Monday, December 29, 2003

Já annars, fór á skíði í dag

Upp í Bláfjöll og eins og þeir sem þekkja mig geta látið sér detta í hug þá voru það plampskíðin. Varð reyndar bara endalaust plamb afturábak og áfram. Reyndar fullmikið afturábak því brójinn sem var með mér skildi mig bara eftir á meðan ég var að bækslast áfram (er annars nokkuð x í bæxlast, nei það væri of mikil snilld ;-) og rann minnst hálfan metra afturábak fyrir hvern heilan sem mér tókst að paufast áfram. Við nánari eftirgrennslan á rifflum undir miðjum skíðunum sem eiga að koma í veg fyrir þetta bakskrið kom í ljós að þær hafa orðið eftir einhvers staðar uppi á Oki líklega (þangað var sko síðasta "alvöru" skíðaferð) eða einhverjum öðrum ólukkans skaflinum sem ég hef arkað á liðnum árum. Eða kannski nánar tiltekið þá hafa þær dreifst víða. Reyndar var sett fram sú ófrumlega kenning að það væri einhver gamall vax rennslisáburður í rifflunum. Jú það gæti alveg hugsast en annars, hvaða rifflum?
Niðurstaðan varð sú að að ég hafi um fimm kosti að velja:

1. Hætta á skíðum og öðru óþægilegu útisporti en snúa mér þess í stað að hannyrðum

2. Fara að leggja almenn meiri áherslu á hannyrðirnar og finna mér skíðafélaga sem eru svona meira fyrir almenn rólegheit. (þá gætu sko gömlu beyglurnar dugað áfram)

3. Sætta mig við það að ég hafi náð að breyta riffluðu skíðunum í fyrsta flokks áburðarskíði og fara bara að juða áburði á þau.

4. Fræsa rifflur í skíðin

5. Fara á stúfana og nota jólagjafasjóðinn úr vinnunni minni til að versla eitt stykki svona:

Sjá nánar hér.


Stundum er sagt að sá á völina sem á kvölina. Skil það nú reyndar ekki, mig langar mest til að eiga Völuna og sé ekki neina kvöl í því - en það stendur ekkert til boða er það. Af þessum kostum þá er sá númer 3 og 4 mest spennandi en einhvern veginn held ég að ég taki kost númer 5 og breyti bara gömlu skíðunum í skíðasleða. Það eru því töluverðar líkur á því að ég sjáist í Nano... ég meina Útilífi í Kringlunni á morgun mánudag þar sem ég er búinn að lýsa yfir aðgerðaleysi í vinnunni millijóla og nýárs. Sá annars auglýsingu frá Útilífi þar sem þeir voru að guma af gönguskíðum á verði eitthvað frá þúsund og eitthvað. En einhvern veginn grunar mig að það séu ekki alveg eins gönguskíði og ég er á höttunum eftir.

Annars í Bláfjöllunum. Það var ógeðislega kalt og frekar lítill snjór. T.d. ekki hægt að fylgja ljósastaurunum á göngusvæðinu með góðu móti. Og síðan sakir þessa bakskriðs hjá mé þá var ferðin frekar snubbótt. Það var ekkert gaman hjá mér að paufast þetta og ekkert gaman heldur hjá brójanum að þurfa að bíða eftir mér í 10 mínútur á 5 mínútna fresti eða þannig!