Wednesday, April 28, 2004

Ég skil ekki þessi læti út af þessu "Fjölmiðlafrumvarpi"


Það er ákaflega margt sem ég skil ekki í þessu öllu saman.

Yfirleitt leggur þessi ríkisstjórn mjög fá mál fram sem ég er ekki á móti. Ég get ekki séð að þetta sé neitt verra en margt annað sem stjórnin hefur gert.

Þegar ríkisstjórnin leggur fram góð mál (sem ég efast um að þetta mál flokkist undir) þá verð ég yfirleitt á móti þeim út af frekjulegum málflutningi og yfirgangi þeirra sem leiða ríkisstjórnina. Davi okkar hefur líklega sett persónulegt met í frekjumálflutningi í þessu máli. Hvers konar vinnubrögð eru það eiginlga að láta gera skýrslu og þykjast svo halda henni leyndri. Síðan þegar einhver gagnrýni heyrist þá þarf ekkert að taka mark á henni þar sem skýrslan á bara að vera leyndarmál áfram. Og frumvarpsómyndin var lögð fram á sama hátt.

Er þetta ekki bara hinn venjulegi davíðski framgangur sem stjórn landsins hefur búið við lengur en ég man eftir. Eða var þetta kannski dropinn sem fyllti mælinn, kannski.

Það sem mér reyndar gengur verst með að skilja er hvernig Sjálfstæðisflokkurinn sem merkisberi haftaleysis og frjálshyggju fer eiginlega að því að leggja fram svona hrikalegt haftafrumvarp. Að minnsta kosti verður þetta ekki til að auðvelda það að einkavæða Ríkisútvarpið. Líklega verður eina leiðin til að losa RUV undan ríkisafskiptum að leggja stofnunina hreinlega niður!

Mér finnst annars verst að fáránlegasta ákvæðið sem ég heyrði um einhvern tíman hafi ekki endað þarna inni, að það þyrfti leyfi til að gefa út dagblað. Þá hefði þetta eiginlega verið eins og var einhvern tíman á hinum íslensku síðmiðöldum þegar ég held að það hafi verið bannað eða að minnsta kosti leyfisskylt að eiga prentvél!

Ef það hefði verið þá hefði ég líklega farið að óttast um það að ritvélin mín yrði innkölluð. Nei bara að grínast, ég veit að það hefði aldrei komið til þess út af því að ég á enga ritvél!

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er Frumvarpið hér og skýrslan er hér! Tekið af síðu Helga Hjörvars

En...


Hvað er svona ofboðslega hættulegt við það að fyrirtæki í markaðsráðandi aðstöðu eigi sjónvarpsstöð? Sjónvarpsstöðvar sem leggja mesta áherslu á það að senda út ameríska framhaldsafþreyingu og mis vondar bíómyndir. Svona eins og að Kassagerðin og Oddi sem eiga prentmarkaðinn á Íslandi færu að senda út eitthvert sjónvarpsefni.

Hvað er svona hættulegt við það að einhver útvarpsstöð eigi eitthvað í einhverju dagblaði? Sé ekki að það sé hægt að rökstyðja að það sé ekki hættulegt af því að það er einfaldlega kjánalegt að það sé hættulegt. Svipað eins og að hafa áhyggjur af því að bíó færi að reka internetþjónustu, skipafélag að selja bíla eða eitthvað svoleiðs. Það geta engin alvöru rök verið þarna á bakvið.

Ég get ekki heldur séð neit ofboðslega hættulegt við það að einhver aðili eigi meira en 25% í einhverjum fjölmiðli. Mín stjórnunarreynsla segir frekar að til að fyrirtæki sé stjórnað af einhverju viti þá þurfa að vera einhverjir ráðandi aðilar sem eiga þau. Annars er þeim eiginlega ekkert stjórnað.

Það sem gæti orðið eitthvað slæmt væri ef það væri bara einn alvöru fjölmiðill í landinu. Ef annað hvort RUV eða Stöð tvö myndi leggja upp laupana þá værum við í vondum málum. En nei, það er að sjálfsögðu ekkert um það í frumvarpinu til að minnka líkurnar á því að það gerist.

Ekki frekar en það voru nein alvöru lög í landinu til að koma í veg fyrir að eitt fyrirtæki eignaðist matvörumarkaðinn eins og hann leggur sig. Ég veit ekki með þig en ég var að enda við að borða dýrindis grillsteik. Og hvar var hún keypt, jú hjá þessum Baugsfyrirtæki einhvers staðar, alveg eins og diskurinn sem ég borðaði af og grilltöngin sem ég ég notaði minnir mig.

Svo er það annars rétt. Þessari lagasetningu er ekkert sérstaklega beint að Baugi eða þeim félögum þar. En vandamálið er hins vegar að ef maður reynir að skoða hvernig það virkar fyrir einhverja aðra þá verður það yfirleitt eins og grín eða allt að því argasta klám.

No comments: