Sunday, August 10, 2008

Reykjanes um nætur

... og Hæðargarður um daginn

Reykjanes   10-08-2008

Við Reykjanesvita um miðja nótt


Maður er ekki alltaf sofandi þegar maður ætti kannski að vera sofandi. Það var Fellsmörk í gær, laugardag þar sem seinasta panelspýtan á gólfinu komst upp á vegg. Fyrir þá sem um vita, voru þettta töluverð tímamót. Svo var bara brunað í bæinn.

Eitthvað misskildi ég svefntímann og fór ekkert að sofa heldur endaði í bíltúr út á Reykjanesi til að taka einhverjar myndadrusslur. Eitthvað gengu myndatökur ekkert of vel en samt varð þarna nú ein mynd sem ég var líklegast þokkalega ánægður með. Ætlaði út að Gunnuhver en það voru svo mörg hættuskilti á leiðinni og svo þegar göngustígsvegarslóðinn lá eiginlega yfir einhverja hverina þá ákvað ég að vera ekki að taka áhættu af að brenna mig á fæti einn mín liðs um miðja nótt þegar ekki er von á neinum fyrr en eftir dúk og disk.

Endaði á baðferð þar sem affall af einhverri virkjunarskömminni rennur út í sjó. Flottur baðstaður og var ég að horfa á sólina koma upp þegar ég áttaði mig á að það átti víst að taka myndir af þessu. Dreif einhverja spjör á mig og fór svo að mynda. Eitthvað ekki of flott en samt kannski sæmilegt.
sunrise

Sólarupprásin rétt eftir að ég var kominn í einhverja spjör



Svo sofið fram yfir hádegi. Sólskin og læti. Ég út í garð að nýta fína borðið mitt. Helvítis vindur hjá mér, Sigurrós og geitungunum. Þeir frekar ófriðlegir nema þessi eini sem drukknaði í appelsínusafanum mínum. Ég hafði reyndar vit á að drekka hann ekki. Þarf að gera eitthvað í skjólgirðingarmálum. Hún á neðri hæðinni með hundinn getur verið í blankalogni á sínum palli upp við húsvegg á meðan ég vesæll efrihæðaríbúi verð að láta mér nægja kuldagjóstur úti á miðju túni. Svona er láni mannanna misskipt.


....

No comments: