Monday, October 06, 2008

Að fara á hausinn

Reykjavik out of focus

gamla daga voru síldarspekúlantar út um landið sem urðu ógeðslega ríkir og svo fór síldin og þá urðu þeir ógeðslega blankir eða fóru bara á hausinn. Þetta var í sjálfu sér bara gangur lífsins. Af hverju mega síldarspekúlantar nútímans ekki líka bara fara á hausinn?

Og af hverju er þetta svona. Í fyrra voru allir ógeðslega ríkir og ekkert lát á ríkidæmi landans. Það voru peningar alls staðar sem maður skildi ekki alltaf alveg hvaðan komu. Við áttum held ég áralangt heimsmet í viðskiptahalla en vorum samt einhver ríkasta þjóð í heimi. Einhvers staðar frá kom endalaust magn af peningum og hvaðan? Jú, líklega kom það frá útlöndum.

Það voru einhverjir íslenskir nútíma síldarspekúlantar sem áttu einhver fyrirtæki sem möluðu gull og þeir áttu banka sem möluðu gull sem kom líklegast þá erlendis frá í formi lánsfjár frá einhverjum erlendum síldarspekúlöntum og allir þessir græddu að öllum líkindum alveg ógeðslega mikið… en ekki lengur.

Núna kemur enginn peningur að utan sem til dæmis birtist í því að það vilja fæstir kaupa íslenskar krónur fyrir einhvern erlendan gjaldmiðil. Það sem var kallað hard currency hér í dentíð. Og þá stoppar þessi undarlega íslenska peningahringekja. Og hvað gerist? Fara þá ekki bara síldarspekúlantarnir á hausinn?

Bankarnir og fyrirtækin sem voru með alla peningana vörðu þeim líklegast ekkert of skynsamlega. Allt of há laun og allt of háar aukasporslur fyrir hagnað sem líklega var ekki neinn alvöruhagnaður og allt of mikið af fjárfestingum sem voru rugl út í buskann og skiluðu engum hagnaði þó reyndar eflaust sumt hafi tekist ágætlega.

En af hverju mega síldarspekúlantar nútímans ekki bara fara á hausinn eins og var hér áður fyrr. Fyrirtæki sem kunna ekki fótum sínum forráð eiga bara að fara á hausinn. Bankar sem lána þeim endalaust ættu líka að fara á hausinn og er þetta eitthvað svo hroðalegt.

Sjálfur vinn ég hjá einu ágætu fyrirtæki sem er í eigu annars fyrirtækis sem er í eigu annars fyrirtækis sem heitir Stoðir eftir því sem ég best veit og þeir eru á hausnum. Þeir skulda einhverjum, líklega bönkum fullt af peningum sem þeir geta ekki borgað og þá væntanlega þá eignast bankinn bara fyrirtækið. Bankinn fær samt auðvitað ekki allt til baka. Bankinn tók áhættu og lánaði í einhvern áhættu rekstur og verður að sitja uppi með það. Bankinn (sem er íslenskur) getur þá ekki staðið í skilum því hann fékk peningana sem hann lánaði að láni hjá öðrum banka (sem er útlenskur). Útlenski bankinn eignast þá bara íslenska bankann og vonandi er sá banki það stöndugur að fara ekki á hausinn líka. Þá eru bankinn íslenski bara orðinn útlenskur banki og er það ekki allt í lagi ef hann verður með einhverja starfsemi hérlendis? Þá á erlendi bankinn í raun fyrirtækið sem ég vinn hjá og væntanlega til að erlendi bankinn fái eitthvað fyrir sinn snúð þá fær það bara að starfa áfram eins áður hver svo sem hefur átt það í gegnum tíðina (sem eru orðnir dálítið margir aðilar).

Kannski eina vandamálið er að fólkið sem átti peninga í bönkunum tapar þá hugsanlega sínu sparifé en ekki ef stjórnvöld axla sína ábyrgð vegna slíkra skuldbindinga bankans.

En … æji … þetta er orðið langt og leiðinlegt og kannski ætti maður bara að fara að sofa og sjá hvort það verði ekki bara einhver allt annar veruleiki þegar maður vaknar á morgun.



Annars þetta með að hafa fengið allar þessar aukasporslur, stjórnendur almenningshlutafélaga, fyrir milljarðahagnað sem líklega var aldrei raunverulegur hagnaður… erlendis hefur fólk hefur farið í fangelsi fyrir minna held ég. Og ef það fylgir með í kaupunum að heil þjóð verði gjaldþrota þá er þetta eitthvað sem kalla mætti landráðastarfsemi.

Þeir eru stórtækir síldarspekúlantar nútímans.


Er það ekki annars dálítið skondið að allir 300 þúsund íslendingarnir (og ég þar meðtalinn að sjálfsögðu) hafa núna á einni viku breyst í útlærða hagfræðinga sem vita allt betur en allir aðrir!

No comments: