Monday, July 07, 2003

Heimur versnandi fer!
Varúð - pólitískt blogg fyrir Stínu.

Ég veit ekki hvert þetta þjóðfélag okkar er núna að fara. Það rekur hvert óhappið annað. Ekkert gengur eftir og allt er að komast á vonarvöl.

Einhver mesta guðsblessun þessarar þjóðar, herinn virðist vera á förum og það næstum án þess að segja bless. Hvernig eigum við að fara að því að verjast allri þeirri vá sem að okkur steðjar? Það vita allir að hryðjuverkamenn eru í hverju heimshorni. Þeir geta leynst í farþegaþotum og þess vegna flogið á Hallgrímskirkjuturn [fyndið, er þetta vitlaust skrifað hjá mér, villuleiðréttingarforritið sem ég er með vill ekki viðurkenna þetta orð], ja hvað gerum við þá ef við höfum ekki þessar fjórar orrustuþotur þarna í keflavík.

Síðan var búið að ákveða að leysa allan vanda Siglfirðinga með að gera þessi löngutímabæru jarðgöng við Héðinsfjörð. Það er augljóst að þessi jarðgöng verða að vera algjört forgangsverkefni í samgöngumálum þjóðarinnar. Þarna fyrir norðan eru a.m.k. 1700 manns sem búa á Siglufirði og þannig að þetta verður að teljast þjóðþrifamál. Reyndar ef þessi ágætu göng kosta 6 milljarða eins og heyrst hefur þá gerir þetta um 3,5 milljónir á hvern íbúa á Siglufirði. Þessu er auðvitað lofað fyrir kosningar en síðan að þeim loknum þá er bara hætt við allt saman. Það er reyndar dálítið undarlegt til þess að hugsa að þetta er eiginlega sama stærðargráða í peningum per íbúa og að leggja göng til Vestmannaeyja, skv. úttekt á vegur.is

Um helgina og í næstu viku stendur síðan til að fara austur á Kárahnúkasvæðið og skoða hinar dásamlegu framkvæmdir sem þar eru. Þær halda vonandi áfram að ganga vel. Reyndar svona í alvöru talað að úr því að þær þurftu endilega að fara af stað þá er auðvitað skárra að það komi eitthvað almennilegt út úr þeim og þær skapi einhverja hagsæld fyrir austfirðina eða að minnsta kosti Reyðarfjörð og næstu þorp þar um kring.

No comments: