Thursday, July 31, 2003

Ferðahuggurinn
Ferðaplönin ganga bara vel hjá mínum. Kominn á nýja skó, enda ekki vanþörf á þar sem gömlu skórnir mínir voru orðnir all sjúskaðir að framan. Mun núna næstu árin ganga á Meindl Makalu Pro. Örugglega rosalega prófessjónelt að ganga á slíkum skóm.

Varð það annars á í gær að fara til Ferðafélagsins og fá nýtt eintak af skírteininu mínu þar sem því gamla var stelt af mér. Borgaði í gegnum einkabankann minn rétt áður en ég fór af stað í þann leiðangur. Neinei, þegar ég kom á staðinn var ég að sjálfsögðu meðhöndlaður sem glæpamaður þar sem ég var ekki með almennilega greiðslukvittun. Þurfti sjálfur að fara inn í Einkabankann og sýna þeim að ég væri búinn að borga. Hvílíkt og annað eins. Það munaði ekki nema hársbreidd að ég segði mig úr þessum undarlega félagsskap. Ætti annars að gera það þar sem ég er miklu meira fyrir Útivist en FÍ. Verst að Útivist á eiginlega enga skála til að slæpast í. En hvað um það.

Skunda núna í mínum fjallaskóm á fund ferðafélaganna til að undirbúa fund fjallanna sem hefst á morgun. Kominn með GSM punkta og hvaðeins, verð með GPS síma meðferðis og er að hugsa um að fá mér líka M&M neyðartalstöð.........

Wednesday, July 30, 2003

Latur bloggari
Hef ekki nennt að blogga nein ósköp að undanförnu, enda haft það bara allt of gott í sumarfríinu mínu. Hef annars verið duglegri að fótologga. Eins og svona þegar systkini mín komu í mat til mín og þegar ég fór sjálfur hamförum báðum megin við myndavélina.

Er síðan líka kominn á fullt við ferðalagaskipulagningu enda ekki seinna vænna þar sem stórt verður skammra högga á milli á næstunni. Fyrst vaðferðin ægilega þar sem e.t.v. verður skrýtnast að litlasystir ætlar að draga kælastann á fjöll! - veit annars ekkert hvort hann kunni neina sklingísku, hann velðul nú annals að læla það ef það á að vela ekkvað vit í sampantinu.

Síðan er búin að fæðast hugmynd um að fara í hjólaferð til Suðvestur-Frakklands seinna í mánuðinum. Upp í Píreneafjöllin og vita hvernig er að þræla þar í endalausum brekkum.......

Friday, July 25, 2003

Bíldrússlan mín komin í lag
Setti reyndar persónulegt met í heiðarleika þegar ég fór að sækja bílinn og var sagt að reikningurinn væri ellefuhundruð og eitthvað. Sagði að þeir hefði nú líklega gleymt einhverju. Framhleypnin kostaði mig um 10 þúsund kall. Fékk reyndar afslátt út á heiðarleikann!

Notaði svo tækifærið og þræddi útsölur bæði í Kringlunni og Smáralind og reyndar víðar. Kostaði þegar upp var staðið mun meira en viðgerðin á bíldrusslunni. Reyndar ótrúlegt að þetta stykki í bílnum sem er búið að vera að hrella mig í hálft ár með að drepa á honum á ólíklegustu stöðum skuli ekki hafa kostað nema rétt rúman þúsundkall!

Wednesday, July 23, 2003

Fór út að skokka í rigninunni áðan
Sem er svo sem ekki í frásögur færandi, en þá datt mér í hug:

Ætli það verði minn vani
að hlaup'á harða spani?
En regnið er svalt,
svo andsvíti kalt,
von'að það verð'ei minn bani?
Sigurvegari dagsins............
Er Landsvirkjun fyrir að hafa sýnt það frumkvæði að ráðast í það þrekvirki að búa til lón við Kárahnúka þannig að ég get í framtíðinni leigt mér hjólabát og siglt yfir að Töfrafossi þar sem hann mun steypast út í hið fagra Hálslón.



Fyrir þá sem vilja sjá hvernig þetta lítur út fyrir lýtaaðgerðina þá má sjá það hér
Lengi lifi framfarirnar!

Ég umhverfiströll?
Environmentalist
Threat rating: Low. You are annoying, but too much
of a softy tree hugger to pose any threat to
the mighty machine of Republican progress. And
the FBI know where you live.


What threat to the Bush administration are you?
brought to you by Quizilla

Tuesday, July 22, 2003

Kynferðisráðningar
Líklega er ég að misskilja þetta eitthvað og ekki í fyrsta skipti en ég geti ekki skilið nýjan dóm um ráðningu leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar öðruvísi en að það sé verið að krefjast þess að kyferði verði látið ráð í ráðningum starfsmanna og að það sé verið að gera það ómögulegt að byggja upp fyrirtækjabrag með því að ráða fólk sem passar vel saman og getur náð árangri!

Feginn er ég að vera ekki í þessum ráðningarmálum!
Sigurvegari dagsins............
Er ég sjálfur fyrir að hafa tekist að hella morgunkaffinu mínu niður út um allt borð!



Og fyrir þá sem þekkja kaffið mitt og kunna gott að meta þá vita þeir að þetta var mikil sóun - og ekki óvanalegt að þá var þetta Expressó Krakatá frá Kaffitári. Lán í óláni að ég átti til meira. Annars veit ég ekki hvar þessi dagur hefði endað!

Og fyrir þá sem þekkja mig líka þá vil ég gleðja þá með að þessi kaffiniðurhelling varð punkturinn yfir i-ið núna skal dúkurinn minn verða þveginn!

Monday, July 21, 2003

Sigurvegari dagsins............
Eru skipulagsyfirvöld í Reykjavík sem fá fyrstu einkunn fyrir skipulag sem stuðlar að fjölbreyttumhjólreiðaleiðum í Reykjavík. Hvers getur maður óskað sér annars en að þurfa að paufast yfir gras, hraðbrautir, móa og mela þegar maður bregður undir sig betri fætinum og fer á reiðhjóli í ammælisveislu frænku sinnar.!
Fyndið að hringja í verkstæði
Fyrst er alltaf á tali og síðan loksins þegar maður nær inn, þá heyrir maður annan síma hringja og er beðinn um að bíða aðeins.
Núna er ég búinn að bíða fullt og held að sá sem svaraði hafi sett símann í rassvasann því brakið sem ég heyri er ótrúlegt. Vona bara að hann fari ekki að leysa vind.

En annars þá svaraði hann loksins og var þá hinn þjónustiliprasti þannig að ég fyrirgef honum nú bara alveg.
Ojbrasssta það er komin rigning
Það er alltaf jafn undarlegt að á meðan himininn er blár og yndislegur þá finnst mér alltaf að það sé ómögulegt að hugsa sér að hann eigi eftir að verða grár og drungalegur. Síðan þegar hann gránar og fer að leka eins og er í dag þá finnst mér strax einhvern veginn erfitt að sjá það fyrir að skýin fari neitt aftur. En þau fara samt!

Annars er veðurminnið alveg með ólíkindum lélegt. Ef það myndi t.d. rigna núna nú þrjá daga þá væri ég líklega búinn að gleyma sólinni sem var um helgina og í síðustu viku. Annars er þetta synd að það skuli ekki vera sólskyn lengur. Ég var svona við það að verða smá bleikur á fótleggjunum!

Þetta er samt ekki svo alslæmt að hafa smá rigningu af og til. Núna gefst mér væntanlega tækifæri til að gera eitthvað af því sem ég þurfti að gera í fríinu mínu. A.m.k. pakka saman draslinu úr seinustu fjallaferð og ná því markmiði að sjá í borðstofuborðið fyrir drassli sem af einhverjum undarlegum ástæðum safnast þar alltaf fyrir.
Það er sumar!
Hjólaði út um allan bæ í bílleysi mínu í dag. Alla leið upp í Breiðholt í ammimælisveisluna hennar Þórhildar. Svitnaði þvílíkt á leiðinni að ég vissi varla hvað!


Á leiðinni til baka fórum við í gegnum Elliðaárdalinn og var þá vissara að hafa munninn lokaðann ef maður vildi ekki innbyrða fleiri og hálft kíló af flugum. Eru annars bara ágætis prótein. Kom sér vel að vera með gleraugu en flugurnar voru eins og skæðadrífa á andlitinu á mér þegar ég var kominn á fulla ferð (sem er sko full eins og gera má ráð fyrir).

Eftir að hafa í kvöld hjálpað litlusystur að taka uppúr kössunum í nýju íbúðinni þá komst ég að því mér til mikillar undrunar að það er samt að koma haust, eða það kemur að minnsta kosti einhvern tíman. Það var svo rökkvað um lágnættið að ég kveikti á ljósinu aftan á hjólinu!

O jamm.

Saturday, July 19, 2003

Kominn úr minni pílagrímsför til Hálslóns


Á kannski eftir að blogga almennilega ferðasögu einhvern tíman seinna en nenni því eiginlega ekki núna þar sem veðrir er allt of gott. Ef það fer að rigna í fríiinu mínu þá er það nú eiginlega ætlunin að gera eina ágæta ferðasögu sem má alveg komast á bloggið mitt. Kannski fróðleg lesning fyrir einhverja.

En svona í stuttu máli má segja að ef ég hafi einhvern tíman verið á móti þessum endemiskjánagangi þarna fyrir austan þá er ég það núna. Eitt af því sem kom upp í hugann þegar ég var við ármót Kringilsár og Jöklu í kvöldsólinni fyrir nokkrum dögum, á dásamlegu svæði sem mun fara marga tugi metra undir vatn var að ég skildi núna loksins hvernig indíánunum leið. Þeir áttu landið, þetta var landið þeirra og það var þeim heilagt. Síðan kom hvíti maðurinn og tók af þeim landið og eyðilagði það í þeirra augum. Reyndar kannski hvíta manninum til góðs en alveg örugglega ekki til góðs fyrir indíánann.

Svona í grófum dráttum þá var gengin leið eins og sést á þessu korti.



Ólyginn sagði okkur reyndar að þessi leið hefði mjög sjaldan verið farin. Margir muna eflaust eftir kjánalegum yfirlýsingum Ómars Ragnarssonar þegar hann flögraði á fisinu sínu yfir í Kringilsárrána og sagðist vera fyrsti maðurinn til að koma þangað í heilt ár. Ég hef staðfestan grun um að hann hafi alls ekki verið fyrstur til að koma þangað en þetta er samt svæði sem er mjög fáfarið. Flestir sem þarna koma eru hins vegar sérstaklega að fara í Kringilsárrana. Aka eins langt inneftir og þeir komast. Vaða hugsanlega Kringilsá eða Jöklu í Vöðlum að haustlagi eða fara fyrir þær á jökli. Fara síðan sömu leið til baka. Nú eða þá auðvaldið á vegum Landsvirkjunar sem fer væntanlega sinna ferða yfirleitt á þyrlum. Það að ganga upp eftir allri Kringilsá, fara fyrir hana á jökli. Dvelja nótt í Kringilsárranaog fara síðan fyrir allar upptakakvíslar Jöklu á Brúarjökli það hefur held ég ekki mjög oft verið gert. Þeir sem vilja fá GPS punkta af leiðinni geta haft samand. Mun einhhvern tíman þegar vel liggur á mér setja þá netið.

Ég get samt ekki stillt mig um að bulla aðeins um ferðina meðan hún er mér enn í svo fersku í minni.


Það var jafnan haft fyrir satt á meðan á göngutúrnum stóð að Landsvirkjun stæði fyrir allt gott sem þarna er gert. Gerði ferðina jafnvel mögulega með hinni geysifögru brú í annars tilbreytingarlausu árgljúfrinu. Gaf líka út kort af svæðinu sem sýndi þetta fallega stöðuvatn sem á að setja þarna. Orkaði reyndar á kortinu og lét mig borga tvöfalt meira fyrir það en aðrir sem keyptu eldra kort. Neinei, það var líklega bara kortabúðiin hjá Eymundsson sem okraði á mér.

Það sem var eiginlega undarlegast var sú takmarkalausa virðing sem við bárum fyrir landinu og birtist meðal annars í því að bera allt rusl til baka, vitandi það að innan tveggja til þriggja ára þá verður stór hluti göngusvæðisiins kominn undir leðju og drullu. Á meðan við vorum að hlífa gróðri og reyna að ganga vel um þá möluðu eyðileggingarvélarnar í bara kílómeters fjarlægð.

Í Aksjón þá var hápunkturinn líklegast þegar við stukkum yfir hluta af einni kvísl á jöklinum. Svona tveggja metra hopp og metersdjúpt vatn. Kom reyndar í ljós að þrátt fyrir að ég er stórstígur mjög þá hoppa ég ekki ýkja mjög langt og lenti á bólakafi. Drukknaði samt ekki alveg. Af merkilegum náttúruundrum var líka það að þetta vatn sem við vorum að hoppa yfir voru leyfar af töluvert stórri kvísl, eiginlega óvæðri sem svelgur gleypti nær í heilu lagi. Leyfði þessu smáræði sem vorum að hoppa yfir.

En við sáum líka margt merkilegt sem fólk sér ekki á hverjum degi. Má þar svo sem nefna snæugluhjónin sem við fylgdumst með. Ef einhver ekki trúir þá á ég fjöður til staðfestingar. Einnig var gaman að fylgjast með öðru dýralífi s.s. gæsum í hundraða og þúsundavís og hreindýrahjörðum í næstum því seilingarfjarlægð. Komumst líklega tvisvar í ágætt skotfæri við hreindýrahjarðir ef það hefði verið ætlunin. Get ekki séð að hreindýraveiðar séu ýkja flóknar nema þá að hreindýrin viti hvenær veiðutímabilið er og séu þess vegna bara vör um sig þegar það er nauðsynlegt. Annars var nú litli hreinsi sem vildi helst fara að leika voð okkur og skoppaði hringinn í kringu um okkur skemmtilegastur. Af öðrum dýrum er það að nefna að við sáum ekki nema einn ref (ég kom reyndar aldrei auga á hann) en mús sáum við enga.

Punkturinn yfir i-ið í ferðinni var síðan í ferðalok á heimleið þegar við bræður fórum á Herðubreið um miðja nótt. Var haft fyrir satt að oft hefðum við séð flott útsýni en aldrei neitt í líkingu við það sem þar fyrir augu bar. Er stundum haft á orði að eitthað sé svo flott að það sé eins og póstkort, konfektkassi eða pússluspil. Uppi á Herðubreið var ekki um slíkt að ræða heldur sáum við teiknimynd eða málverk. Útsýni sem á ekki að vera til nema kannski einhvers staðar djúpt í huga manns eða þá sem túlkun listamanns.



Það var annars haft sem brandari þarna í hópnum hjá okkur þegar við horfðum endalaust yfir óbeislaða náttúrufegurðina þarna að einn af ferðafélögunum sem hafði ætlað að koma með hafði hætt við að koma með af því að vinnufélagi hennar ættaður af svæðinu var búinn að telja henni trú um að þetta væri svo ljótt landssvæði. Voru meira að segja fleiri í hópnum búnir að tala um að koma ekki með vegna þessa. Held að þeir hafi verið verulega fegnir að hafa komið með!

Fyrir forvitna má síðan skoða nokkrar myndir sem eru komnar á fótologgið mitt.

Tuesday, July 08, 2003

Á morgun verður lagt af stað í pílagrímsför
Ekið verður norður að Kárahnúkum og gengið á árbökkunum sem munu fara á kaf. Heyrst hefur að hópurinn liggi orðið undir sterkum grun að hafa hnupplað nokkur hundruð kílóum af dónamóti og hyggist skakka leikinn á vígvellinum. Ég er nú reyndar ekki alveg viss en samt veit ég að sumir eru fegnir að hafa nokkuð pottþétta fjarvistarsönnun á meðan þjófnaðurinn fór fram. Böndin fara brátt að berast að sjálfum mér þannig að ég yrði líklega að fara að fela góssið ef ég á annað borð hefði það.

En þarna um svæðið verður sem sagt arkað í heila 6 daga á slóðum hreindýra, Fjalla-Bensa og Bjarts í Sumarhúsum.

Monday, July 07, 2003

Ég er hræddur
Hver er eiginlega með allt þetta sprengiefni og hvurn grefilinn ætlar hann að gera með það?
Veit heimavarnarliðið af þessu?
Ég bíð bara milli vonar og ótta eftir hinum hræðilega hvelli!
Íslenskum Fótologgurum fjölgar
Sá að það er kominn nýr íslendingur á Fótologg. þeir eru þá orðnir átta sem eru skráðir frá voru arfalandi þar en reyndar held ég að hluti þeirra sé nú bara að þykjast. Finnst eitthvað kúl að vera frá Íslandi, hvað veit ég!
Heimur versnandi fer!
Varúð - pólitískt blogg fyrir Stínu.

Ég veit ekki hvert þetta þjóðfélag okkar er núna að fara. Það rekur hvert óhappið annað. Ekkert gengur eftir og allt er að komast á vonarvöl.

Einhver mesta guðsblessun þessarar þjóðar, herinn virðist vera á förum og það næstum án þess að segja bless. Hvernig eigum við að fara að því að verjast allri þeirri vá sem að okkur steðjar? Það vita allir að hryðjuverkamenn eru í hverju heimshorni. Þeir geta leynst í farþegaþotum og þess vegna flogið á Hallgrímskirkjuturn [fyndið, er þetta vitlaust skrifað hjá mér, villuleiðréttingarforritið sem ég er með vill ekki viðurkenna þetta orð], ja hvað gerum við þá ef við höfum ekki þessar fjórar orrustuþotur þarna í keflavík.

Síðan var búið að ákveða að leysa allan vanda Siglfirðinga með að gera þessi löngutímabæru jarðgöng við Héðinsfjörð. Það er augljóst að þessi jarðgöng verða að vera algjört forgangsverkefni í samgöngumálum þjóðarinnar. Þarna fyrir norðan eru a.m.k. 1700 manns sem búa á Siglufirði og þannig að þetta verður að teljast þjóðþrifamál. Reyndar ef þessi ágætu göng kosta 6 milljarða eins og heyrst hefur þá gerir þetta um 3,5 milljónir á hvern íbúa á Siglufirði. Þessu er auðvitað lofað fyrir kosningar en síðan að þeim loknum þá er bara hætt við allt saman. Það er reyndar dálítið undarlegt til þess að hugsa að þetta er eiginlega sama stærðargráða í peningum per íbúa og að leggja göng til Vestmannaeyja, skv. úttekt á vegur.is

Um helgina og í næstu viku stendur síðan til að fara austur á Kárahnúkasvæðið og skoða hinar dásamlegu framkvæmdir sem þar eru. Þær halda vonandi áfram að ganga vel. Reyndar svona í alvöru talað að úr því að þær þurftu endilega að fara af stað þá er auðvitað skárra að það komi eitthvað almennilegt út úr þeim og þær skapi einhverja hagsæld fyrir austfirðina eða að minnsta kosti Reyðarfjörð og næstu þorp þar um kring.
Málverk sem listaverk eða ekki listaverk
Var að hlusta á menningarvitana í kastljósi í RÚV áðan um það hvað er list eða ekki list. Og maðurinn lét út úr sér eitthvað sem var ekki hægt að skilja öðruvísi en að það skipti í raun engu máli hvað væri á mynd til að hún væri listaverk. Það skipti öllu máli eftir hvern hún væri. Eins og hann sagði að ef maður kaupir einhverja mynd af götusala á Majorka þá geti manni fundist það vera hin fallegasta mynd en það verður ekki neitt listaverk nema það sé eftir einhvern alvöru listamann. Ég veit eiginlega ekki hvað maðurinn var að meina en það var bara ekki hægt að skilja hann neitt öðruvísi. Menningarsnobb hvað!

Einhver sagði mér að horfa meira á innihaldið en umbúðirnar. Fyrir myndlist þá hlýtur það að horfa meira á hvernig myndin lítur út en eftir hvern hún er. A.m.k. ef hún á að hanga uppi á vegg hjá manni.

Sunday, July 06, 2003

Er ekki fjárskotans þýðingarvélin gengin aftur
Kíkti á hverjir væru að skoða bloggið og sá að einhver kom frá þýðingarsíðunni aulalegu sem mér var sýnd í vetur. Einhve virðist hafa viljað vita hvað þetta þýðir nú allt á síðunni minni og fengið þessa ágætu útkomu hér.

Seinasta blogg á ensku er þar t.d.:

Sometimes feel like man not snuggle up to do there whom man encyclical scrape together snuggle up to do
Ought lo snuggle up to be snuggle up to work credit with now or a.m.k. do credit with vinnutengt. While hef then undargegu theory snuggle up to man take always snuggle up to do there whom human yearn most to snuggle up to do or vill most do. Sit wherefore into vellystingum praktulega atop hanabjálkanum minus and blogga nonsense and nonsense, after á brjósti sciatic nerve fullt af with form river Fótologginn my and hot to snuggle up to af kappi shut off with þess vegna bráðsnjöllu paperback whom fást við into MM river 390 cry piece and is nuggle up to munch brauðfiska.




Stundum nennir maður ekki að gera það sem maður ætlaði sér að gera
Ætti sko að vera að vinna eitthvað núna eða a.m.k. gera eitthvað vinnutengt. En hef þá undargegu kenningu að maður hljóti alltaf að gera það sem mann langar mest til að gera eða vill mest gera. Sit þess vegna í vellystingum praktulega uppi á hanabjálkanum mínum og blogga bull og vitleysu, eftir að hafa setta fullt af myndum á Fótologginn minn og stolist til að lesa eina af þessum bráðsnjöllu kiljum sem fást í MM á 390 kall stykkið og er að maula brauðfiska.

Friday, July 04, 2003

Ekki er maður frakki þó að hengdur sé
Komst að því í hádegisskokkinu að annað hvort þarf ég að fá mér sterkari gleraugu eða gelda ímyndinaraflið. Sem ég var að skokka í Laugardalnum þá sá ég hvar einhver virtist hafa hengt sig úti á svölum í einhverri villunni við Laugarásveginn. Þegar ég kom nær sá ég að þetta var rétt en samt ekki alveg. Það hafði nebblega enginn hengt sig heldur hengt upp frakkann sinn á herðatré úti á svölum. Kannski hafði hann hengt sig í frakkanum en slitnað síðan niður sjálfur. Hver veit.

Annars var þetta svaka fínt skokk. Sá ekkert til hlaupafélaganna þannig að ég varð fyrst að fara einn hring fyrir Sigþór og síðan annan fyrir Hauk strax á eftir. Fór þess vegna heila tvo hringi. Synti síðan fyrir þá báða líka. Æji, þetta þýðir það að ég hljóp bara fyrir þá en ekkert fyrir sjálfan mig. Bæti úr því einhvern tíman.

Síðan var eins gott að ég fór að hlaupa í hádeginu en ekki í þessa spjótkastkeppni
Ég hefði eflaust tapað aftur fyrir henni!
Vinnufélögunum er ekki alls varnað
Fékk svona tölvupóst rétt áðan:

Sæl,
Við ætlum að halda spjótkastskeppni í hádeginu í dag kl. 1230 á bak við barnagarðinn en þar er smá "tún". Þetta verður í anda gömlu þríþrautanna, þ.e. karla og kvenna keppni enda eigum við karla og kvenna spjót. Ein eða tvær umferðir eftir því sem tími gefst!

Fyrir hönd íþróttanefndar,

Ó.....



Það liggur við að ég hætti við skokktúr hádegisins og fari frekar í hina fornu þríþraut!

Annars er ég eiginlega hættur að þora að blogga eftir tölvuárásir gærdagsins sem lýstu sér m.a. í að mitt saklausa blogg varð skyndilega einhver undarleg almenningseign, sbr.


Annars gekk mér ekkert að fá heimsóknir. Ef maður telur í þúsundum þá kom nú bara enginn í gær að skoða bloggið mitt. Er reyndar komið í eitt þús fyrir þessa viku en það telst nú vaddla mikið. Og það eru ekki komnar nema rúmlega 800 gestir inn á heimasíðuna mína núna í júlíog langt liðið á mánuðinn. Þessir gestir hafa reyndar skoðað svona eitthvað tæplega 4 þús síður og þessi dularfullu hitts slefa ekki nema rétt í 25 þúsund þessa þrjá daga sem liðnir eru af mánuðinum og þar af reyndar eitthvað uppundir 15 þús í gær. Neinei, ég veit að aðrir gera miklukilmumiklukilmumiklukilmumiklukilmumiklukilmu betur en þetta.

Jæja best að fara að snúa sér að einhverju gæfulegra, annars mun Ármann J tilnefna mitt sjálfhverfa blogg um sínar eigin heimsóknir sem eitt af þessum fimm atriðum sem eru hallærislegri en línudans.
Til allra með óþolandi GSM síma


Var hann úr málmi,
hávær og hægt
að sturta honum niður?


Thursday, July 03, 2003

HJÁLP

FIMMTUDAGUR 3/7
BLÓMKÁLSSÚPA
ÁVXTA FYLLTUR GRÍSAHRYGGUR MEÐ SYKURBRÚNUÐUM KARTÖFLUM
ÍS


Nú er það annað hvort að leggja sig eftir matinn eða fá sér fimmmmtán bolla af rótsterku kaffi.

Þar sem ég er á hjóli þá held ég að ég fái mér kaffið. Þið ökuníðingar sem hafið það í hyggju að keyra mig niður á eftir, eruð þið bara ekki til í að leggja ykkur fyrir mig.

sof sof .............
Svakasniðugt að espa Katrínu upp
Sko, mér varð það á að verða svaka glaður að það komu einhverjir fimm að skoða síðuna mína í gær og þessir fimm voru svo skrýtnir að þeir þeir skoðuðu allir myndirnar mínar í hlaupatúrnum í Reykjavík og eitthvað meira svona 20 sinnum hver sem gerði það að þetta voru einhverjar þúsundkalla flettingar og svona. Ætli Katrín hafi þá bara ekki séð ofsjónum yfir barnalegri gleði minni og farið að halda að ég væri farinn að telja mig til einhverra ofurbloggara. Neinei en þetta er samt svakafyndið því yfirleitt koma ekki nema svona tveir og hálfur að skoða bloggið mitt á hverjum degi en núna áðan voru sko 15 að skoða það í einu!

Segi því bara aftur, trallalallala.

Fyndið að skoða traffíkina á síðunni sinni
T.d. að sjá hvaðan fólkið kemur, sérstaklega þeir sem eru að leita. Síðan líka að skoða hvaða fólk þetta er. Reyna að geta í hvaða dómein þetta eru og IP tölur. sumt er reyndar meira dularfullt en annað. T.d. er domeinið dx. alltaf þarna af og til. Veit ekki hvort það er Davíð Oddsson með dulbúna auglýsingu. Síðan eru þarna fastagestir sem ég þekki og skoða oft og mikið. Alfyndnast finnst mér síðan sá sem hefur getað látið teljarafrorritið mitt nema heimilisfangið: Vaettagil 16. Verið ávallt velkomin í heimsókn!
Trallalalallala
Í gær voru vefsíðurnar mínar skoðaðar 1785 sinnum (fyrir utan þessa sko) af 163 netverjum og þeir voru hvorki með meira né minna en 7924 hits.

Geri bara aðrir betur!
Annars þá var þetta síðuáhorf mitt nú reyndar aðallega held ég útaf myndasýninguinni hjólað í Reykjavík.

PS
kom hjólandi í vinnuna í dag og það reyndi eiginlega enginn að drepu mig. Annars undarlegt að það taka allir voðamikið tilliti til mín á morgnanna þegar fólk er nývaknað. Kannski myndi umferðarmenningn lagast ef við færum að taka okkur síestur. Trallalalalla allir að fara að sofa í eftirmiðdaginn. Ég skal hrjóta hæst!
Stríðstól, Afríka og rasismi


Bush vill að Charles Taylor yfirgefi Líberíu


Ég veit ekki hvort ég er að verða rasisti en ég verð að segja eins og er að þessir stríðsmenn á þessari mynd sem kom í frétt á mbl.is áðan líta einhvern veginn út eins og þeir ættu frekar að halda á sínum almennilegu hefðbundnu vopnum, spjótum og fagurlega skreittum skjöldum.

Ætli þeim hefði annars vegnað nokkuð verr í gegnum síðustu par hundrað árin þí við vesturlandabúar hefðum bara látið þá alveg í friði. Hvorki verið að ræna þeim til að hneppa í þrældóm, arðrænt þá og síðan til að gera vel við þá, troðið okkar menningu upp á þá, tækni og tólum. Mér þætti þessi mynd að minnsta kosti mikið flottari ef þeir væru með sín upprunalegu stríðstól!

Wednesday, July 02, 2003

Klúðraði umhverfisdögunum mínum gjörsamlega áðan
Bíldrússlan fór nebblega í gang þegar ég prófaði hann áðan. Burraði heim á honum og úr því að hann gekk þetta líka svaka flott þá skrapp maður náttlega einn rúnt niður Laugaveginn.

Ætlaði síðan að kaupa eitthvað matarkyns en það varð nú bara að einni pulsu! Ekki sérlega góður kvöldmatur það en sleppur nú alveg fyrir horn þar sem það er svo svakagóður grænmetisréttur alltaf í hádeginu á miðvikudögum í vinnunni. Lengi lifi Tobbbi.

Verslaði annars miklu betra nebblega matreiðslubók til að geta eldað eikkurn ammilegan mat einhvern tíman seinna. Svona t.d. þegar ég verð gamall. Nei bara grín, ætlað að elda úr bókinni á hinn daginn held ég. Annars var þetta útsala. Keypti þrjár kiljur, nýju matreiðslubókina hennar Nigelu (ætla sko að elda þetta sem var í sjónvarpinu áðan) og Leonardo spilið. Telst til að ég hafi grætt 1000 kall á hverju einasta stykki sem ég keypti. Reyndar skil ég það ekki alveg þar sem þetta dót kostaði alls uppundir 7000 kall. Svakalegt hvað það getur verið dýrt að spara á Íslandi!

Lofa því síðan hátíðlega að fara á hjólhestinum í vinnuna á morgun og lofa líka að láta ekki keyra yfir mig.

Amen, kúmen hálsmen.
(verulega gamall og verulega lélegur djókur)

Það var aftur reynt að drepu mig
Í gær var það einhver kona á einhverjum ljótum jeppa. Í dag var það gráhærð kelling á gráum fólksbíl, nebblega NA-068 sýndist mér sem reyndi að drepu mig þar sem ég var í sakleysi mínu að hjóla í Skipholtinu og reyndi að halda umferðarhraða svona næstum því.

Annars þá var þetta með ólíkindum. Kerlingarálftin horfði á mig, ég þóttist ná augnsambandi við hana og síðan keyrði hún bara beint af stað. Horfði á mig nálgast, bremsa í botn til að fara ekki í hliðina á henni og keyrði svo bara áfram í mestu makindum. Hvað er eiginlega að íslenskum ökumönnum. Ég hélt að íslenska veðrið væri stærsta vandamálið við að hjóla á Íslandi en það virðast vera gjörsamlega óhæfir ökumenn sem eru fullkomlega gjörsneyddir raunveruleikaskynjun. Það þyrfti kannski að setja ökumenn í einhvers konar siðferðispróf til að finna þá sem álíta hjólandi fólk ekki vera fólk.

Ef einhver sem les þetta kannast við konuna á NA-068 (sem er grár smábíll - ef ekki þá mislas ég númerið) þá má alveg skamma hana meira en pínulítið frá mér og benda henni á að maður bara gerir ekki svona.
Umhverfisvænu dagarnir halda áfram
Sambland af bílnum mínum bilaða, afmæliskökunni, hjólinu mínu og konu sem kann ekki að keyra var í sameiningu næstum búið að kosta mig lífið eða a.m.k. lífstílinn í gær þegar ég var að hjóla heim úr vinnunni. Var að hjóla, reyndar ekki í mesu makindum heldur á fullri ferð á Háaleitisbrautinni þegar einhver helv. jeppi (já það var reyndar kona sem var að keyra hann) keyrði bara beint fyrir mig. Stoppaði svo úti á miðri götunni til að bíða eftir einhverjum bílum sem hún vildi sko ekki að myndu keyra á sig. Forgangsröðunin greinilega á hreinu hjá henni. Passaði sig á að lenda ekki í árekstri við bíla sem gætu skemmt jeppadrussluna hennar en skeytti ekki mikið um hjólamanninn sem var við það að breyta framtíð sinni varanlega með að hjóla beint inn í hliðina á henni. Veit reyndar ekki hvort hún sá mig eða ekki en einhvern veginn þar sem henni brá ekki hið minnsta við að sjá mig og skelfingarsvipinn á mér þegar ég var að nauðhemla þá hef ég hana grunaða um að hafa séð mig og bara ekki talið mig skipta neinu einasta máli. Líklega verið einhver strákpjakkur á hjóli. [má reyndar geta þess að í mínum huga var hún tillitslaus keddling á jeppadrusslu en líklea voru nú ekki mörg ár á milli okkar í aldri]

Held að hún hafi ekki áttað sig á því að eitthvað hafi verið öðru vísi en það átti að vera fyrr en hún sá hversu svakalega reiður ég varð. Og fyrir þá sem þekkja mig þá vita þeir að þegar ég verð reiður þá verð ég reiður. Þeir vita það reyndar líka að ég er svona frekar ekki mikið langrækinn Þannig að ég var ekkert lengi reiður og hjólaði bara í burt. Verst að ég gleymdi að taka mynd af henni til að setja dálkinn, eftirlýstur, dead or a live.

Síðan í dag
Er búinn að komast að fjórum nýjum atriðum:

1. Bíllinn minn er meira bilaður en venjulega þar sem hann vill ekki ennþá fara í gang.

2. Það verður bið á að hann komist í lag þar sem a.m.k. fyrsta verkstæðið sem ég talaði við átti engan tíma handa mér fyrr en eftir tvær vikur

3. Rigningin er blaut.

4. Það er meiriháttar hressandi að hjóla í vinnuna í rigningu ef maður er klæddur til þess.

Þetta er því allt í góðum málum en líklega fer ég að venja mig á að hjóla með hjálm, sem ég reyndar gleymdi í morgun. Það er þannig þá líka bara heilmiklar líkur á að umhverfisdagarnír mínir haldi áfram.... skyldi Morten vita af þessu?
Dálítið undarleg afmælisveisla
Ég held að ég hafi aldrei áður farið í afmælilsveislu þar sem afmælisbarnið (reyndar sjötugt) var hvergi viðstatt. Fór heim til foreldra minna í tímt hús og át ammælistertu í tilefni sjötugsafmælis karls föður míns og sendi honum bara sms skeyti um hvað væri gaman í afmælinu. Það var reyndar bara mjög fámennt en góðmennt í veislunni þar sem hún samanstóð af mér, systurm minni og Katrínu frænku minni. Svakagaman samt.

Tuesday, July 01, 2003

Gerði eiginlega dálítið klikkað
Fór út að hlaupa í kvöld, sem er í sjálfu sér ekkert svo klikkað eitt og sér en ég tók myndavél með mér og tók myndir í allar áttir. Var svo að dunda mér við að klessa þessu á netið. Afraksturinn má lesa á sérstakri myndasíðu. Ef myndirnar birtast ekki þá er það líklega út af því að ég er að nota hundhægvirt ftp forrit en þetta er allt að koma. Fór sko bara að sofa og lét tölvudrussluna um þetta!