Saturday, July 19, 2003

Kominn úr minni pílagrímsför til Hálslóns


Á kannski eftir að blogga almennilega ferðasögu einhvern tíman seinna en nenni því eiginlega ekki núna þar sem veðrir er allt of gott. Ef það fer að rigna í fríiinu mínu þá er það nú eiginlega ætlunin að gera eina ágæta ferðasögu sem má alveg komast á bloggið mitt. Kannski fróðleg lesning fyrir einhverja.

En svona í stuttu máli má segja að ef ég hafi einhvern tíman verið á móti þessum endemiskjánagangi þarna fyrir austan þá er ég það núna. Eitt af því sem kom upp í hugann þegar ég var við ármót Kringilsár og Jöklu í kvöldsólinni fyrir nokkrum dögum, á dásamlegu svæði sem mun fara marga tugi metra undir vatn var að ég skildi núna loksins hvernig indíánunum leið. Þeir áttu landið, þetta var landið þeirra og það var þeim heilagt. Síðan kom hvíti maðurinn og tók af þeim landið og eyðilagði það í þeirra augum. Reyndar kannski hvíta manninum til góðs en alveg örugglega ekki til góðs fyrir indíánann.

Svona í grófum dráttum þá var gengin leið eins og sést á þessu korti.



Ólyginn sagði okkur reyndar að þessi leið hefði mjög sjaldan verið farin. Margir muna eflaust eftir kjánalegum yfirlýsingum Ómars Ragnarssonar þegar hann flögraði á fisinu sínu yfir í Kringilsárrána og sagðist vera fyrsti maðurinn til að koma þangað í heilt ár. Ég hef staðfestan grun um að hann hafi alls ekki verið fyrstur til að koma þangað en þetta er samt svæði sem er mjög fáfarið. Flestir sem þarna koma eru hins vegar sérstaklega að fara í Kringilsárrana. Aka eins langt inneftir og þeir komast. Vaða hugsanlega Kringilsá eða Jöklu í Vöðlum að haustlagi eða fara fyrir þær á jökli. Fara síðan sömu leið til baka. Nú eða þá auðvaldið á vegum Landsvirkjunar sem fer væntanlega sinna ferða yfirleitt á þyrlum. Það að ganga upp eftir allri Kringilsá, fara fyrir hana á jökli. Dvelja nótt í Kringilsárranaog fara síðan fyrir allar upptakakvíslar Jöklu á Brúarjökli það hefur held ég ekki mjög oft verið gert. Þeir sem vilja fá GPS punkta af leiðinni geta haft samand. Mun einhhvern tíman þegar vel liggur á mér setja þá netið.

Ég get samt ekki stillt mig um að bulla aðeins um ferðina meðan hún er mér enn í svo fersku í minni.


Það var jafnan haft fyrir satt á meðan á göngutúrnum stóð að Landsvirkjun stæði fyrir allt gott sem þarna er gert. Gerði ferðina jafnvel mögulega með hinni geysifögru brú í annars tilbreytingarlausu árgljúfrinu. Gaf líka út kort af svæðinu sem sýndi þetta fallega stöðuvatn sem á að setja þarna. Orkaði reyndar á kortinu og lét mig borga tvöfalt meira fyrir það en aðrir sem keyptu eldra kort. Neinei, það var líklega bara kortabúðiin hjá Eymundsson sem okraði á mér.

Það sem var eiginlega undarlegast var sú takmarkalausa virðing sem við bárum fyrir landinu og birtist meðal annars í því að bera allt rusl til baka, vitandi það að innan tveggja til þriggja ára þá verður stór hluti göngusvæðisiins kominn undir leðju og drullu. Á meðan við vorum að hlífa gróðri og reyna að ganga vel um þá möluðu eyðileggingarvélarnar í bara kílómeters fjarlægð.

Í Aksjón þá var hápunkturinn líklegast þegar við stukkum yfir hluta af einni kvísl á jöklinum. Svona tveggja metra hopp og metersdjúpt vatn. Kom reyndar í ljós að þrátt fyrir að ég er stórstígur mjög þá hoppa ég ekki ýkja mjög langt og lenti á bólakafi. Drukknaði samt ekki alveg. Af merkilegum náttúruundrum var líka það að þetta vatn sem við vorum að hoppa yfir voru leyfar af töluvert stórri kvísl, eiginlega óvæðri sem svelgur gleypti nær í heilu lagi. Leyfði þessu smáræði sem vorum að hoppa yfir.

En við sáum líka margt merkilegt sem fólk sér ekki á hverjum degi. Má þar svo sem nefna snæugluhjónin sem við fylgdumst með. Ef einhver ekki trúir þá á ég fjöður til staðfestingar. Einnig var gaman að fylgjast með öðru dýralífi s.s. gæsum í hundraða og þúsundavís og hreindýrahjörðum í næstum því seilingarfjarlægð. Komumst líklega tvisvar í ágætt skotfæri við hreindýrahjarðir ef það hefði verið ætlunin. Get ekki séð að hreindýraveiðar séu ýkja flóknar nema þá að hreindýrin viti hvenær veiðutímabilið er og séu þess vegna bara vör um sig þegar það er nauðsynlegt. Annars var nú litli hreinsi sem vildi helst fara að leika voð okkur og skoppaði hringinn í kringu um okkur skemmtilegastur. Af öðrum dýrum er það að nefna að við sáum ekki nema einn ref (ég kom reyndar aldrei auga á hann) en mús sáum við enga.

Punkturinn yfir i-ið í ferðinni var síðan í ferðalok á heimleið þegar við bræður fórum á Herðubreið um miðja nótt. Var haft fyrir satt að oft hefðum við séð flott útsýni en aldrei neitt í líkingu við það sem þar fyrir augu bar. Er stundum haft á orði að eitthað sé svo flott að það sé eins og póstkort, konfektkassi eða pússluspil. Uppi á Herðubreið var ekki um slíkt að ræða heldur sáum við teiknimynd eða málverk. Útsýni sem á ekki að vera til nema kannski einhvers staðar djúpt í huga manns eða þá sem túlkun listamanns.



Það var annars haft sem brandari þarna í hópnum hjá okkur þegar við horfðum endalaust yfir óbeislaða náttúrufegurðina þarna að einn af ferðafélögunum sem hafði ætlað að koma með hafði hætt við að koma með af því að vinnufélagi hennar ættaður af svæðinu var búinn að telja henni trú um að þetta væri svo ljótt landssvæði. Voru meira að segja fleiri í hópnum búnir að tala um að koma ekki með vegna þessa. Held að þeir hafi verið verulega fegnir að hafa komið með!

Fyrir forvitna má síðan skoða nokkrar myndir sem eru komnar á fótologgið mitt.

No comments: