Undarlegt hvað svefninn getur gert manni
Var hálf syfjaður í vinnunni í gær þegar ég fór heim. Það lagaðist nú fljótlega eftir að heim var komið. Fór síðan ekkert að sofa fyrr en uppúr klukkan eitt eftir miðnætti og þá aðallega af því að ég vissi að ég yrði að fara að sofa ef ég ætlaði á annað borð að komast í vinnuna í dag.
Núnú, ég sofnaði vært og viti menn, ég vaknaði síðan aftur og fannst ég hafa sofið alveg heillengi. Náttúrulega bjart úti eins og alltaf á þessum árstíma. Íslensk náttúra með sólina í broddi fylkingar lætur ekki að sér hæða. Leit á klukkuna og gat þetta verið. Neinei, klukkan var ekki nema rétt rúmlega tvö. Ég sem sagt ekki búinn að sofa nema einhveren einn klukkutíma og fannst ég bara vera útkvíldur. Sofnaði samt strax aftur.
Vaknaði svo aftur einhvern tíman undir morgunn. Uppúr klukkan sex. Búinn þá að sofa alveg heillengi. En var orðinn alveg ógeðslega syfjaður. Eftir að hafa slett úr skinnsokknum lagðist ég aftur fyrir, ennþá jafn grútsyfjaður. En neinei, núna sofnaði ég ekkert almennilega aftur. Lá bara svona hálfvakandi þangað til klukkan var langt gengin í átta og skrönglaðist þá á fætur.
Kannski ég hefði bara átt að fara á fætur upphaflega þegar ég vaknaði þarna klukkan tvö um nóttina. Nei, þá væri ég líklega sofnaður núna aftur.
No comments:
Post a Comment