Upp, upp mín sál og allur minn skrokkur líka!
Ekki ér nú hægt að segja annað en að þetta Öræfajökulsflandur mitt hafi gengi fram úr vonum. Mig minnti að þetta ætti að vera einhver súskelfilegasta þrekraun sem hægt er að hugsa sér en þetta gekk nú bara létt og löðurmannlega. Jæja ef einhver sem fór er að lesa þetta, þá var þetta auðvitað dáltið erfitt en samt ekki svo.
Enda var veðrið frábært. Steikjandi hiti eiginlega alla leiðina og jafnvel uppi á toppnum var logn og sterkjuhiti. Eiginlega var veðrir það erfiðasta held ég. Bullsvitnaði þrátt fyrir að leiðsöguhundarinr frá ÍFLM hafi á skipulegan hátt haldið hraðanum niðri og látið okkur ganga eins og leikskólabörn í snúru svo til alla leiðina. Svitinn varð síðan til þess að sólvörnin lak öll af mér. Sérstaklega af enninu þar sem ég strauk svitann af með erminni minni. Sit ég núna uppi á háalofti bloggandi og skaðbrunninn á enninu á meðan þvottavélin fæst við sólvarnaráburðinn sem er í peysuerminni minni. Reyndar stór sér á mér á fleiri stöðum því ég svitnaði svo mikið á bakinu að bakpokinn fír að nuddast utan í bakið á mér með þeim afleiðingum skinnið fór að láta undan síga. Ætti kannski að fara að hætta að plástra á mér hælana til að koma í veg fyrir hælsæri sem ég man orðið bara óljóst eftir í fjallgöngum og fara í staðinn að plástra á mér bakið!
Verð reyndar að segja það að svona popparferð með atvinnufjallaleiðsögumönnum höfðar ekki nógu mikið til mín. Vil fá að vera með puttana í þessu öllu sjálfur og leiðist að vera í svona stórum hóp sem fer að virka eins og einhver hjörð þar sem einhverjir aðkeyptir sérfræðingar eiga að sjá um allt fyrir mann. Sjálfur á maður bara að labba og horfa. Þarf ekki, á ekki eða jafnvel má ekki taka neina ábyrgð á neinu. Það kom reyndar upp í hugann atvik fyrir nokkrum árum í lauginni í Landmannalaugum þegar ég hafði um páska farið á skíðum farið með frábærum hópi upp í Hrafnitinnusker og gist þar í tvær nætur. Fórum þá í kvöldgöngu hringinn í kringum hrafntinnusker. Höfðum upphaflega bara ætlað að skoða Íshellana en sáum svo hver einvhers staðar álengdar, svona 5 km í burtu og fórum þangað og til baka aftur í kringum Skerið. Lentum í ægilegum giljum hávaðaroki, sumir komnir með aðkenningu að kali á nefið og flestir að verða alveg uppgefnir þegar við komum loksins í skálann þar sem síðan var náttúrulega 10 gráðu frost innandyra. Vorum síðan þarna í Lauginni að spjalla við Einar Torfa framkvæmdastjóra Fjallaleiðsögðumanna og segja frá þessum frábæra túr. Hvað þetta hefði verið rosalega gaman að lenda í öllum þessum endalausu giljum og hvað það hefði síðan verið "fyndið" að hafa fattað eftir á að við hefðum sloppið við þau öll með að fara pínulítið öðruvísi leið. Þá datt uppúr Einari Torfa með dálítilli eftirsjá í röddinni: Já það er sko einmitt þetta sem viðskiptavinirnir mínir eru að borga mér fyrir að þurfa ekki að lenda í! Sennileast er ég bara ekki þessi hefðbundni kúnni Fjallaleiðsögumanna.
Annars almenn með þessa leiðsögn þeirra þá fannst mér margt að henni. T.d. létu þeir hópinn hafa hafa mannbrodda og ísaxir en hirtu ekkert um að kenna nokkrum manni á þetta af neinu viti. Minntust eitthvað á hvernig á að stíga niður á mannbroddana en ekki múkk um ísaxirnar. Virtust eiga að vera meira svona upp á punt. Þeir fáu sem síðan notuð þær eitthvað héldu sumir þannig á þeim bandvitlaust að þæru urðu stórhættulegar. Enda var að minnsta kosti einn sem datt á sína og meiddi sig. Síðan var hópurinn látinn ganga á mannbroddum án þess að nota ísöxina og einvhers staða lærði ég það að það væri beinlínis hættulegt. Skipti kannski reyndar engu máli þar sem fólkinu var ekkert kennt á þetta dót. Síðan vorum við að lokum látin ganga í línu á svæði þar sem var hverfandi hættá á að fara í sprungu en samt leyft að hlaupa eins og vitleysingar í línunni þannig að sumir voru að detta og jafnvel meiða sig smávegis. Fyrir utan það að það var ekki nema einhverjir 3 metrar á millimanna í línunni. Til að kóróna þetta hjá þeim þá skildu þeir einn sem gafst upp á leiðinni bara eftir. Fékk hann þar að bíða í svona heila 5 klukkutíma einhvers staðar í miðjum Öræfajökli. Reyndar minnir mig að hann hafi beðið undir Hvannadalshryggnum einhvers staðar þar sem hætta á grjóthruni getur svona verið með því mesta sem hægt er að hugsa sér. Atvinnumenn í fjallamennsku skilja ekki einhvern með krampa í lærvöðva eftir á víðavandi í 1500 metra hæð og láta hann bíða þar í marga marga klukkutíma. Maðurinn gæti tekið þá ágætu ákvörðun að nenna ekki að bíða lengur og labba bara niður sjálfur. Reyndar hefði ég alveg örugglega gert það í hans sporum. Ég verð eiginlega að segja það að ég hef aldrei séð annað eins fúsk hjá neinum sem þóttist vera svona svakalega pró! það er svo sem allt í lagi að leiðsögumenn sem eru að gera þetta í frítíma sínum eins og hjá FÍ eða Útvist séu eitthvað mismunandi vel að sér um einhverja hluti en ekki menn sem hafa þetta að atvinnu. Skamm skamm! Ef einhver frá ÍFLM (eða einhver annar sem hefur meira vit en ég) les þetta þá má hann alveg leiðrétta mig. Þ.e. að það sé allt í lagi að vera á broddum með enga exi og að skilja mann sem gefst upp eftir í 1500 metra hæð og láta hann bíða þar hálfan daginn.
Það sem var líka sérstakt var allur þessi múgur og margmenni sem var þarna að þvælast. Upp á hnúkinn komu félagar úr Hjálparsveit skáta sem voru búnir að vera að þvælast út umallan jökul í heila viku. Gúlp, þar var fólk sem ég öfundaði. Verð bara að fara að drússlast í almennilega skíðaferð aftur. Þetta gengur barsta ekki.
Mætti síðan Helenu IMG vinkonu og fjallagarpi ásamt fleira fólki sem var á leiðinni upp á topp með snjóbretti í farteskinu. Ég öfundaði þau annars ekki alveg jafn mikið en reyndar jú annars, ég verð líklega að fara að læra á að renna mér á svona bretti. Sýnist að það sé enginn maður með mönnum nema vera brettarennslisfær.
Fyrir þá sem höfðu hugsað sér að sjá einhverjar myndir eftir mig úr ferðinni þá verður þeim ekki kápan úr því klæðinu þar sem battríið í digitalmyndavélina gleymdist í hleðslutækinu heima hjá mér og filmumyndavélin sem ég fór með sprakk á limminu. Verð mér reyndar úti um einhverjar myndir frá öðrum sem ég lauma inn á vefinn bráðlega.
No comments:
Post a Comment