Hversu mikið nörd er maður
Ef maður er að hugsa um eyða páskunum í að setja Linux upp á heimatölvuna sína.
Í morgun [eða í gær þar sem þetta fór fram yfir miðnættið, maður ætti kannski að fara að koma sér í bólið frekar en að vera að bulla þetta á netinu] var ég á fundi um grænt bókhald [ já svona umhverfis eitthvað] sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Var meira að segja fundarstjóri sem er svo sem ekki heldur í frásögur færandi nema kannski fyrir það að ég mætti þess vegna í skárri fötunum í vinnuna í dag. En það sem er í frásögur færandi er að á þessum fundi var ég eina ferðina enn manaður til að gera eitthvað kjánalegt. Og núna var gert út á nördaduldina í mér og ég lofaði að prófa að setja upp Linux á tölvuna mína heima hjá mér um páskana. Páskarnir eru hvort sem er ónýtir. Ég sé ekki að ég komist eitt né neitt almennilega á skíði og á auk þess eftir að gera skattfamtalið mitt. Til að bjarga mér frá almennu andlegu þunglyndi þá er kannski ráðið að gera eins og ég lofaði, þ.e að tölvunördast bara.
Ef það hættir allt í einu að heyrast eða spyrjast um mig einhvern tíman um eða eftir páska þá er það ekki út af því að ég hafi étið endanlega yfir mig af páskaeggjum heldur út af því að Linux skrímsli hefur borðað mig sjálfan í morgunmat.
Páskaegg annars.
Er ekki hægt að banna þetta. Seinast þegar ég át páskaegg þá var það allt of stórt og búið til úr allt of vondu súkkulaði. Ég held eiginlega að ég hafi hent restinni af því. Eintóm leiðindi, vont bragð, ofvaxin bumba og skemmdar tennur. Síðan man ég þegar ég var lítill að þá fékk ég aldrei nógu stórt páskaegg og alltaf einhver annar með miklu flottara páskaegg en ég. Aumingja mamma mín, þetta hefur verið kvöl og pína fyrir hana.
Síðan er ekki þverfótandi í verslunum fyrir þessum ósóma. Þessu drasli er stillt upp einhvers staðar þar sem maður er vanur að geta tekið sitt gúrme dót til að gera almennilegan mat en nei í staðinn fyrir það finnur maður ekkert nema hallærisleg illa útlítandi súkkulaðiegg með ógeðslega strumpa ofaná. Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að plata mann til að kaupa mikið drasl?
Það eina sem er sniðugt við þetta eru reyndar málshættirnir. Reikna þess vegna með að kaupa nokkur egg til að eiga málshætti handa gestum og gangandi. Og ætli maður láti sig ekki hafa það að éta eitthvað af þessu dóti líka.
En ef nördaskapurinn mun ráða ríkjum um páskana þá verður líklegast bloggað eitthvað um árangurinn af því.
No comments:
Post a Comment