Það var komið að því!

Rauða Eldingin orðin eitthvað skítug þegar nokkuð var liðið á hjolatúrinn
Einhvern daginn rétt fyrir jólin réðist ég á budduna og verslaði mér hið svaðalegasta hjólfák ætlaðan til kappreiða. Hugmindin er að fara í einhvern 300 km sólarhrings hjólatúr í Svíþjóð í sumar og þá ku ekki vera sérlega brúklegt að vera á fjallahjóli jafnvel með grófum dekkjum og dempara.
Eftir einhverjar smá vangaveltur varð niðurstaðan í hjólakaupunum að verslað skyldi hjólfákur af amerísku Trek góðhestakyni og er nánari tegundar auðkenning 1.5 fyrir þá sem eitthvað þykjast hafa vit á amerískum hjólestum af hinu víðfræga Trek kyni. Fákurinn er hugsanlega eitthvað litföróttur hvítur og rauður eða myndi það ekki heita grár á hestamannamáli. Skiptir ekki öllu máli en hann litur eitthvað út eins og hér til hliðar.Hjólfákurinn var ekki vatni ausinn en fékk nú samt sitt nafn, Rauða Eldingin, sem hæfir vel þvílíkum kostagrip. Heldur var nú veðurfar og þetta hvíta út um allt óhagstætt fyrir fótabúnað Rauðu Eldingarinnar en svo lét það undan síga enda láta gróðurhúsaáhrifin ekki að sér hæða og svo á fjórða degi jóla var komið að því.
Fyrst var klambrað á hjólið hraðamæli sem var tekinn af hinum aldna Leðju Láka. Sú aðgerð gekk ekki þrautalaust fyrir sig og er nú Rauða Eldingin orðin rúnum rist, þ.e.a.s. komin með eina rispu. En hún er nú bara lítil þannig að þetta er allt í lagi.
Svo var farið af stað. Rigningarlegt og minn því í regngalla. Hjólabrækur á maður engar en hlauparabuxur koma eitthvað í sama stað. Þóttist maður vera heldur betur vígalegur enda auk alls annars vopnaður gps tæki til að gera vísindalegar mælinga og með Kríli í vasanum til að geta fest herlegheitin á kubb.
Það voru farnir stígar í Fossvogsdal og alveg út á Seltjarnarnes og út að Gróttu og til baka aftur og alveg upp að Árbæjarlaug. Hægt og rólega varð bæði knapinn og hjólhesturinn skítugri og blautari útvortis en reyndar þurr innvortis þar sem svitinn bogaði af kappanum.
Hversu hratt?
Jú, eldingar fara á ljóshraða en ég verð nú að játa að ég náði ekki þeim hraða alveg... en koma tímar koma ráð!

Hjólaleiðin var út um allar trissur

Eins og sjá má þá fór Rauða Eldingin um á ógnarhraða
Já, svo er reyndar hægt að smella á myndirnar til að fá þær stórar.
Síðan er þetta hjól algjört dekurdýr. Það var þvegið hátt og lágt þegar það kom heim og svo fær það næstum því að vera inni í stofu!
....














Mér er eiginlega hætt að lítast á dreifingu farartækjanna út um allar grundir. Á föstudaginn var farið í spurningakeppni SFS og þar sem þar skyldi sötraður áfengur drykkur til að tryggja gleði þrátt fyrir slakan áranangur var farið þangað hjólandi (nei, ég hjólaði ekki neitt fullur heim heldur skildi hjólið eftir - ég vildi hafa bílinn heima - og þess vegna er það hjól þar ennþá). Í dag fór ég svo og sótti nýja hjólfákinn. Skildi bílinn eftir þar og hjólaði heim. Þar sem nýi hjólfákurinn var eitthvað órólegur í svona nýju umhverfi leyfði ég honum að koma bara inn. Þannig að hann er hérna í andyrringu uppi á annarri hæð hjá mér og unir hag sínum hið besta. Svo er Cesar hér ennþá einhvers staðar rétt hjá á bílastæði og bíður því sem verða vill og Ventó er einhvers staðar í transporti með HK og aumingja Runi er víst kominn á haugana. Ég verð víst að fara að reyna að safna þessum farskjótum mínum eitthvað saman!





























