Thursday, April 22, 2004

Ég held að sumarið hafi bara komið gær


Þó það ætti ekki að koma samkvæmt dagatalinu fyrr en í dag.

Það var sumarblíðan í hádegisskokkinu í gær og undir kvöld var hægt að spóka sig léttklæddur niðri í bæ sötrandi kaffi eins og hver annar bóhem.

Lenti síðan í alls kyns flugnabardögum þegar heim var komið. Kúlukaga loðkögglarnir hunangsflugurnar gerðu heldu betur vart við sig og meira að segja kom hann sköllótti frændi þeirra langi mjói illskeytti í njósnaleiðangur líka. Annars voru þetta frekar illa gefnar hunangsflugur. Þeim datt ekki í hug að reyna að komast út annars staðar en í gegnum lokaðan þakglugga í svona fimmmetra hæð. Ég gat ekkert gert hvorki til náðar né miska annað en að horfa á vesalingana og opna almennilega út á svalir. Þær voru sko tvær þarna í einu og létu frekar ófriðlega. Hurfu reyndar báðar á sömu sekúndunni og sá ég þær ekk meira það kvöldið.

Ekki fyrr en ég vaknaði við háværan reiðifyrirlestur þriðju vinkonunnar sem hamaðist á glugganum í svefnherberginu hjá mér. Er reyndar búinn að komast að því að þessar elskur eru árrisular þar sem klukkan var ekki nema rétt rúmlega 6. Var síðan rétt að festa blund þegar ég var vakinn með öðru suði. Var það aðeins stærri haugsuga og appelsínugulari, nefnilega götusóparar borgarstjórans. Ég á alltaf jafn erfitt með að skilja þetta hreingerningaræði í miðbænum að þurfa endilega að vera að rúnta um með þessa voðalegu hávaðaseggi klukkan sjö að morgni á háheilögum sumardeginum fyrsta!

Annars, gleiðlilegt sumar bara!

No comments: