Sunday, October 19, 2008

Raunir mælingamanna

Mælingahelgi helguð Hagafellsjökli Vestari

GönguleiðÞað er súrt að hafa tekið eitthvað að sér og ná ekkert að gera það sem ætlunin var. Eitt af því sem var að verða þannig er mælingaverkefnið okkar fyrir JÖRFÍ sem felst í að mæla Hagafellsjöklana.

Allt of seint í gær á laugardag var haldið af stað á óbreytta Patrolnum á sumardekkjunum. Undirbúningurinn eitthvað dálítið mikið svona og svona. Punktar settir í GPS tækið á leiðinni uppeftir og stefnan sett á Linuveginn (sem reyndar ku vera farinn að vera kallaður eitthvað annað sem ég man ekki). Ætlunin að mæla vestari jökulinn fyrst því hann var ekki mældur í fyrra.

Patrollinn (það verður nú að fara að finna eitthvað betra nafn á þennan bíl ef hann á að vera álitinn einn af fjölskyldunni) stóð sig vel. Svo sem ekki erfitt verkefni en smá snjóföl og hann jú bara á sumardekkjum. Enginn vegur fannst til norðurs sem brúklegur þótti enda ekki gott að reyna við slíkt þegar snjórinn lá yfir. Það var því bara arkað af stað þegar fjarlægð í fyrsta punkt var rétt rúmir 3 km. Sá göngutúr gekk bara vel.

Mæling í gangi

Gunni með GPS tækið góða við vörðuna sem heitir þv´þi frumlega nafni YJ í punktasafninu



Varðan í YJ var mæld svona meira til að sannreyna mælitækið en líka var tekin ein herjarinnar Panoramamynd sem er kannski eini vísindalegi ávinningur ferðarinnar.

Panorama - Hagafellsjökull vestari

Hagafellsjökull vestari, 18. október 2008. Ef smellt er á myndina fæst risaútgáfa af henni. Tekur smá tíma að sækja en sýnir jökulinn ágætlega



Á myndinni sést til árinnar sem við höfðum mátt vita að væri þarna. Vorum við eitthvað lítið búnir til vaðferða. Ekki einu sinni með vaðskó. Töluvert vatn var í þarna þar sem við komum að fyrst og nokkuð sjálfgefið að reyna að komast áfram án þess að þurfa að vaða.

Áin frá Hagafellsjökli Vestari...

Vatnshindranir mælingamanna



Gengum áfram til vesturs í von um að komast fyrir upptökin en það reyndist borin von. Gengum einhverja kílometra meðfram ánni og reyndar var hún mjög lítil sums staðar og svekkelsi að fara ekki yfir. En það var líka farið að ganga á birtutímann og orðið dálítið illa langt til baka því við vorum að ganga beint í burtu frá mælingarstaðnum. Ákváðum því að rölta okkur bara til baka.

One person - one world - world of ice

Á leið til baka



Gerðum svo aðra tilraun í dag á sunnudegi en veðrið var að spillast og eftir að hafa verið í hríðarmuggu á Mosfellsheiði var ferðinni bara breytt í bíltúr um Grafninginn. Jökullinn bíður því betri tíma. Vonandi gefur á hann um næstu helgi en engu er samt að treysta. Bæði þarf veðrið að vera sæmilegt og síðan tekst ekki að mæla jökuljaðarinn nema það sé svona sæmilega snjólétt á svæðinu.

A shadow and his brother

Tveir skuggalegir fyrir sunnan Hagafellsjökulinn

No comments: