Sviðsmyndin bara hrundi
´Ég fór í leikhús í kvöld sem er svo sem ekki í frásögur færandi ef ekki hefði komið til að mér tókst næstum að láta leikarana klúðra leikritinu og næstum því slasa sig!
Kannski var þetta allt út af því að Ína gella var að hætta í Skýrr og þurfti þá náttúrlega að fara á Jensen til að kveðja hana. Reyndar leit hún á það sem hina verstu móðgun þegar ég bara stóð upp og fór fyrir klukkan sjö. Sko um kvöld ekki morgun. Þetta var auðvitað ekki nokkur frammistaða. En jú einn bjór eða svo.
Sem síðan varð til þess að þegar ég kom í leikhúsið þá þurfti ég auðvitað álpast aðeins of langt upp á sviðið. Neinei ég ætlaði ekkert að fara að leika. Veit enda að leikarahæfileikararnir mínir eru allir eitthvað undarlegir. En slagaði þarna sem sagt áfram uppi á sviðinu og glápti eins og agúrka upp í áhorfendabekkina til að finna Ralldiggni og Kristján en um leið auðvitað ekkert fram fyrir mig. Og um leið og ég sá þau krækti ég einum skankanum í einhverja ólukkans grind sem var þarna og féll hún um koll með alveg hroðalegum gauragangi. Þakka bara mínum sæla fyrir að kerlingin sem stóð við hliðina á mér fékk ekki hjartaáfall á staðnum og gaf upp öndina.
Þar sem flumbrugangur minn var búinn að skemma sviðsmyndina og leikarahæfileikarnir ekki nægir til að spinna mig út úr vanamálinu þá reyndi ég að sýna verkfræðihæfileikana til að laga grindverkið. Eftir umtalsverðar tilraunir gat ég fengið grindverksskömmina til að standa upprétta aftur. Reyndar voru einhverjir áhorfendur búnir að benda mér á að ég yrði bara að vera þarna á sviðinu og halda í grindverkið!
Nú og svo byrjuðu óskpin. Ég sap hveljur í hvert skipti sem einhver leikarinn gekk framhjá grindinni og beið ég bara eftir að hið óumflýjanlega myndi gerast. Og það gerðist auðvitað þegar önnur aðalleikkonan tók þá undarlegegu ákvörðun að setjast á grindarfjandann. Ætlaði hún líklegast að róla sér eitthvað en það tókst auðvitað ekki betur en svo að hún féll kylliflöt ofan á grindina með braki og bramli. Hinum leikurunum kross brá auðvitað en létu svo bara eins og ekkert hefði í skorist. Leikkonan (Harpa Arnardóttir) fór síðan af veikum mætti að reyna að láta hliðskömmina standa. Það tóks henni auðvitað alls ekki enda hefur hún leikarahæfilekarana sem ég hef ekki en síðan greinilega ekki verkfræðihæfileikana mína. Lagði hún því bara grindina aftur niður og lá hún bara þar fram að hléi.
En þetta skýrði reyndar út fyrir mér það sem ég hafði verið að velta fyrir mér, hvers vegna þetta leikrit heitir Sporvagninn grind. Reyndar sá ég engann sporvagn en þetta skýrði að minnsta kosti út helminginn af nafninu!
En leikritið var fínt. Framúrskarandi leikið en ég gef Snorra ekki háa einkunn fyrir frágang á sviðsmyndinni. Pabbi hans smiðurinn myndi líklegast skammast sín fyrir þetta!
No comments:
Post a Comment