum sínum [mínum].

En svo:

Þetta slapp síðan reyndar allt fyrir horn þar sem skógræktarfólkið er að mestu leyti með afbrigðum skemmtilegt fólk þegar maður fer að tala við það. Og svo tók þetta líka dálítið fljótt af.


Saturday, August 14, 2004

Stakk af úr vinnunni og fór austur í sveitina mína


Eyddi seinni hluta vikunnar við rifrildi og ullargauf austur við Pétursey. Var bara gaman.

Annars þannig að einhver sem ekki alt veit skilji eitthvað þá er ég og fjölskyldan með skógræktarreit rétt fyrir norðan Pétursey þar sem heitir Fellsmörk. Erum þar með agnarlítíð hús (svona pinkupinkulítið) og vorum við bræður ég og Gúnninn þar austur frá á fimmtudag og föstudag að rífa eldri einangrunarmistök fyrri eiganda innan úr húsinu (sem voru úr einangrunarplasti ) og setja upp miklu vandaðri og betri einangrunarmistök (sem eru úr einkar vandaðri steinull sem við keyptum á Vík fyrir morðfjár eða svona helminginn af því). Og náttúrlega var ég með myndavéladrussluna mína meðferðis.

Síðan núna um helgina lenti ég inn á mjög svo merkilegri samkundu sem tengist þessu skógræktarbrölti mjög en það er aðalfundur Skógræktarfélags Íslands. Skrópaði reyndar á einhverjum hátíðarkvöldverði áðan. Það var bara of gott veður til að vera lokaður inni í einhverjum Ljónasal í Kópavogi heilt kvöld með fólki sem ég þekki eiginlega hvorki haus né sporð á, þó þetta hafi virst vera hið allra skemmtilegasta fólk. Í dag var nefnilega fyrri hluti þessa aðalfundar með sætsing túr upp í Hvalfjörð og til Þingvalla til að láta núverandi og fyrrverandi forseta planta trjám. Alltaf gaman að vera í föryneyti forseta. Annars verð ég að játa það að mér finnst Vigdís alltaf vera jafn rosalega merkileg persóna.

Wednesday, August 11, 2004

Ofurkaffi: Get ekki beðið!



Brasilíumenn segjast ætla að framleiða ofurkaffi
Ætli Kaffitár verði með það?

Er annars ekki viss um að gott geti bestnað endalaust!

Tuesday, August 10, 2004

Akkru?


Akkru getur ekki alltaf verið svona veður eins og núna í dag. Hægt að vera úti á stuttermabol og hnébrók fram undir miðnætti. Fór þannig búinn á línuskauta og æddi þvílíkt áfram að ég varð eiginlega hræddur við mig sjálfur. Held að allir aðrir hafi verið skelfingu lostnir. Mesta guðs mildi að ekki hlaust af stórslys!

Það er eitthvað undarlegt með þetta veður


Minnir mig mest á hitabylgjuna í Tinnabókinni "Tinni og dularfulla stjarnan" en þá var halastjarna á leið til jarðar og olli ægilegri hitabylgju þannig að malbikið bráðnaði um miðja nótt. Það er reyndar ekki alveg svo heitt en svona næstum því.

Það var að minnsta kosti svo heitt síðustu nótt að það sást til huldukonu taka sundsprett í tjörninni sem nágrannakonan í næsta húsi var að búa til. Nei nei þetta var allt innan siðsemis marka þar sem mér skilst að hún hafi ekkert verið nakin. En hvað veit ég, ekki sá ég hana enda sofandi á mitt græna allar nætur eins og önnur ungabörn. Það fer annars tvennum sögum af því hvort þetta hafi verið raunveruleg huldukona eða bara einhver raunkona. Reyndar þar sem það sást til hennar reykjandi við tjörnina þá er frekar hallast að því að þetta hafi verið raunkona. Eða hver hefur séð huldukonu reykja. Að minnsta kosti ekki ég.

Fór annars í kvöld niður á tjörn þar sem kertafleyting var í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Japan í seinni heimstyrjöldinni. Og var með myndavélina mína eins og sjá má á fótóloggnum mínum.

Ég er annars í dáltlum vandræðum þessa dagana. Það er ýmislegt sem fólk yfirleitt alls ekki skilur við mig. Reyndar helst það að ég eigi ekki maka og að ég skuli ekki drusslast til að kaupa mér íbúð. Er svona á leiðinni að gera þetta síðara. Og vandræðin eru hvort ég tími að fjarlægjast miðbæinn. Ég fer svo sem skammarlega sjaldan á djammið í bænum en það er ákaflega þægilegt og gaman að geta fengið sér göngutúr niður í bæ. Miðbærinn er eini staðurinn á öllu landinu finnst mér þar sem eitthvað fólk er yfirleitt alltaf á ferli. En það hafa bara ekki verið neinar ammilegar íbúðir verið þarna til sölu í háa herrans tíða (les nokkra mánuði) á því verði sem mig langar til að borga. Er þess vegna farinn að hugsa alvarlega um að flytja eitthvað upp í Sund eða Voga þar sem hægt er að finna ágætar íbúðir með bílskúr jafnvel og alles.

Ef einhver á svona 100 fm í búð í Norðurmýrinni sem er á lausu, helst með svölum og gengið út í garð þá vinsamlegast látið mig vita.


Monday, August 09, 2004

Bara svona mynd


Ég er bara nokkuð sáttur þannig séð. Þetta var bara svona mynd og ég fékk eitthvað um 5,5 fyrir hana!

Sunday, August 08, 2004

Ég veit ekki hvað er verst


Að fara út að skokka eftir að hafa drukkið kaffi, borðað köku eða sturtað í sig konjaki. En mér er núna fullljóst að það er afleitt að skokka eftir að hafa gert þetta allt saman. Reyndar var konjaksdrykkjan mjög takmörkuð en varð bumbult samt og varð að labba hálf sneiptur restina af hringnum mínum sem var samt búið að stytta sakir getuleysis einu sinni ef ekki tvisvar.

Annars kemur þetta ekki til af góðu að ég sé skokkandu um borg og bý. Það eru nefnilega ekki nema tvær vikur í menningardag og Reykjavíkurmaraþon og ég get ekki lengur ímyndað mér að það sé mikið bragð af Menningarnóttu Rykjavíkur ef mar er ekki búinn að skokka eitthvað í upphafi dagsins. Ef ég sé fram á að ná 10 km hlaupandi sæmilega undir klukkutímanum þá ætla ég að láta slag standa. Annars fer ég líklegast á skautunum en mér hrís hugur við því eða kannski sérstaklegra líst hægri olnboganum á mér frekar illa á það eftir æfintýri Sæbrautarinnar í fyrra.

Bíó og leikhúsferðir


Af því að Stína var að blogga um bíóferð strákanna sinna þá ætlað ég að blogga um það þegar ég fór í leikhús fyrir rosalega martlöngu og sá Dimmalimm eða eitthvað álíka.


Ég var svona þriggja ára eða kannski nýorðinn fjögurra. Það var hroðalegt myrkur í salnum og skyndlega varð ég rosalega hræddur. Mamma mín (sem man þetta líka) stóð í þeirri meiningu að ég hefði orðið svona hræddur við einhverja galdranorn sem var á sviðinu og til að róa mig þá tók hún mig í fangið þannig að ég myndi líka snúa aftur en ekki fram og þá ekki þurfa að hafa þessa skelfilegu galdranorn fyrir augunum.

En það stoðaði lítt. Ég hljóðaði bara enn meira og varð ekki mönnum sinnandi. Ég man nú ekki alveg hvernig þetta endaði en að minnsta kosti þá rak ég upp skelfingaröskur í hvert skipti sem mér var snúið undan hinni hroðalegu galdranorn á sviðinu.

Það fyndna er síðan það finnst mér að ég tók líklega aldrei neitt sérstaklega mikið eftir þessari galdranorn á sviðinu en tók þeim mun meira eftir kerlingunni á bekknum fyrir aftan okkur sem starði á mig með þvílíkum reiðisvip að ég held að ég muni það ennþá.


Annar þá bar það til tíðinda að það var hinn árlegi fjölskyldu dagur Skýrr í dag þar sem ég lét mig að sjálfsögðu ekki vanta. Enda var bæði ókeypis hamborgarar og pulsur og meira að segja líka gos. Verst að það var einhver asnaleg regla sem varð til þess að ég fékk ekki neinn nammipoka eins og hinir krakkarnir. Tómt svindl!

Ég er síðan að sjá fyrir endann á húsgagnaeyðileggingunni minni sem hefur átt sér stað undanfarna daga. Pússaði frá mér bæði vit og rænu í gær og hélt að ég væri að missa heilsuna út af þessu. A.m.k. geðheilsuna. Sýndist síðan á tímabili að ég væri algjörlega búinn að klúðra þessu og myndi þurfa að bregða mér í einhverjar mublubúðir til að gera kotið íbúðarhæft aftur. Mér sýnist samt að þetta sé bara allt að koma og verði í þokkalegasta lagi. A.m.k. mun betra en það var og þar með er árangrinum náð.

Saturday, August 07, 2004

Fáránlegasta hugmynd sem ég hef heyrt lengi!


Skíðahöll í Úlfarsfelli?
Hugmyndir hafa verið kynntar að byggingu skíðahallar í Úlfarsfelli eða nágrenni þess. Helgi Geirharðs son, formaður mannvirkjanefndar Skíðasambands Íslands, setti fram þessar hugmyndir á Skíðaþingi Íslands, sem hann segir að myndu leiða af sér gerbreyttar aðstæður til skíðaiðkunar á höfuðborgarsvæðinu.

Af hverju ekki bara frekar kaupa eitthvað ónotað húsnæði við Ármúlann fyrir "skíðahöll"

É sé alls ekki hvernig eitthvað hús uppi í Úlfarsfelli getur tengst skðiðasvæðum á einhvern hátt. Það er álíka snjólaust þar allan veturinn og í Reykjavík. Snjór svona tvo daga á ári. Og kannski frost svona í viku til að búa til snjó. Það á kannski að fara á skíði innandyra í kæliklefa? - FÁRÁNLEGT!

Ég fór síðan í bæinn


Og mikil óskapar reiðinnar býsn sá ég af hávöxnu kvenfólki í skærlitum kjólum! Hef bara aldrei séð annað eins á allri minni æfi.

Þó ég sé annars ekkert rosalega samkynhneigður (sumir hafa reyndar samt haldið það en halló er það ekki neitt) þá held ég að ég skilji ágætlega að sumar konur verða bara miklu frekar hrifnar af öðrum konum og sumir kaddlar verða hrifnir af öðrum köddlum og vilja þá auðvitað eyða æfinni með þeim sem þeim líkar mest við. Ég á hins vegar alltaf erfiðara með að skilja allt þetta drag og aðra skrýtnari hluti eins og sadó masó sem ég sá þarna líka í göngunni. Þekki reyndar einn af þeim sem gerir mér enn erfiðara með að skilja það en það er allt í lagi. Ég er bara öðruvísi. Gott með það og hvað með það. Hins vegar skal ég játa að dragdrottningar geta verið megaflottar og það er gaman að þessu öllu en kynferðislega get ég engan veginn skilið það.

Var síðan með myndavélina á lofti og sjá má herlegheitin á fótólogginum mínum.

Ég heyrði annars í útvarpinu áðan að það hefðu verið um 40 þúsund manns í bænum. Ég er að hugsa að næstum helmingur þeirra sem ég sá og þekki eru hommar og lesbíur komnar út úr skápnum. Ætli helmingurinn af öllu fólkinu þarna hafi verið hinsegin eða ætli ég bara þekki meira af hommum og lesbíum en aðrir. Held varla. Undarlegt samt eða þannig.

Það er eitthvað roslega skrýtið að gerast


Það er fullt af fólki að safnast saman hérna fyrir utan hjá mér. Spilar háværa tónlist og er í skrýpafötum. Mér finnst þetta sniðugt. Ætli það verði skrúgánga?

Annars man ég eftir sama degi í fyrra. Þá var hroðaleg rigning og ég fór í brúðkaup en enga skrúgöngu. Það var líka ágætt.

Er annars ennþá í því að eyðileggja heimili mitt með að þykjast ætla að gera húsgögnin mín fín. Held að það mistakist að þessu sinni. Er líka að verða vitlaus á þessu að allt sé í drasli, ég skítugur uppfyrir haus og get ekki einu sinni sest neins staðar niður. Þetta lagast samt vonandi núna enda er ég búinn að fá mér kaffi. Var ekki vanþörf á þar sem ég var við það að fara að fá hausverk af koffínskorti. Ég er fíkill!

Hvað er eiginlega að þessu sælgætisfyrirtæki


Getur hugsast að það kaupi einhver Freyju gott eftir þessa hroðalegu auglýsingaherferð sem gengur út á öskrandi og æpandi aulagang í útvarpinu. Það eina sem bjargar þessu er fjarstýringin sem getur lækkað eða stillt á einhverja aðra stöð. Sælgætið þeirra mun ég forðast eins og heitan eldinn. Má ég þá annars frekar biðja um beru konurnar hans Jónsa í eyðimörkinni!

Friday, August 06, 2004

Lítil saga frá New York

Rakst á þetta á ljósmyndavefnum sem ég er alltaf að bölva.

At New York's Kennedy airport today, an individual
later discovered to be a public school teacher was
arrested trying to board a flight while in possession
of a ruler, a protractor, a setsquare, a slide rule,
and a calculator.

At a morning press conference, Attorney general John
Ashcroft said he believes the man is a member of the
notorious al-gebra movement.

He is being charged by the FBI with carrying weapons
of math instruction.

"Al-gebra is a fearsome cult," Ashcroft said. "They
desire average solutions by means and extremes, and
sometimes go off on tangents in a search of absolute
value. They use secret code names like 'x' and 'y'
and refer to themselves as 'unknowns', but we have
determined they belong to a common denominator of the
axis of medieval with coordinates in every country.

As the Greek philanderer Isosceles used to say, 'there
are 3 sides to every triangle'."

When asked to comment on the arrest, President Bush
said, "If God had wanted us to have better weapons of
math instruction, He would have given us more fingers
and toes."


Hér er annars ein sem fór nýlega á þennan myndavef og slefaði rétt yfir 5 í einkunn. Viðfangsefnið var "Freedom"


"Freedom of expression"

Síðan var það þessi mynd hér sem lenti í næsta sæti fyrir ofan mína mynd:

"Vacation"

Og jamm mér finnst mín samt betri.


Letibloggarinn Laggi


Verð að fara að taka mig á annars lendi ég í félagi letibloggara og verð væntanlega fljótlega gerður að formanni þar eins og á flestum öðrum stöðum sem ég hef álplast til að skrá mig sem félaga. Er annars mest hissa á að vera ekki orðinn að formanni í Uglubókaklúbbnum þar sem ég er búinn að vera félagi í einhver ár. FÉ-lagi já það hefur ákveðna merkingu þar.

Annars standa þessi félög mín öll í einhverjum blóma. Það verður fjölskyldudagur í starfsmannafélaginu mínu í vinnunni minni. Sú fjölskylda mín hlýtur að fela þá merku skyldu að mæta. Annars stefnir í svo allt of góða mætingu að það kom upp óvænt péningakrísa. Búið að eyða öllum peningunum sem áttu að fara í þetta. Bjargaðist samt náttúrlega í höfn.

En andsk. Ætlaði að kaupa einhver hlutabréf í Kaupfélagi Borgfirðinga áðan en þessir andsk. aular vildu bara selja mér svoleis til klukkan átta. Ég fór á stúfana að eyða peningum til að græða aðra peninga fimm mínútum of seint. Þar voru víst einhverjir þúsundkaddlar sem fóru forgörðum.

Er annars búinn að setja allt á annan endann heima hjá mér og farinn að pússa upp heilu skápana. Og mínir skápar eru sko eingin smásmíði eins og þeir vita sem séð hafa. Veit ekki hvernig þetta endar. Núna er innvolsið úr skápnum dreift um alla íbúð og hvílíkt drasl. Ætlaði reyndar að henda einhverju af þessu drasli en fékk mig eiginlega ekki til að henda neinu. Óttalegur draslsafnari er maður nú. Ef ég flyt einhvern tíman sem ég ætla mér nú svona frekar þá verður það eitthvert mesta hroðaverkefni sem ég hef nokkurn tíman farið út í. Þarf líklega áfallahjálp strax.

Monday, August 02, 2004

Sýndi af mér óvæntan myndarskap



Tók mig til í gær og olíubar og jafnvel lakkaði meirihlutann af mublunum mínum. Eða svona þrjú borð. Það er að minnsta kosti drjúgur hluti af borðmublunum mínum. Verst að það fylgir þessu einhver undarlegur óþefur sem virðist seint ætla að fljúga út um gluggan eða svalahurð þó hún hafði verið höfð stillt á "opið" megnið af deginum.

Veit síðan ekki hvort það var þessi undarlegi þefur sem hélt fyrir mér vöku seinni hluta nætur en hallast frekar að því að það hafi verið útihátíðin sem fór fram á leiðinni heim af djamminu hjá einhverjum hópum fólks. Stóð gleðin með hléum til klukkan 7 í morgun þegar götusóparinn vinur minn kom sinn hefðbundna rúnt og sópaði líklega öllum upp í belginn sinn. Ef einhvers er saknað eftir nóttina er kannski ráð að tala við götusóparadeild hreinsunardeildarinnar. Ætli það sé annars hægt að vera deild í deild. Veit ekki hvort það geti talist nein ráðdeild.

En...
Ég er hins vegar svo yfir mig ánægður með útlitið á mublunum að ég hef lítið gert í dag annað en dást að herlegheitunum. Er að hugsa um að panta Hús og híbýli á staðinn... hmmmm nei annars, það er allt of plebbalegt.

