Saturday, December 06, 2003

Vona að það verði hægt að halda áfram að skokka í Laugardalnum
Sá frétt á Moggavefnum um að ráðist hefði verið á konu sem var að skokka niðri í Laugardal. Þetta er náttúrlega stóralvarlegt mál en einhvern veginn var þetta líka dálítið kómísk lýsing. Hún var búin að skokka í svona 40 mínútur og þá væntanlega eitthvað milli 5 og 10 km og kom ekki einhver aulagaur skröltandi á eftir henni strax orðinn móður og másandi og þegar hann ætlaði að ráðast á hana þá bara lúskraði hún á honum. Hann sá auðvitað sitt óvænna og hundskaðist burt. Vona bara að þetta komi ekki í veg fyrir skokk í Laugardalnum því það er svona yfirleitt með því frábærara sem hægt er að gera!

Annars hef ég stundum verið að hugsa þegar ég fer út að skokka hvort þetta gæti gerst að einhver færi að ráðast á mann örþreyttan eftir að hafa skokkað bæinn þveran og endilangan. Vona nú eiginlega að slíkt fari ekki að gerast enda ekki eftir miklu að slægjast hjá skokkara a.m.k. ekki í peningamagni þar sem maður skokkar nú yfirleitt ekki með mikil auðæfi á sér.

No comments: