Saturday, April 24, 2004

Hvað ég þoli það ekki þegar Mogginn kemur ekki

Alveg ótrúleg dreifing á einu blaði. Hingað á efribyggðir Laugavegarins koma haugar af alls kyns óumbeðnu rusli og síðan óumbeðið lesefni í tonnatali sem er svo sem ágætt sumt hvert, Fréttablaðið og svona. En það eina sem ég er að myndast við að borga fyrir blessaður Mogginn. Nei hann lætur ekkert á sér kræla í dag. Hélt reyndar að hann væri þarna en þegar ég var búinn að koma mér makindalega fyrir sá ég að "Mogginn" minn var bara annað eintak af Fréttablaðinu.

Síðan ef ég hringi til að kvarta þá (hef reyndar bara kvartað yfir þessu einu sinni og þá gerðist þetta) að einhver sérlega þjónustilipur starfsmaður Moggangs spurði mig bara hvort ég væri með sérstaka lúgu bara fyrir mína íbúð. Nei ég varð að játa það. Þar með var sönnunarbyrðin orðin mín megin og ég þurfti beinlínis að sanna það að blaðið hefði ekki komið inn um lúguna. Var að hugsa um að koma fyrir myndavél sem tæki mynd af öllum sem kæmu þarna að lúgunni. Kannski báðum megin því þá gæti ég gómað þjófinn. En sá að mér enda dálítið miklar aðgerðir fyrir eitt blað, þó það sé Mogginn, málgagn allra landsmanna.

En sem sagt núna hef ég um þrennt að velja:
Nr. eitt: Hringja niður á Mogga alveg brjálaður

Nr. tvö: Þjófkenna nágrannana mína

Nr. þrjú: Gera ekkert í málinu, lesa bara Fréttablaðið betur og reyna að finna hvort Lilja blaðamaður eigi einhverja grein þar.

Og ætli ég geri ekki það síðastnefnda. Nenni ekki að gera mig öskureiðan í símann og skammast, enda held ég að það muni ekki bera neinn árangur. Hef engan áhuga á að láta nágrannana mína halda að ég sé vænissjúkt fífl auk þess sem það hvarflar eiginlega ekki að mér að neinn hér í húsinu sé að stela Mogganum frá mér elsta íbúa hússins sem hefur orðið búið hérna lengur en allir hinir til samans og jafnvel næstum því líka þó tekið sé mið af því að í hinum íbúðunum eiga sums staðar alveg tveir heima. Annars tók hún Auður á fyrstu hæðinni einu sinni Moggann minn en var ekki meiri þjófur en svo að hún skilaði honum aftur áður en ég kom heim og lét mig líka vita að Mogginn minn væri lesinn. Get ekki séð að hún sé mjög mikið efni í stórglæpamann á dagblaðasviðinu!

En ætti kannski að flytja eitthvað annað og athuga þá áður hvort Mogginn hafi yfir almennilegum blaðbera að ráða á svæðinu. Ætli blaðburðarbörn / fólk hafi annars áhrif á fasteignaverð?

Það er annars dálítið fyndið að Liljan [ sem vann einu sinni á sama stað og ég sko, ég er svona frægur fyrir að hafa unnið með henni sko ] sé orðin blaðamaður á alvöru blaði. Ég fór svona að skoða blaðið hennar betur og sá þá að sums staðar voru skrifaðir höfundar undir greinum en í svona minni greinum stóð ekki neitt. Líklega eru þeir sem eru að byrja oft settir í að skrifa þessar litlu greinar geri ég ráð fyrir og þá sé ég auðvitað aldrei hvað hún skrifar. En jú það verður ekki neinn vandi að finna það. Maður leitar bara uppi bloggstílinn hennar því hann hlýtur alltaf að koma upp um hana!


Síðan til að gera ástandið töluvert verra en ella þá er komin þessi dásamlega sumarlega reykvíska rigning sem gerir mann alltaf svona einhvern veginn þunglyndislega letilega kæruleysislegan og maður nennir þá ekki að gera neitt viturlegra en lesa einhver dagblöð eða í besta falli bulla blogg á netinu. Hef reyndar svona 10 sentimetra af ólesnum Moggum liðinnar viku einhvers staðar dreift um íbúðina en mig langar auðvitað í Moggann í dag.

Síðan finnst mér að ég þurfi að skrifa tvö skelfileg pólitísk blogg. Annað um fjölmiðlafrumvarpið sem er afturhvarf til 16 aldar þegar það var bannað að eiga prentvélar og síðan um jeppaakstur á hálendinu og þann sértrúarsöfnuð sem ég víst tilheyri, fólk sem vill ganga um ósnortna náttúru.

Og síðan svona viðbættur brandari


Skrifaðu 100 sinnum:
Ég mun ekki kasta skutlum á meðan ég er í skólanum