Síðan...
Þar sem ég er endanlega hættur við alvöru fjallaferð um næstu helgi þá held ég að fríinu mínu verði líka frestað þangað til ákveðið verður að gera eitthvað viturlegt.

En...
Núna er svalagrill í matinn. Verður snætt á þessu eðalborði sem ég eignaðist upp á nýtt í gær.

Hann ætti að fá endurgreitt!

Grey Mikael ætti að fá endurgreitt eitthvað af því sem hann hefur lagt til lýtaaðgerða í gegnum tíðina!

Michael þykir minnst aðlaðandi
Bandaríska poppstjarnan Michael Jackson hefur verið valinn ófríðasti maður heims í könnun, sem breska kvennatímaritið Company stóð fyrir. Leitaði blaðið til þúsunda kvenna og spurði hvaða skemmtikraftur þeim þætti vera minnst aðlaðandi.

Sunday, August 01, 2004

Geisp - þessi helgi

Ég verð að játa það að vera bara heima hjá sér um verslunarmannahelgi er að verða dálítið þreytt finnst mér.

Það er ekkert í útvarpinu annað en röfl um það sem er að gerast á einhverjum útihátíðum um hvippinn og hvappinn fyrir utan einhverjar asnalegar auglýsingar um að maður geti sent eitthvað SMS skeyti fyrir 199 krónur og átt þá einhverja möguleika á að vinna gistingu á Edduhóteli fyrir 5000 kaddl [- í boði Flugfélags - ] eða bensínúttekt, líklega fyrir 201 krónu. Ef það senda t.d. 1000 manns svona skeiti þá þurfa þeir 1000 manns alls að borga 199 þúsundkaddl og þá er ekki slæmt að bjóða smá bensín í staðinn! Mér finnst þetta lélegt happdrætti. Sér virkilega enginn annar í gegnum þetta?

En þetta að hanga heima um verslunarmannahelgi er sem sagt eiginlega að ganga af mér dauðum. Geri þetta ekki aftur í bráð, að minnsta kosti ekki í heilt ár að vera heima um þessa helgi!

En þetta átti ekkert að vera svona. Það átti að fara í roslega fjallaferð um þessa helgi en það klikkaði einhvern veginn fyrir skipulagsmistök og aulagang. Skil ekki hvað er að gerast með þetta. Er maður að verða gamall eða hvað? Eða kannski enn verra, innipúki?!

Reyndar þá stóð til að fresta þessari fjallaferð bara um eina viku en mér sýnist á öllu að hún sé að frestast um heilt ár. Hópurinn sem kemst um næstu helgi er að þynnast ískyggilega þannig að mér líst ekkert á þetta lengur. :(


Dreifbýlið Reykjavík

Sluxinn á föstudeginum tókst vel. Ég fór á bílnum mínum og keyrði lengi dags og var loks kominn langt út í sveit þar sem heitir Grafarholt og þar er ein gata sem myndar heilt hverfi - Jónsgeislinn. Þar búa Maggi og Erna og héldu þau hinn árlega Sluxa með glæsibrag.

Grilluðum inni í bílskúr og átum á okkur gat. Drukkum mjöð og gerðumst glöð. Svo glöð að það var að sjálfsögðu ekkert vit í að fara á eðalvagninum á brott. Þar sem ég hafði ekki ætlað að gista þá fór ég á djammið niður í bæ og aftur þurfti að keyra en núna ekki lengi dags heldur lengi nætur. Nú það var sem sagt stuð.

Daginn eftir fór ég á hjólhestinum mínum til að sækja eðalvagninn. Og þvílíkt og annað eins. Það var ferðalag. Ætli það geri sér margir grein fyrir því að það er lengra frá miðbæ Reykjavíkur og upp á Grafarholt heldur en frá Tívolíinu í Kaupmannahöfn og út á Kastrupflugvöll. Einhvern veginn held ég samt að það búi fleiri á mölinni þarna úti í Köben heldur en hér á mölinni í Reykjavík. Það væri kannski frekar ráð að við myndum færa flugvöllinn aðeins út fyrir miðbæinn en frekar gefa fleira fólki kost á að búa í miðbænum. En nei það er ekki við það komandi enda er verið að byggja einhverjar fáránlegar hraðbrautir niðri í miðbæ, náttúrlega til að tryggja það að þeir sem eiga heima sitthvorum meginn við miðbæinn í 10 km fjarlægð í hvora átt geti hindranalaust komist til hvors annars!

Og þar sem þetta var hjólaferðalag hjá mér þá tók ég áþreifanlegra eftir því að þetta er ekki á neinni flatneskju sem Reykjavík er. Onei þetta eru heilu fjöllin sem verið er að byggja.