Ég veit ekki hvort ég er eitthvað öðru vísi innréttaður en aðrir menn, ætti kannski að fara að vinna hjá löggunni eða einhver öryggismál en mér fannst plottið í bókinni liggja ljóst fyrir næstum því alla bókina. Aulinn sem var að rannska málið skildi ekkert í sinn haus fyrr en á síðustu þrjátíu blaðsíðunum.
Aftan á bókinni er því svo lýst að "rannsóknin" leiði ríkisráðinn útum allar trissur en gátan leysist á óvæntan hátt alveg í lokin. Jú það er rétt, á óvæntan hátt fyrir þann sem skilur ekki neitt í neinu og þar með talið þann sem bókin fjallar um. Þessar bækur eru greinilega fyrir fólk með eitthvað undarlegt greindarstig. Síðan eru þarna líka einhverjar asnalegar lofrullur gagnrýnenda um að þetta sé hin besta skemmtun. Jú reyndar, þá var ekkert afskaplega leiðinlegt að lesa um þennan vitgranna lögreglumann sem rambaði á lausn málsins fyrir slembilukkur (já í fleirtölu). Síðan er þess líka getið að þarna sé kominn einhver vinsælasti glæpasagnahöfundu Evrópu. Ég verð að játa að ef þessi er með 10 bestu þá er Arnaldur Indriðason í góðum málum. Reyndar líka hún Birgitta sem ég man að hefur skrifað ágætar glæpasögur líka. Það sem ég hef lesið eftir hana er að minnsta kosti ekki svona aulalega augljóst.
En jæja
Ætlaði austur um sveitir í mín frábæru skógrækt í dag en fór hvergi sakir leti og ómennsku. Fór þess í stað á sýninguna hans Ólafs Elíassonar. Sýningin var nákvæmlega eins og ég átti von á en verð eiginlega að taka undir orð Ragnars Reikáss um sýninguna um að þetta sé náttúrlega stórkostlegt að fá svona listamann hingað til okkar heimsfrægan um allan heim, það er ekki spurning en hvar voru allar myndirnar.
Mér fannst speglasalurinn vera svona salur bara. Hefði verið gaman að hafa eitthvað af myndum á veggjunum. Ljóslistaverkið á annarri hæðinni fannst mér sniðugra. Var síðan með nýju fínu myndavélina með mér og festi ósköpin í "núll og einn".